24.02.1981
Neðri deild: 57. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2551 í B-deild Alþingistíðinda. (2722)

126. mál, flugvallagjald

Flm. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég lagði fram frv. á þskj. 15 1 um afnám flugvallagjalds allnokkru fyrir jólin, nægilega tímanlega til þess að unnt hefði verið að fella þetta gjald niður við afgreiðslu fjárlaga yfirstandandi árs ef vilji hefði til þess staðið hjá stuðningsmönnum núv. hæstv. ríkisstj. En eins og við var að búast stóð hugur þeirra ekki til þess, enda er hugmyndaflug ríkisstj. ótrúlega mikið varðandi það að leggja á nýja skatta eða hækka opinber gjöld og álögur sem á þjóðinni hvíla.

Samkvæmt plöggum, sem ég hef í höndum, hefur hæstv. fjmrh. m. a. ákveðið eftirfarandi hækkanir á gjöldum með reglugerð nú um áramótin eða á s. l. ári:

Í fyrsta lagi varðandi þungaskatt samkvæmt lögum nr. 79/1974, um fjáröflun til vegagerðar, sbr. lög nr. 78/1977. Samkvæmt reglugerð nr. 636/1980 hækkuðu gjöld þessi hinn 1. jan. s. l. um ca. 50% eða það sem nemur hækkun á byggingarvísitölu á s. l. ári, sbr. 5. gr. þeirra laga. Eins og mönnum er kunnugt var þó gert ráð fyrir því við afgreiðslu fjárlaga að verðbólgan mundi ekki hækka nema um 42% milli ára þannig að ríkisstj. tekur þarna 8% í sinn vasa umfram það sem ætla má að verðhækkunin verði samkvæmt afgreiðslu fjárlaga.

Bensíngjald hækkaði á s. l. ári fjórum sinnum: hinn 14. apríl úr 78.93 kr. í 91.36 kr., hinn 28. júní upp í 99.84, hinn 9. okt. í 112.47 kr. og 24. des. í 123.72 eða samtals um 35.42% á átta og hálfum mánuði, sem ég hygg að sé eitthvað um 50% á ársgrundvelli.

Sú breyting var gerð á flugvallagjaldinu með lögum nr. 18/1980, að gert er ráð fyrir að fjmrh. geti einhliða ákveðið að hækka það í samræmi við byggingarvísitölu. Ég lít svo á, að með þessari breytingu hafi núv. hæstv. ríkisstj. staðfest þann vilja sinn að gera flugvallagjaldið varanlegt, en eins og hv. þm. rekur minni til var gert ráð fyrir því þegar flugvallagjaldið var lagt á upprunalega, að það mundi ekki verða til langframa. Ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar hafði raunar lækkað flugvallagjaldið umtalsvert þegar hún fór frá völdum eftir mitt ár 1978. Samkvæmt reglugerð, sem gildi tók hinn 10. des. s.l., hækkaði flugvallagjald sem hér segir: Fyrir fullorðna á leið úr landi hækkaði flugvallagjaldið úr 8800 kr. upp í 11 200 kr., en fyrir börn 2–12 ára að aldri úr 4400 kr. í 5600 kr. Í innanlandsflugi bar að greiða 650 kr. fyrir fullorðna og 325 kr. fyrir börn. Það hækkaði í 800 kr. og 400 kr.

Enn er það að segja, að samkvæmt aukatekjulögum skal fjmrh. ákveða með reglugerð gjöld fyrir hvers konar leyfisbréf, skírteini og skráningar, og samkvæmt reglugerð nr. 635/1980, um aukatekjur ríkissjóðs, hækkuðu þau gjöld, sem þar greinir, hinn 1. jan. s. l. um ca. 50–70%. Þetta er í raun framlag hæstv. ríkisstj. til að lækka verðlag í landinu og vinna gegn verðbólgunni. Strax daginn eftir að hæstv. forsrh. flutti afmætisræðu sína í ríkisútvarpið á gamlársdag, strax á miðnætti þann sama dag, tók sem sagt gildi ný reglugerð frá hæstv. fjmrh. um að hækka hvers konar gjöld fyrir leyfisbréf, skírteini og skráningar, sem undir hann heyra, um 50–70%. Nokkru síðar kom svo út fréttatilkynning frá Skýrsluvélum um að þær hefðu hækkað alla sína þjónustu frá 1. jan. um 25%.

