04.11.1980
Sameinað þing: 13. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í B-deild Alþingistíðinda. (270)

46. mál, breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Fsp. sú á þskj. 50, sem hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson hefur gert til mín, hljóðar efnislega á þá leið, hvort ríkisstj. vilji taka til endurskoðunar fyrirætlanir um breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils með tilliti til þess, að sú aðgerð sé ekki liður í víðtækri stefnumótun og framkvæmd til að ráða bót á verðbólgunni og koma á stöðugleika og jafnvægi í efnahagslífi þjóðarinnar og geti því aukið á upplausn og vantrú manna á gjaldmiðlinum í stað þess að treysta hann.

Þess er að geta í þessu sambandi, að með setningu laga nr. 35 frá 29. maí 1979 um breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils var ákveðið að frá og með 1. jan. 1981 hundraðfaldist verðgildi krónunnar. Jafngildir þá ein króna 100 gömlum krónum og aurar verða teknir upp á nýjan leik. Samfara verðgildisbreytingunni fara fram gjaldmiðilsskipti. Nýir seðlar og mynt verða látin í umferð frá 1. jan. 1981 samhliða því að núgildandi seðlar og mynt verða innkölluð í áföngum. Seðlabankanum hefur verið falið að hafa umsjón með framkvæmd gjaldmiðilsbreytingarinnar.

Fsp. felur það í sér í raun og veru, að fyrirspyrjandi gerir ráð fyrir að gjaldmiðilsbreytingin verði ekki liður í víðtækri stefnumótun í efnahagsmálum. Ég er þeirrar skoðunar, og það eru fleiri, eins og ég kem að á eftir, að breytt verðgildi íslenska gjaldmiðilsins eigi að verða liður í víðtækri stefnumótun í efnahagsmálum og ef ekki, þá nái sú aðgerð alls ekki tilætluðum árangri. Ég er alveg sammála fyrirspyrjanda um þetta. Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að vitna til kafla úr stefnuræðu hæstv. forsrh., sem flutt var hér á hv. Alþ. fyrir skömmu, en þar segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Sú breyting á íslenskri krónu, sem verður nú um næstu áramót, er í meginatriðum formbreyting, en hefur einnig raunverulegt gildi. Hún á í fyrsta lagi að auka traust manna á krónunni. Þegar hver króna verður hundrað sinnum meira virði en nú, þá er hún komin í hóp annarra gjaldmiðla á Norðurlöndum. En þessi hugarfarsáhrif geta því aðeins orðið að gagni, að aðrar ráðstafanir fylgi, sem sannfæri almenning um, að alvara sé á ferðum til þess að treysta gildi krónunnar og veita verðbólgunni viðnám. Samfara þessari breytingu hefur ríkisstj. í huga margháttaðar efnahagsaðgerðir.“

M.ö.o. lýsir hæstv. forsrh. því yfir í stefnuræðu sinni, að samfara fyrirhugaðri gjaldmiðilsbreytingu muni ríkisstj. beita sér fyrir aðgerðum í efnahagsmálum. Sama kemur raunar fram í aths. við fjárlagafrv., en þar segir um þetta efni orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Á næstunni verða ákvarðanir teknar um aðgerðir í efnahagsmálum, sem tengjast væntanlegri gjaldmiðilsbreytingu.“

Þannig fer ekkert á milli mála að bæði forsrh. og fjmrh. hafa lýst yfir að það verði gerðar aðgerðir í efnahagsmálum í tengslum við gjaldmiðilsbreytinguna. Menn verða svo að bíða og sjá til hverjar þær verða og að hvaða gagni þær koma.

Til viðbótar við þetta vildi ég láta það koma fram, að í tilefni af þessari fsp. átti ég viðræður við Seðlabankann um hvort hugsanlegt væri að fresta þessari aðgerð eða breyta til frá því sem ákveðið hefur verið með setningu laganna og einnig með setningu reglugerðar um framkvæmd þeirra, sem sett var 13. maí 1980. Það er nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir að svona aðgerð verður að undirbúa með löngum fyrirvara. Það er t.d. alllangt síðan hætt var framleiðslu á núverandi mynt og seðlum. Það yrði skortur á gjaldmiðli ef hætt yrði nú við breytinguna, hreinlega skortur á gjaldmiðli, og hætt við að það kæmi til öngþveitis í efnahagsmálum, viðskiptamálum og atvinnumálum. Þegar af þessari ástæðu er ekki unnt að fresta breytingunni. Það er skoðun Seðlabankans að það sé mjög miklum erfiðleikum háð að sjá atvinnu- og viðskiptalífinu fyrir mynt og seðlum, sennilega útilokað. Þegar af þeirri ástæðu er ekki að mínu mati mögulegt að snúa við að þessu leyti til. Ég vil bæta því við, að ráðh. í ríkisstj. hafa gefið um það yfirlýsingar að samhliða þessari gjaldmiðilsbreytingu verði gerðar aðgerðir í efnahagsmálum, og vil ég endurtaka, að ég álít að breytingin nái alls ekki tilgangi sínum, fjarri því, nema svo verði. Hv. þm. verða svo að bíða og sjá til hvernig til tekst hjá hæstv. ríkisstj. í því efni.