24.02.1981
Efri deild: 56. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2521 í B-deild Alþingistíðinda. (2701)

193. mál, viðnám gegn verðbólgu

Frsm. 1. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður gat ekki varist brosi þegar hann gekk úr ræðustól og hló við, enda held ég að honum hafi sjálfum blöskrað þessi ræða. (ÓRG: Það er misskilningur.)

Frv. það, sem hér er til umr., fjallar um staðfestingu Alþingis á brbl. sem ríkisstj. gaf út á gamlársdag. Í frv. felst lögþvinguð einhliða fórn launþega og bótaþega almannatrygginga sem nemur 7% af verðbótum launa og bótafjárhæðum hinn 1. mars n.k. frá því sem verið hefði að óbreyttum lögum. Þetta þýðir það, að skerðing verkamannalauna verður núna með Ólafslögum og brbl. 41 574 gkr. 1. mars og þá er miðað við mánaðarlaun verkamanna með tveggja stunda eftirvinnu. Þessi skerðing þýðir einnig ásamt skerðingu Ólafslaga, að t.d. tekjutrygging hjóna lækkar um 11 600 gkr. hinn 1. mars. Taldi hv. síðasti ræðumaður stórkostlegan árangur í viðureigninni við verðbólguna og stórkostlegan sigur fyrir sinn flokk að þetta skyldi hafa náð fram að ganga. Öðruvísi mér áður brá, í febr. 1978 t.d. og síðar.

Í frv. sjálfu er ekkert bitastætt ákvæði til að draga úr þessari kjaraskerðingu bótaþega lífeyristrygginga, ekki einu sinni þeirra sem þurfa einvörðungu að lifa af tekjutryggingu einni saman, og sama gildir um láglaunafólk. Samkv. frv. mun kaupmáttur þess skertur verulega og í líkingu við það sem verður um hálaunafólk. Þess munu ekki dæmi, a.m.k. síðustu áratugina, að svo hafi verið staðið að lagasetningu sem þessari af hálfu ríkisstj. og Alþingis.

Þrátt fyrir þessa einhliða fórn launþega og bótaþega almanntrygginga næst ekki meiri árangur en svo í viðureigninni við verðbólguna að hún verður svipuð og áður eða um og yfir 50%, að mati Þjóðhagsstofnunar. Þá felast í frv. og efnahagsáætlun ríkisstj. ákvæði um verðlagshöft, falska gengisskráningu og stórhækkun vaxta sem nefna má uppskrift fyrir atvinnuleysi.

Við hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, sem skipar ásamt mér 1. minni hl. hv. fjh.- og viðskn., höfum leyft okkur að flytja á þskj. 445 brtt. við frv. Þessar brtt. felast í að tryggja hag láglaunafólks og bótaþega atmannatrygginga og vernda kaupmátt þessa fólks þrátt fyrir skerðingu verðbóta á laun um 7% hinn 1. mars. Þá fela þessar till. okkar í sér verulega hjöðnun verðbólgu 1. maí, skattalækkun og ekki síst ráðstafanir til að koma í veg fyrir atvinnuleysi, sem stórhætta er á að óbreyttri stefnu ríkisstj.

Sjálfstfl. hefur stundum þurft að standa að lagasetningu á Alþingi sem öðrum þræði hefur falist í að skerða verðbætur á laun. Þá hefur þess verið gætt í hvert sinn að í þeirri löggjöf sjálfri fælust ákvæði sem drægju úr kaupmáttarskerðingu og kæmu í veg fyrir kjaraskerðingu láglaunafólks og bótaþega almannatrygginga. Þá hefur það verið skoðun Sjálfstfl., að við slíkar aðstæður þyrfti hið opinbera að ganga á undan í sparnaði og niðurskurði útgjalda og skattalækkun:

Ekki fer milli mála að verðbótaskerðing launa og bóta lífeyrisþega almannatrygginga er kjarni þessara brbl. Svo sem fram kemur í bréfi hagstofustjóra er ótvírætt að ákvæði 5. gr. laganna ná til tryggingabóta. Bréfið og útreikningur Hagstofunnar eru birt með nál. okkar sem fskj. II. Í þessu bréfi segir orðrétt:

„Hins vegar mun skerðing verðbóta í framkvæmd ávallt hafa gilt gagnvart bótum atmannatrygginga, nema annað hafi verið ákveðið sérstaklega í viðkomandi lögum eða annars staðar.“

Í útreikningi Hagstofunnar, sem fylgir sem fskj. með nál. okkar, kemur fram að hækkun framfærsluvísitölu frá 2. nóv. 1980 til 1. mars 1981 er 14.32 stig. Samkv. skerðingu Ólafslaga vegna búvörufrádráttar og verðhækkunar áfengis og tóbaks dragast frá þessu 2.21% þegar kaupgjaldsvísitala er reiknuð, en vegna viðskiptakjara bætast 0.84% við kaupgreiðsluvísitöluna. Þá hefði hún átt að hækka um 12.95% hinn 1. mars, en vegna ákvæða brbl. og þessa frv. lækkar þessi tala um 7% og kaupgreiðsluvísitalan verður 5.95% hinn 1. mars. Þessi skerðing nær einnig til bóta almannatrygginga, eins og ég gat um áðan, samkv. bréfi hagstofustjóra, nema öðruvísi verði ákveðið í lögum eða stjórnvaldsúrskurði.

