04.11.1980
Sameinað þing: 13. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í B-deild Alþingistíðinda. (273)

46. mál, breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Hæstv. viðskrh. sagði í svari sínu við fsp. 4. þm. Vestf. að ráðstafanir yrðu gerðar samkv. því, sem komið hefði fram í ræðu hæstv. forsrh., og samkv. því, sem fram hefði komið í fjárlagafrv. Það er eins og við höfum heyrt fyrr á þessu ári að ríkisstj, væri með ráðstafanir í huganum og hygðist leggja þær fram.

Ég minnist þess, að í hv. Ed. urðu s.l. vetur orðaskipti á milli hv. 3. þm. Norðurl. e., Lárusar Jónssonar, og hæstv. forsrh. um hvað verðbólgan yrði á þessu ári. Hæstv. forsrh. sagði að í þeim tölum, sem Þjóðhagsstofnun hefði gefið út, væri alls ekki tekið tillit til þeirra ráðstafana sem ríkisstj. hefði á prjónunum. Menn biðu, eins og hæstv. viðskrh. var að ráðleggja þm. áðan, — og ég gat ekki heyrt annað en hann biði líka eftir því að vita hvaða hugmyndir væru hjá hæstv. forsrh, og hæstv. fjmrh. Þar kom svo í sumar, að Þjóðhagsstofnun gaf út nýja spá þegar fór að líða á árið. Svar hæstv. forsrh. var, að í þessum tölum Þjóðhagsstofnunar væri alls ekki reiknað með því sem ríkisstj. hefði í huga að gera til að ráða við verðbólguna og að hún yrði a.m.k. ekki meiri en hann hafði sagt þegar hann átti orðræður við hv. 4. þm. Norðurl. e.

Við erum komnir fram í ellefta mánuð þessa árs og við höfum ekki séð neinar þessar ráðstafanir. Hæstv. viðskrh. ráðlagði áðan þm. og sjálfsagt samráðh. sínum að bíða, það væri ekkert annað að gera. Mig langar til þess að varpa fram þeirri spurningu til hæstv. viðskrh. eða þá til hæstv. forsrh.: Mega alþm. gera ráð fyrir því, að áður en þeir fara heim í jólaleyfi fái þeir að sjá hér á borðum sínum till. ríkisstj. í sambandi við þær ráðstafanir sem hún telur nauðsynlegt að gera vegna myntbreytingarinnar sem fram á að fara um áramót?