Eins og ég hef hér sýnt fram á hefur ríkisstj. varið síðustu dögum desembermánaðar og fyrstu dögum janúarmánaðar einkanlega til að hækka alls konar álögur og greiðslur fyrir þjónustu eftir því sem heimildir hennar hafa staðið til. En samkvæmt fjárlögum er gert ráð fyrir að flugvallagjaldið nemi 14 millj. nýkr. eða 1.4 milljarði gkr. á yfirstandandi ári. Þetta gjald er mjög hátt. Mér er sagt að þetta sé eitt hæsta flugvallagjald í heimi, og þær upplýsingar hef ég fengið frá einum af framámönnum Flugleiða. Dreg ég það ekki í efa. Jafnframt hefur það komið fram margsinnis, að sumar ferðaskrifstofur, sem selja farmiða til Ístands, veigra sér við að innheimta flugvallagjaldið um leið og farseðlar eru seldir þeim sem ferðast til landsins. Þetta hefur valdið margvíslegum óþægindum fyrir starfsfólk Flugleiða sem verður að innheimta þetta gjald. Það hefur orðið fyrir skömmum og svívirðingum erlendra ferðamanna sem hafa lent í erfiðleikum af þessum sökum.

Enn má á það minna, að Vestur-Íslendingar, bæði í Bandaríkjunum og Kanada, hafa skrifað hingað heim og hvatt til þess, að flugvallagjald verði fellt niður. Þeir styðja áskorun sína m. a. með því, að frændur okkar vestra sætta sig einfaldlega ekki við að greiða svo hátt flugvallagjald ofan á annan ferðakostnað. Það er mergurinn málsins í þessum efnum.

Ég vil svo rifja það upp í lokin, að á sínum tíma var söluskattur lagður á flug hér innanlands, en ekki millilandaflug, og var flugvallagjaldið í upphafi réttlætt með því, að þar yrði að koma jöfnuður á milli, auk þess sem verið var að afla fjár með því til framkvæmda varðandi flugsamgöngur. Þær gömlu röksemdir, sem hér um ræðir, eru löngu úr sögunni.

Ég held að það sé sanngirnismál, að fólk utan af landi þurfi ekki að greiða þennan sérstaka skatt. Hann bitnar þyngst á þeim sem fjærst búa og þurfa kannske að nota millilendingar, fljúga með litlu flugfélagi til áætlunarstaða Flugleiða og skipta þar, eins og t. d. á Norðurlandi eða Austurlandi.

Ég vil enn fremur ítreka þau almennu rök, að skattar af þessu tagi, þessir dæmigerðu vinstristjórnarskattar, eru fremur til óþrifnaðar í tekjuöflunarkerfi okkar. Flugvallagjaldið er aðeins eitt af mörgum gjöldum sem okkur væri nær að leggja niður. Ég get til viðbótar nefnt t. d. gjald á ferðalög til útlanda, sem á þessu ári er talið nema 27 millj. og 500 þús. nýkr. eða 2.7 milljörðum gömlum. Þessir sérlegu skattar á ferðalög nema því samtals rúmum 4 milljörðum gkr. eða rúmlega 40 millj. nýkr. Það heyrir fortíðinni til að amast við því, að þeir efnaminni geti ferðast milli landa. Þessi skattur kemur að sjálfsögðu mest við þá sem sjálfir verða að kosta sína för og geta hvorki skrifað kostnað hjá stofnun né fyrirtæki. Því legg ég áherslu á það, að sú n., sem málið fær til umfjöllunar, taki málið umsvifalaust fyrir þannig að hægt verði að afgreiða það á þessu þingi.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að leggja til að málinu verði vísað til fjh.- og viðskn.