Síðar á árinu á skerðing samkv. 50. gr. Ólafslaga að falla niður þegar kaupgjaldsvísitalan er reiknuð á laun sem nema 725 þús. gkr. eða lægri upphæð, en haldast í gildi gagnvart útreikningi á hærri laun. Hinn 1. júní og síðar verður því um tvær kaupgreiðsluvísitölur að ræða sem oft og tíðum þarf að nota báðar til að reikna út verðbætur eins launþega.

Afnám þessara skerðingarákvæða á laun hafa sáralitla þýðingu til að bæta láglaunafólki þá kaupmáttarskerðingu sem felst í 5. gr. Hér er um að ræða frádrátt frá framfærsluvísitölu sem stafar af hækkun launaliðar bónda í búvöruverði og ákvæði samkv. 3. tölul. 50 gr. Ólafslaga um áhrif viðskiptakjara.

Viðskiptakjör hafa versnað mjög síðan Ólafslögin voru sett og hefur það haft í för með sér 16.9% skerðingu verðbótavísitölu fram til 1. mars í ár. Nú hafa viðskiptakjör á hinn bóginn batnað og fá launþegar nú 1. mars 0.84% kauphækkun vegna þessa ákvæðis. Kaupuppbótin hjá verkamanni 1. mars nemur líklega rúmlega 4000 gkr. vegna viðskiptakjarabata. Einmitt þá, þegar svo er ástatt, er afnumið þetta ákvæði og sagt að það sé til hagsbóta fyrir launafólk! Þjóðhagsstofnun spáir því, að viðskiptakjör hvorki versni né batni það sem eftir er yfirstandandi árs. Flest bendir þó til þess, að þau fari heldur batnandi en hitt. T.d. hefur ekki orðið verðhækkun á frystum fiski í Bandaríkjunum í tvö ár og líkur taldar á að þar fari verð þessarar mikilvægu útflutningsvöru okkar að hækka. Það er því einkennileg kjarabót fyrir láglaunafólk að afnema áhrif viðskiptakjara á laun þegar svo er ástatt. Þessi „kjarabót“ láglaunafólki til handa er sögð hafa náðst vegna harðrar baráttu forustumanna Alþb. í launþegasamtökum, ríkisstj. og á Alþingi. Ekki veit ég hvort ástæða er til þess að óska launþegum til hamingju með slíka forustumenn.

Ýmsir stjórnarsinnar hafa haldið því fram, að launþegar skipti á sléttu með þessum lögum í kaupmætti, eins og það er orðað. Þjóðhagsstofnun hefur látið fjh.- og viðskn. í té útreikninga sem birtir eru í nál. okkar. Þar kemur allt annað í ljós. Fram kom á sameiginlegum fundi fjh.- og viðskn. Ed. og Nd. frá hálfu forstjóra Þjóðhagsstofnunar að kaupmáttur launa á 4. ársfjórðungi ársins 1981 mundi verða 5–6% minni en á 4. ársfjórðungi ársins 1980. Nú er ekki hægt að kenna um að viðskiptakjör versni, því eins og ég sagði áðan gerir Þjóðhagsstofnun ráð fyrir að viðskiptakjör hvorki versni né batni það sem eftir er af þessu ári.

Í þessum útreikningum Þjóðhagsstofnunar, sem birtast í nál., kemur í ljós að kaupmáttur kauptaxta félaga í ASÍ rýrnar um 5.2% 1. mars og er minni út allt árið vegna áhrifa þessara brbl. en verið hefði ef engin lög hefðu verið sett.

Ekki er öll sagan sögð þótt tíundað sé hver sé kaupmáttarskerðing taxtakaups launþega og bótaþega almannatrygginga samkv. þessum lögum. Samtímis útgáfu brbl. var öll opinber þjónusta hækkuð um 10% og áformuð stórfelld skattahækkun þriðja árið í röð á allan almenning.

Þessi hækkun skatta, sem áformuð er milli áranna 1980 og 1981, er að raungildi sem hér segir á verðlagi fjárlaga 1981: Orkujöfnunargjald hækkar skatta frá fyrra ári um 8 milljarða gkr., innflutningsgjald á sælgæti, sem er nýr skattur, um 1200 millj. gkr., nýtt vörugjald á sælgæti og gosdrykki um 3600 millj. gkr., skattahækkun á bensín umfram verðlag hækkar skatta um 4700 millj. kr., hækkun tekju- og eignarskatta miðað við skattvísitölu 145 hækkar tekju- og eignarskatta um 10.5 milljarða gkr., miðað við breytingar á tekjum milli áranna 1980 og 1981. Samtals eru þetta 28.5 milljarðar gkr., en frá þessu dregst skattalækkun vegna afnáms aðlögunargjalds, afnáms nýbyggingargjalds og áformaðrar tollalækkunar. Þar er um að ræða 4300 millj. gkr. Er niðurstaðan þá sú, að áform eru um skattahækkun milli áranna 1980 og 1981 sem er um 24 milljarðar gkr. að raungildi.

Þessi skattahækkun bætist við fyrri hækkanir skatta sem núv. ríkisstj. og ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar bera ábyrgð á frá hausti 1978. Heildarhækkun skatta frá þeim tíma er orðin 70–80 milljarðar gkr. að raungildi á fjárlagaverði í ár eða rúmlega 1700 þús. gkr. á hverja 5 manna fjölskyldu í landinu.

