25.02.1981
Efri deild: 58. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2556 í B-deild Alþingistíðinda. (2731)

5. mál, barnalög

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Það frv., sem liggur hér fyrir, hefur legið fyrir Alþingi alloft áður, eins og hæstv. dómsmrh. minnir á, og það hefur ekki vakið athygli alþm. eins og vert væri. Hér er um að ræða endurskoðun á 60 ára gömlum lögum, eins og hann reyndar gat um, og það hefur verið mikil nauðsyn á því að endurskoða þessi lög. Nú er mikil nauðsyn á því að afgreiða þessi lög hið allra fyrsta, því að víða gætir mjög óréttlætis í meðferð þessara mála og miskunnarleysis, sérstaklega gagnvart umgengnisrétti feðra við börn sín ef hjúskaparslit hafa átt sér stað.

Ég vakti athygli á mjög sorglegu dæmi nú í vetur, dæmi um það hvernig þessi mál ganga fyrir sig í dag. Ef þessi lög verða ekki samþykkt mjög bráðlega, þá munu eiga sér stað mjög hryggilegir atburðir, áþekkir þeim sem átt hafa sér stað á undanförnum árum. Þetta dæmi fjallaði um umgengnisrétt föður við barn sitt og reyndar þann alvarlega þátt þessara mála, að móður er samkv. núgildandi lögum heimilt að gefa barn án þess að leita eftir samþykki föður hafi foreldrarnir ekki verið í hjónabandi.

Ég fagna því, sem upplýst var hér áðan, að allshn. hefur nú þegar hafið störf við að athuga frv. Það var öðruvísi farið að í Nd. þar sem frv. lá í salti allmargar vikur áður en það var hreyft. Ég treysti því, að allshn. Ed. haldi áfram af sama röskleika og geri allt hvað mögulegt er til þess að afgreiða frv. hið allra fyrsta. Ef það verður ekki, þá eru líkur á að ýmislegt eigi eftir að ske sem miður er og enginn alþm. mundi vilja hafa á samvisku sinni ef hann vissi hvernig málum er komið.