24.02.1981
Efri deild: 57. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2544 í B-deild Alþingistíðinda. (2712)

193. mál, viðnám gegn verðbólgu

Frsm.1. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Eins og ég gat raunar um við 2. umr. hafði ég í hyggju ásamt fleiri hv. þm. að flytja við 3. umr. brtt. í ljósi þeirra upplýsinga sem komu fram við 2. umr. hjá hæstv. félmrh., en þessi brtt. fjallar um að tekin skuli af öll tvímæli um það, að þrátt fyrir ákvæði 5. gr. skuli þeir elli- og örorkulífeyrisþegar, sem njóta tekjutryggingar, og þeir lífeyrisþegar, sem njóta heimilisuppbótar, frá 14.32% hækkun á sínar bætur 1. mars n.k. Samkv. þeim yfirlýsingum, sem hæstv. ráðh. gaf áðan, fengju þessir bótaþegar 13.95% hækkun sinna bóta. Till. okkar gengur út á það, að þessir bótaþegar fái nákvæmlega þá hækkun sem verður á framfærslukostnaði þeirra á þessum tíma. Svo virðist sem hæstv. ríkisstj. hafi ekki gert sér nákvæma grein fyrir því, hvað um var að ræða, þegar hún var að fjalla um þetta mál, en það er kannske ekki aðalatriði þessarar till., heldur að það verði tekið fram í lögunum sjálfum, eins og jafnan hefur verið gert þegar almannatryggingabætur fylgja ekki kaupgjaldsvísitölu, hvernig farið sé með tryggingabætur. Eins og ég benti á áðan er það almenna reglan, eins og hagstofustjóri segir í bréfi sínu, að í sjálfum lögunum, sem kveða á um skerðingu kaupgjaldsvísitölu, sé kveðið á um ef öðruvísi skal fara með almannatryggingabætur. Það er til að freista þess að sú verklagsregla verði höfð eins og verið hefur og eins til að tryggja þessum aðilum eðlilega hækkun bóta 1. mars, miðað við það sem fram hefur komið hjá hæstv. félmrh., að till. er flutt.

Flm. að þessari till. eru ég, hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson og Kjartan Jóhannsson. Þessi brtt. er skrifleg og of seint fram komin. Ég óska eftir afbrigðum, hæstv. forseti.