Þegar þannig er staðið að málum og ríkisstjórnir fara æ dýpra í vasa skattborgaranna á tímum rýrnandi þjóðartekna er ekki von að kjör almennings batni. Óljós loforð í svonefndri efnahagsáætlun ríkisstj. um óverulega tilslökun á þessum skattahækkunum, sem blasa við, eru almenningi harla lítils virði.

Í 2. gr. brbl., sem þessu frv. er ætlað að staðfesta, er kveðið svo á að fresta skuli verðtryggingu sparifjár og inn- og útlána samkv. 33. gr. svonefndra Ólafslaga. Í 3. gr. er á hinn bóginn kveðið svo á að stofna skuli þegar í stað til verðtryggðra innlána sex mánaða sparifjárreikninga í bönkum og sparisjóðum, en þetta þýðir auðvitað í raun verðtryggingu inn- og útlána að verulegu leyti þegar í stað og er um leið lögfesting á hávaxtastefnu án tillits til allra aðstæðna annarra í þjóðfélaginu. Mér hefði þótt tíðindum sæta fyrir allnokkru ef slíkar hugmyndir hefðu komið frá Alþb. Þegar Lúðvík Jósepsson var og hét var annað uppi á teningnum.

Þeir bankamenn, sem komu á fund fjh.- og viðskn. til þess að skýra frá vaxtastefnu sem felst í þessum greinum laganna, kinokuðu sér við að skýra þær í samhengi. Sá þeirra, sem varkárastur var, sagði að þær „virtust ganga sitt í hvora áttina“. Þegar þessir mætu bankamenn voru spurðir hvernig þessi ákvæði samræmdust 10. lið svonefndrar efnahagsáætlunar ríkisstj. þar sem segir: „Stefnt verði að almennri lækkun vaxta 1. mars“, fengust engin svör. Segja má að þá hafi vel átt við það orðtæki, sem stundum heyrist hér í þingsölum, að þeir „vöfðu hreinlega tungu um höfuð sér“.

Þegar fjh.- og viðskn. óskaði eftir skriflegu svari um það, með hvaða hætti unnið væri að slíkri vaxtalækkun, svaraði hagfræðideild Seðlabankans þannig orðrétt, eins og fram kemur í fskj. III með þessu nál.: „Um það hvernig unnið sé að því stefnumiði að lækka vexti 1. mars, treystist hagfræðideild ekki að svara að svo stöddu“.

Og hvað eru nú margir dagar, hæstv. ráðherrar, þangað til þessi ákvörðun á að koma til framkvæmda? Hagfræðideild Seðlabankans getur ekkert um það sagt og veit ekkert hvernig unnið er að þessu máli. (Fjmrh.: Þeir eru nú ekki einir um að eiga almanak.)

Augljóst er, hver ástæðan er fyrir þessu svari hagfræðideildar Seðlabankans, ef skoðuð eru fylgigögn bréfs bankans í fskj. með nál. Þar kemur skýrt í ljós, að ákvæði 3. gr. laganna um að skylda banka og sparisjóði til að hafa á boðstólum verðtryggða sex mánaða innlánsreikninga, sem síðar var ákveðið að bæru 1% vexti, þýddi stórfellda hækkun innláns- og útlánsvaxta svo til þegar í stað.

Bankamenn og hagfræðideild Seðlabankans hafa svo sannarlega átt erfitt um svör þegar spurt er um hversu mikla hækkun inn- og útlánsvaxta sé að ræða raunverulega miðað við fyrra vaxtakerfi. Skrifleg svör Seðlabankans koma fram í áðurnefndu fskj. með nál. Þar eru raunvextir innlána í 55% verðbólgu neikvæðir á bilinu 12.9–5.8% í núverandi vaxtakerfi, en verðtryggð innlán bera á hinn bóginn jákvæða vexti. Útlán bankanna verða a.m.k. þeim mun dýrari sem þessi vaxtamismunur gefur til kynna. Vafasamt er hvort nokkru sinni fyrr hefur verið tekin ákvörðun um meiri hækkun vaxta en með 3. gr. brbl.

Þetta eru að sjálfsögðu góðar fréttir fyrir sparifjáreigendur og verður vonandi til að efla innlendan sparnað að mun. Spurningin er sú, hvort atvinnuvegirnir eru við núverandi aðstæður og stjórnarfar í stakk búnir til að taka á sig þessa miklu raunvaxtahækkun.

Taprekstur flestra greina atvinnulífsins undanfarin ár er viðurkennd staðreynd, m.a. í greinargerðum fjárlagafrv. ríkisstj. og hæstv. fjmrh. Enn er afkomu þeirra á þessu ári stefnt í tvísýnu svo að ekki sé meira sagt. Greiðslustaða atvinnufyrirtækja er afleit og vanskil mikil.

Hvað þýðir stórhækkun raunvaxta, spennitreyja verðlagshafta, falskt gengi krónunnar og skattpíning við slíkar aðstæður? Skyldi þetta vera aðbúnaður sem auðveldar vélvæðingu, aukna framleiðni, gróanda atvinnulífs, bætta aðbúð verkafólks og þar með bætt lífskjör í landinu? Svarið liggur í augum uppi. Þessi stefna séð í samhengi, lögbinding hávaxtastefnu við þessar aðstæður, er í raun uppskrift fyrir stöðvun atvinnuveganna og atvinnuleysi.

