25.02.1981
Efri deild: 58. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2555 í B-deild Alþingistíðinda. (2729)

5. mál, barnalög

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Frv. til barnalaga var fyrst lagt fram á Alþingi vorið 1976, en síðan endurflutt fjórum sinnum, síðast í ársbyrjun 1980, án þess að það virtist vekja sérstaka athygli hv. alþm.

Það var ákveðið, að þetta frv. til barnalaga ætti að leysa af hólmi lög nr. 57 frá 1921, um afstöðu foreldra til skilgetinna barna, og lög nr. 87 frá 1947, um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna, en þau lög komu í stað laga nr. 46 frá 1921, um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna.

Þó að nokkrar breytingar hafi verið gerðar á þessari löggjöf á síðari árum má þó segja að hún sé að stofni til 60 ára gömul. Þarf því engan að undra þótt lögin þurfi nokkurrar endurskoðunar við. Lögin frá 1921, sem ég nefndi, voru mjög vandlega unnin á sinni tíð og byggð á norrænu samstarfi. Á undanförnum árum hefur farið fram um öll Norðurlönd endurskoðun á þessari löggjöf af ýmsum ástæðum sem óþarft er að rekja. Ég ákvað því að láta skoða þetta frv. vandlega einu sinni enn s. l. sumar. Það var gert af höfundum frv., sifjalaganefnd dómsmrn. Frv. var lagt fram í Nd. í þingbyrjun sem mál nr. 5. Hefur því unnist allgóður tími til þess að athuga það í Nd. Það er nú komið hingað til hv. Ed.

Mér er kunnugt um það, að frv. var athugað allvendilega í Nd. og höfundar kallaðir til skrafs og ráðagerða. Á frv. voru gerðar nokkrar breytingar, en þær eru, þegar nánar er að gætt, ekki stórvægilegar og voru allar samþykktar einróma í Nd. að mig minnir.

Frv. þessu fylgir mjög ítarleg grg. svo að ég þarf ekki að hafa þessa framsögu langa að sinni. Ég leyfi mér að vísa til hinnar ítarlegu grg. svo og þeirra orða sem ég mælti í hv. Nd. þegar ég fylgdi frv. úr hlaði.

Ég leyfi mér að vænta þess, að áhugi hv. alþm. dugi nú til að koma þessu mikilvæga og merka frv. áfram, þannig að það verði að lögum á þessu þingi. Ég treysti hv. Ed.mönnum vel til þess að láta það ekki tefjast lengi hér í deildinni.

Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.