25.02.1981
Efri deild: 58. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2556 í B-deild Alþingistíðinda. (2730)

5. mál, barnalög

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð vegna þeirra orða sem hæstv. dómsmrh. lét falla hér áðan, þar sem hann eiginlega höfðaði til áhuga þm. hér um að láta þetta mál ekki dragast hér. Ég get glatt hæstv. dómsmrh. með því, að enda þótt ekki sé formlega búið að vísa málinu til allshn. hefur nefndin þegar haldið tvo fundi um þetta mál og haft þar sér til ráðuneytis ráðuneytisstjóra dómsmrn. Nefndin mun halda sinn þriðja fund um þetta á föstudagsmorgun og ég geri ekki ráð fyrir að neitt muni standa upp á allshn. Ed. um að skila þessu máli frá sér með eðlilegum hætti. Hins vegar er hér um mál að ræða sem eðli sínu samkv. þarf mikillar athugunar við. Hér er fjallað um viðkvæm persónuleg málefni í löggjöf og gert ráð fyrir ýmsum töluvert veigamiklum breytingum. Ég þykist geta fullyrt það, að allshn. muni flytja brtt. víð frv., og mun nefndin stefna að því að það geti gerst í svo tæka tíð að Nd. gefist tími til að fjalla um frv. að því hér breyttu. En ég get fullyrt það, að það mun ekki standa neitt upp á allshn. hv. deildar í þessu máli.