Almennt er talið að í byrjun des. á s.l. ári hafi gengi krónunnar verið 8–9% of hátt skráð til þess að útflutningsatvinnuvegirnir hafi fengið kostnað sinn við öflun gjaldeyris uppi borinn. Vegna mikils gengissigs í des. var þetta hlutfall komið niður í 3–4%. Eftir ákvörðun fiskverðs skortir 5–6% á að gengi krónunnar sé „rétt“ skráð, miðað við að allar greinar sjávarútvegsins fái uppi borinn kostnað við gjaldeyrisöflun. Hæstv. sjútvrh. viðurkenndi þessa staðreynd m.a. í umr. hér í hv. deild í gær. Ástandið væri auðvitað miklu verra ef „himnasendingin“ sem er hækkun dollarans vegna vinsælda Reagans í Bandaríkjunum miðað við Evrópugjaldmiðla, hefði ekki komið til.

Þessi stefna, að halda uppi fölsku gengi eða jafnvel frystu á tímum 50–60% innlendrar verðbólgu, hlýtur að leika sjávarútveginn grátt svo og útflutningsiðnaðinn, enda kom hér fram í umr. í gær að sumar greinar sjávarútvegsins yrðu reknar með verulegum halla. Samkeppnisiðnaðurinn er þó jafnvel enn verr settur þar sem allar innfluttar iðnaðarvörur framleiddar erlendis af erlendu verkafólki eru raunar niðurgreiddar þegar slík stefna er uppi á teningnum. Til viðbótar óhagstæðu gengi hefur ekki tekist að fá stjórnvöld til að bæta samkeppnisiðnaðinum missi 3% aðlögunargjalds.

Ákvæði 1. gr. um „herta“ verðstöðvun, hækkun raunvaxta samkv. 3. gr. og millifærslukerfi, sem þýðir falskt gengi, ásamt sífelldri hækkun skatta á atvinnuvegina og landsfólkið eru augljóslega tilvalin uppskrift fyrir atvinnuleysi, eins og ég sagði áðan.

Það er mjög athyglisvert, að með brbl., sem staðfesta á með þessu frv., vinnur ríkisstj. það vel lukkaða afrek að hjakka í sama óðaverðbólgufarinu og gert var ráð fyrir að yrði í fyrra, án þess að eitt eða neitt væri gert til að hamla gegn verðbólgunni. Þetta er nú allur árangurinn.

Þjóðhagsstofnun spáði því í apríl í fyrra, að verðbólgan yrði 50–55% árið 1980 ef ekkert væri að gert. Forsrh. sagði þá að vísu í sjónvarpi: „Ef áform okkar standast gæti verðbólgan orðið 40% frá ársbyrjun til ársloka, við skulum segja að hún verði í mesta lagi 45% á árinu. Ég trúi því ekki að hún verði meiri“, sagði hæstv. ráðh. í sjónvarpinu. — Þetta var að sönnu tilslökun frá „niðurtalningunni“ og forsendum fjárlaga sem gerðu ráð fyrir 31% verðbólgu frá ársbyrjun til ársloka.

Ég mótmælti þessum sjónvarpsummætum forsrh. í utandagskrárumr. í þessari hv. deild í fyrra, þar sem hæstv. forsrh. átti að hafa spá Þjóðhagsstofnunar í sínum fórum og vita betur þegar hann viðhafði þessi ummæli. Ég sagði þá, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég óska hæstv. ráðh. til hamingju með að lesa þessa umr. eftir nokkra mánuði og sjá hvað hér hefur farið fram. Það er kannske rétt að enda á því að segja að reynslan er ólygnust. Og ég er algerlega óhræddur að láta reynsluna dæma hvor okkar hæstv. ráðh. hefur farið hér með rétt mál. En ég tel það mjög alvarlegt þegar þjóðin er beinlínis blekkt í málum sem þessum, eins og hæstv. ráðh. gerði í sterkasta fjölmiðli þjóðarinnar.“

Þetta sagði ég orðrétt við umr. utan dagskrár í apríl í fyrra, og hefði hæstv. forsrh., sem raunar ber ábyrgð á þessu frv., gjarnan mátt vera viðstaddur og hlýða á þau orð einu sinni enn.

Og reynslan reyndist líka ólygnust. Verðbólgan varð 55% frá 1. des. 1979 til 1. des. 1980 og slík skriða verðhækkana varð í des. í fyrra, m.a. vegna kjarasamninga sem ríkisstj. hafði veruleg áhrif á, að verðbólga frá ársbyrjun til ársloka varð 58.9%, en ekki 40–45% eins og hæstv. forsrh. hélt fram í þessari hv. deild í apríl í fyrra og sagðist ekki trúa að hún yrði meiri vegna aðgerða sem ríkisstj. ætti uppi í erminni.

Nú spáir Þjóðhagsstofnun um 50% verðbólgu í kjölfar þessara brbl. á árinu 1981, en hæstv. forsrh. er enn að tala um 40 prósentin sín frá því í fyrra. Hæstv. viðskrh. er þó svo raunsær að hann þreytist ekki á að tala um að frekari ráðstafana sé þörf til að ná verðbólgunni niður fyrir það mark sem Þjóðhagsstofnun spáir nú.

Þegar ég tala um hæstv. viðskrh. minnir það mig á að hæstv. ráðh. skrifaði hv. fjh.- og viðskn. bréf að ósk nefndarinnar. Þetta bréf er dæmigert um þau svör sem hæstv. ráðh. hafa viðhaft á Alþingi þegar þeir hafa verið spurðir um hvað ríkisstj. hafi á prjónunum til þess að veita viðnám hinni geigvænlegu verðbólgu sem tröllriðið hefur þjóðarbúskapnum undanfarin ár. Raunar er þetta bréf keimlíkt þeim svörum sem hæstv. ráðherrar gefa um öll önnur mál, sbr. utandagskrárumr. í Sþ. í gær. Þetta bréf er stutt, eins og formaður fjh.- og viðskn. sagði hér í sæti sínu, og ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa það orðrétt. Það hljóðar svo:

„Fjárhags- og viðskiptanefnd Alþingis hefur með bréfi, dags. 16. febrúar s.l., spurt rn., hvernig verðlagsmálum og verðlagseftirliti verði hagað eftir 1. maí n.k.

Ríkisstj. er að fjalla um frekari aðgerðir í efnahagsmálum, en niðurstöður liggja ekki fyrir enn. Verðlagsmálin eru einn þáttur þessara mála.

Af þessum ástæðum er ekki unnt að svara spurningum nefndarinnar á þessu stigi málsins.

Tómas Árnason.“

Þetta held ég að sé dæmigert svar sem segir ekki neitt. Raunar er þó eitt sem ávallt hefur heyrst frá þessari ríkisstj. frá því að hún kom til valda fyrir rúmu ári. Hún segir í raun við þjóðina: Við vitum ekki neitt og ætlum því ekki að segja ykkur neitt um hvað við ætlum að gera.

Sannleikurinn er sá, að ef ríkisstj. grípur ekki til frekari úrræða í baráttunni við verðbólguna en fram koma í þessum brbl. um bráðabirgðaúrræði eru allar tíkur á að sagan frá því í fyrra endurtaki sig og þegar kemur að kjarasamningum í haust og um áramótin stöndum við í nákvæmlega sömu sporum og í fyrra, þegar verðbólgan fór svo vaxandi að Þjóðhagsstofnun spáði 70% verðbólgu á árinu 1981 ef ekkert væri að gert.

Það er næsta kátbroslegt að hæstv. ríkisstj. miðar árangur sinn í viðureigninni við verðbólgu við þessa 70% verðbólguspá Þjóðhagsstofnunar. Aðgerðaleysi ríkisstj. í efnahagsmálum í fyrra og afskipti af kjarasamningum urðu til þess, að alger ringulreið og 70% óðaverðbólgumet blasti við. Með einhliða fórn og kaupmáttarskerðingu bótaþega almannatrygginga og launafólks — jafnt láglauna- sem hálaunamanna — nær ríkisstj. verðbólgunni niður á það stig sem henni var spáð í fyrra ef hún hefði þá haft vit á að sitja með hendur í skauti og gera ekki nokkurn skapaðan hrærandi hlut, hvorki til ills né góðs. Þetta er árangurinn sem næst með þessum fórnum almannatrygginga bótaþega og launþega. Því má með sanni segja um þessi brbl., að þau séu of mikil og einhliða fórn launafólks og lífeyrisþega fyrir of lítinn árangur. Það hefur í rauninni ekkert gerst, ekkert áunnist annað en að bæta fyrir „alvarleg mistök“ — svo að notuð sé fleyg orð hæstv. forsrh. — alvarleg mistök ríkisstj. sjálfrar á s.l. ári og kippt er til baka allri grunnkaupshækkun launþega sem sum launþegasamtökin voru upp undir ár að semja um. Ég óska hv. frsm. fjh.- og viðskn., hv. formanni þingflokks Alþb., til hamingju með það, hvað hann er ánægður með þessi brbl.

Þessi brbl. sýna, svo að ekki verður um villst, að núv. hæstv. ríkisstj. var mynduð án þess að samstaða væri um nein úrræði í viðureigninni við þá óðaverðbólgu sem hér ríkir og gegnsýrir og sýkir íslenskt efnahagslíf. Hin margfræga „niðurtalningarleið“ varð ríkisstj. svo rækilega til skammar á s.l. ári að niðurtalning er bannorð í nýrri efnahagsáætlun ríkisstj., sem er í rauninni óljóst orðagjálfur. Í stjórnarsáttmálanum segir orðrétt: „Á árinu 1981 verði ákveðin tímasett mörk í samræmi við markmið um hjöðnun verðbólgu.“ — Og ef ég mætti biðja einhvern hæstv. ráðh. að vera viðstaddan ætla ég að varpa fram fsp. (Forseti: Já, það mun verða gerð tilraun til þess að fá ráðh. hingað. — Ráðherrar ganga nú í salinn margir.)

Ég vakti athygli á því, hæstv. ráðherrar, að í stjórnarsáttmálanum, sem stundum er lesið upp úr hér á hinu háa Alþingi, stendur: „Á árinu 1981 verði ákveðin tímasett mörk í samræmi við markmið um hjöðnun verðbólgu.“ Ég spyr: Hvar er að finna þessi tímasettu mörk, hver eru þau og hver eru markmið ríkisstj. á árinu 1981 um hjöðnun verðbólgu? Ég tek ekki mark á því að tala um hin margfrægu 40%, sem var talað um hér í fyrra og allir vita hvernig fór um, en í fyrra, eins og þið munið, voru sett ákveðin tímasett mörk um hjöðnun verðbólgu á þeim tímamörkum þegar vísitala er reiknuð út, og ég spyr: Hver eru þessi mörk á árinu 1981 í samræmi við stjórnarsáttmála?

Það er kapítuli út af fyrir sig, að þau brbl., sem ríkisstj. gaf út á gamlársdag, eru með öllu óþörf og brjóta því í bága við það ákvæði stjórnarskrárinnar að brýna nauðsyn hafi borið til að setja þau.

1. gr. laganna er óþörf. Ríkisstj. hafði heimild í lögum til að haga verðstöðvun að eigin vild í framkvæmd.

2. gr. er óþörf vegna þess að 3. gr. tekur hana efnislega til baka og lesnar saman eru þessar greinar eins og brandari í áramótaskaupi.

Ef ríkisstj. vildi verðtryggja inn- og útlán með því að taka upp verðtryggða innlánsreikninga, sem bundnir voru til sex mánaða, hafði hún heimild til að gefa Seðlabankanum fyrirmæli um það samkv. VII. kafla Ólafslaga. Trúlega hefðu flestir menn talið að sú ákvörðun væri fullnægjandi framkvæmd á ákvæðum þess kafla.

4., 5. og 6. gr. var unnt að lögfesta á Alþingi með venjulegum hætti fyrir 1. mars, eins og verið er að gera nú, og hefði raunar verið hægt að hafa þá afgreiðslu fyrr á ferðinni.

7. gr. er enn betur fallin til skemmtunar í áramótaskaupi en 2. og 3. gr. Þar setur ríkisstj. lög um að hún hafi heimild til að gera það sem heimild er þegar fyrir í fjárlögum, þ.e. skera niður framkvæmdir, og henni sé heimilt að fresta framkvæmdum samkv. lánsfjárlögum, sem enn eru til meðferðar á Alþingi.

Sannleikurinn er sá, að það er með algerum ólíkindum hvað þessi brbl. eru mikið flausturverk. Það rennir stoðum undir ummæli hæstv. viðskrh. í blöðum um að marktækar tillögur ríkisstj. í efnahagsmálum hafi fyrst verið festar á blað á aðfangadag jóla. Trúlegri eru þessi ummæli en það, að hæstv. forsrh. hafi haft einhver úrræði í huga í apríl 1980, þegar hann trúði því ekki, eins og hann sagði orðrétt í sjónvarpi, að verðbólgan yrði meiri en 40 – 45% á síðasta ári.

Gjaldmiðilsbreyting átti sér stað um síðustu áramót. Augljóst er að almenningur hefur tekið þessari breytingu vel. Áþreifanlega hefur sannast að gjaldmiðilsbreytingin hefði getað orðið mikilvægur hlekkur í samstilltum aðgerðum gegn verðbólgunni, eins og ég leyfði mér að halda fram fyrir nokkrum árum þegar ég flutti þáltill. um hliðstæða gjaldmiðilsbreytingu. Þessi breyting hefði getað orðið almenningi nauðsynlegt ytra tákn hugarfarsbreytingar og stjórnmálamönnum brýning til allsherjarhreingerningar í efnahagsmálum til eflingar og styrktar hinum nýja gjaldmiðli. Því miður er þetta tækifæri í þann veginn að glatast til óbætanlegs tjóns fyrir þjóðina vegna úrræðaleysis og aðgerðaleysis ríkisstj.

Í athyglisverðri grein, sem dr. Jóhannes Nordal Seðlabankastjóri ritar nýlega í Fjármálatíðindi, bendir hann réttilega á hvílíkt tækifæri gjaldmiðilsbreytingin er sem þáttur í víðtækum ráðstöfunum til viðnáms gegn verðbólgu. Hann hvetur til þess að gera „samstillt átak á tiltölulega skömmum tíma“, svo að orðrétt sé vitnað í hann, gegn verðbólguvágestinum. Orðrétt segir Jóhannes Nordal, með leyfi hæstv. forseta, í umræddri grein:

„Í öðru lagi er ástæða til að benda á þann litla og yfirleitt skammæja árangur, sem náðst hefur á undanförnum árum með því að reyna að draga úr verðbólgunni með hægfara aðgerðum á tiltölulega skömmum tíma. Þótt fyrir þessari leið megi færa ýmis góð og gild rök virðist hún krefjast meira úthalds og harðara aðhalds um langan tíma en stjórnkerfi Íslands ræður við. Sannleikurinn er sá, að varta er við því að búast, að hin hagstæðu áhrif verðbólguhjöðnunar á atvinnustarfsemi og þjóðlíf fari að koma fram í verulegum mæli fyrr en verðbólguhraðinn er kominn mjög langt niður fyrir það sem hann er nú, jafnvel um helming eða meir, svo að eitthvað markmið sé nefnt. Eigi að bíða eftir slíkum árangri árum saman, er hætt við að stíflan bresti áður en svo langt er komið og allt sæki í sama far. Margt mælir því sterklega með því,“ segir dr. Jóhannes Nordal, „að reynt verði að draga úr verðbólgunni með samstilltu átaki á tiltölulega skömmum tíma, á meðan hagstæð áhrif gjaldmiðilsbreytingarinnar geta enn orðið að nokkru liði.“

Betur er ekki hægt að komast að orði, ef lýsa á þeim hugmyndum í grundvallaratriðum sem sjálfstæðismenn lögðu fram fyrir síðustu kosningar til viðnáms og hjöðnunar verðbólgu á skömmum tíma. Andstæðingum okkar tókst að afflytja og hræða fólk á þessum hugmyndum. Þær voru róttækar og óþekkt fyrirbrigði í íslenskri stjórnmálasögu, að flokkur legði þannig spilin á borðið fyrir kosningar og segði að verðbólgan yrði ekki lækkuð án nokkurra fórna allra landsmanna í bili. Fleiri gera sér nú ljóst, að þessar hugmyndir sjálfstæðismanna fólu í sér raunhæfa leið til þess að nema burt þetta illkynja þjóðarmein með „samstilltu átaki á tiltölulega skömmum tíma“ einmitt um það leyti sem gjaldmiðilsbreytingin var fyrirhuguð. Svo rammt kveður að þessari skoðun að jafnvel pólitískir andstæðingar sjálfstæðismanna játa þetta í blaðaskrifum.

Við hv. þm. Eyjólfur Konráð flytjum á þskj. 445 nokkrar brtt., en þær fela í sér skref í átt til endurreisnar íslensks efnahags- og atvinnulífs. Með slíkum aðgerðum sem þær fela í sér yrði undirbúið samstillt átak á tiltölulega skömmum tíma til viðnáms gegn verðbólgu. Ég rek nú nokkur meginatriði þessara brtt.

Í fyrsta lagi eru atvinnuvegirnir leystir úr spennitreyju með þessum brtt. Eins og áður segir er lögfesting hávaxtastefnu komin til framkvæmda samkv. 3. gr. frv. og brbl. Sú hávaxtastefna er mjög varhugaverð fyrir atvinnuvegina, svo að ekki sé meira sagt, í þeirri spennitreyju sem hörð verðlagshöft og falskt gengi eru. Úr þessum vanda er lagt til að leysa atvinnuvegina með 1. og 4. brtt., enda mundu þá skapast skilyrði til þess að verðtryggja inn- og útlán bankakerfisins án þess að hætta á stöðvun atvinnuveganna og valda atvinnuleysi.

1. brtt. fjallar um að 8. og 12. gr. verðlagslaga þeirra, er við sjálfstæðismenn og framsóknarmenn beittum okkur fyrir að fá lögfest á Alþingi árið 1978, taki gildi á ný, og 4. brtt. leggur bann við millifærslum til að halda uppi óraunhæfu gengi, útsölu á gjaldeyri og stuðla þannig að taprekstri atvinnuveganna.

Í öðru lagi miða þessar brtt. að því að vernda kaupmátt bóta almannatrygginga og láglauna. 2. brtt. felur í sér að bætur lífeyristrygginga í almannatryggingakerfinu skerðist ekki um 7%, eins og verður ef frv. verður samþykkt. Á sama tíma sem framfærslukostnaður hækkar um 14.32% eiga elli- og örorkulífeyrisþegar að fá einungis 5.95% hækkun samkv. óbreyttum brbl. og samkv. þessu frv. Hér er augljóslega um feiknalega óréttláta lögþvingaða kjaraskerðingu að ræða hjá því fólki sem minnst má sín. 7% skerðing elli- og örorkulífeyris sviptir bótaþega 3.5 milljörðum gkr. það sem eftir er af þessu ári.

Verst kemur þetta þó niður á þeim sem einvörðungu hafa framfæri sitt af bótum, þ.e. elli- og örorkulífeyrisþegum sem lifa á tekjutryggingu, en með þessu frv. er lögfest að svipta þessa aðila, sem allir eru sammála um að séu verst settir í þjóðfélaginu, 1 þús. millj. gkr. á yfirstandandi ári og rúmlega það þó. Eins og ég sagði áðan nemur þessi skerðing fyrir hjón tæplega 9 þús. gkr. á mánuði.

Þá er leitast við að vernda kaupmátt láglaunafólks og almennra launþega með skattalækkunartillögum í 5. brtt., en meginatriði þeirrar brtt. er að skattar hækki ekki. Ég undirstrika það af því, að hv. frsm. sagði áðan að við værum með óraunhæfar skattahækkunartillögur. Hér er verið að flytja brtt. til að tryggja að skattar hækki ekki frá fyrra ári á sama tíma sem verið er að skerða verðbætur á laun, eins og 5. gr. brbl. gerir ráð fyrir. Ég rakti áðan hversu miklar þessar skattahækkanir væru.

5. brtt. gerir ráð fyrir að tekju- og eignarskattur haldist óbreyttur frá fyrra ári með raunhæfri skattvísitölu miðað við tekjubreytingu milli ára. Hún er a.m.k. 51– 52% á sama tíma sem skattvísitala er ákveðin 145. Sjá allir, sem vit hafa á skattalögum, að það þýðir stórfellda skattahækkun. — Við leggjum til að lög um skatt á sælgæti og gosdrykki falli úr gildi. Þarf ekki að rökstyðja hvers konar öngþveiti þessi skattur hefur valdið. Sérstakt vörugjald leggjum við til að lækki um 6% og söluskattur um 2%. Samtals léttir þetta sköttum af almenningi sem nema 25 milljörðum gkr. eða nálægt því sem áformað er samkv. fjárlögum að hækka skatta frá því í fyrra, eins og ég sagði áðan. Það er því algerlega úr lausu lofti gripið og ég vísa því til föðurhúsanna — og næsta hlálegt að heyra talsmann Alþb. halda því fram — að við séum hér að flytja skattalækkunartillögur sem séu atger sýndarmennska. Í okkar huga er það lágmarkskrafa að ekki sé stefnt að stórfelldri skattahækkun þegar verðbætur eru skertar eins og frv. gerir ráð fyrir. Í fjárlögum eru 11 milljarðar gkr. „til efnahagsráðstafana.“ Niðurskurður samkv. 7. gr. yrði þá 14 milljarðar gkr. eða rúmleg það, þar sem örðugt er að meta nákvæmlega tekjutap ríkissjóðs í þessu dæmi.

Í brtt. okkar við 7. gr. er lögð áhersla á að lækka ekki síður rekstrarútgjöld ríkissjóðs en framkvæmdaliði, eins og gert er í frv. sjálfu. Hæstv. ríkisstj. virðist ekki koma auga á nokkra einustu leið til að lækka ríkisútgjöldin að öðru leyti en skera niður framkvæmdir. Það er eitt út af fyrir sig stórkostlegt nýmæti að sjá a.m.k. í till. sem Alþb. styður. Við leggjum áherslu á að ríkisstj. leggi hugmyndir sínar um lækkun rekstrarútgjalda, lækkun útgjalda, sem eru lögbundin, og framkvæmdaútgjalda, fyrir Alþingi og fjvn. Ég get lýst því hér yfir að ég mun ekki taka á þeim lækkunartillögum á einn eða annan óábyrgan hátt.

Í fjórða lagi er að geta um eitt mikilvægasta atriðið í þessum brtt., fyrir utan skattalækkanir og verndun á kaupmætti bótaþega almannatrygginga. Eitt meginatriðið í þessum tillögum er að þær mundu þýða hjöðnun verðbólgu um 2% 1. maí. Þær mundu lækka framfærslu- og verðbótavísitölu vegna lækkana á veltusköttum 1. maí um 2%. Þetta mundi lækka greidd laun í landinu að krónutölu um 20 milljarða gkr. frá 1. júní og ríkissjóðs um 1600 millj. gkr.

Ég vil taka það skýrt fram, að við sjálfstæðismenn erum reiðubúnir að ræða ýmsar leiðir í niðurfærslu ríkisútgjalda, og það er úr lausu lofti gripið að við höfum engar hugmyndir í þeim efnum. Ég skal nefna ýmis dæmi ef hv. formaður fjh.- og viðskn. vildi vera hér inni.

Ég vil segja honum það, að við værum alveg reiðubúnir t.d. að tala um niðurfærslu á framlögum til fjárfestingarsjóða, ef féð er notað til skattalækkana, en ekki til þess að þenja út ríkisbáknið, eins og hv. þm. hefur staðið að. Nú þegar fjárfestingarsjóðir eru verðtryggðir, bæði innlán og útlán fjárfestingarsjóða, er engin ástæða til að halda þeim á ríkisframfæri, eins og verið hefur að miklu leyti, en það er skýlaus krafa okkar sjálfstæðismanna að það fé sé notað til skattalækkana, en ekki til að þenja út ríkisbáknið.

Við höfum margbent á að í mörgum tilfellum er óhófleg yfirvinna hjá ýmsum ríkisstofnunum. Hefur undirnefnd fjvn. oft gert ýmsar tillögur og unnt er að stemma stigu við því, að yfirvinna sé eins óhófleg og sums staðar er hjá ríkisstofnunum, og talið að það væri þá skárra að ráða nýja starfsmenn til að sinna verkefnum í sumum stofnunum en að láta þær komast upp með að hafa slíka óhóflega yfirvinnu. Þá höfum við nefnt ýmsar hugmyndir um hagræðingin í rekstri og e.t.v. ekki síst hækkun sértekna ýmissa stofnana, þannig að ríkisstofnanir selji þjónustu sína á sanngjörnu verði, en skattborgararnir séu ekki látnir borga þá þjónustu.

Ríkisstj. sjálf hefur óskað eftir heimild til að fresta framkvæmdum. Við erum alveg reiðubúnir að ræða það. Svo vil ég nefna siðast, en ekki síst, að ríkisstj. hefur stórkostlega lækkað niðurgreiðslur að raungildi á landbúnaðarvörum frá því í fyrra, þ.e. hún lækkaði þær á árinu 1980 frá árinu 1979 allverulega að raungildi. Við sjáum ekkert athugavert við að halda áfram stefnunni að þessu leyti, ekki síst ef nýr vísitölugrunnur tekur gildi á næstunni.

Þannig erum við reiðubúnir að ræða fjölmargar hugmyndir um verulega niðurfærslu ríkisútgjalda. En það gefur auga leið, að ríkisstj. á hverjum tíma hefur miklu betri möguleika á og er raunar eini aðilinn sem hefur möguleika á að koma fram með slíkar hugmyndir og leggja fyrir rétta aðila, t.d. fjvn., þar sem stjórnarandstaðan mundi þá taka á slíkum tillögum með fullri ábyrgð.

Að lokum, herra forseti, ef brtt. okkar hv. þm. Eyjólfs Konráðs yrðu samþykktar er þetta frv. þess eðlis að við sjálfstæðismenn hefðum getað staðið að slíkum ráðstöfunum, enda grundvallaratriði fyrr og síðar í stefnu okkar sjálfstæðismanna að færa fjármagn frá hinu opinbera til almennings og sérstaklega vernda kaupmátt bótaþega og láglaunafólks þegar skerða hefur þurft verðbætur á laun vegna efnahagsráðstafana. Og í síðasta lagi, og það skulu vera mín lokaorð: Slíkar ráðstafanir hafa jafnan verið góður undirbúningur að frambúðarefnahagsstefnu, en þetta frv. er það ekki.