25.02.1981
Efri deild: 58. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2560 í B-deild Alþingistíðinda. (2738)

218. mál, atvinnuleysistryggingar

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Frv. það, sem hér er flutt, fjallar um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar.

Eins og hv. 1. flm. frv., Lárus Jónsson, gat um áðan er þetta heimildarákvæði fyrir stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs, til að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum er atvinnuleysi er yfirvofandi. Ef líkur eru á að náttúruhamfarir einhvers konar eða aðrir atburðir geti valdið atvinnuleysi á stórum landssvæðum eða í heilum landshlutum, þá sé Atvinnuleysistryggingasjóði eða stjórn hans heimilt að veita fjármagn til þess að stuðla að áframhaldandi atvinnu eftir mætti, fremur en að þurfa síðar að greiða bætur beint til þeirra sem atvinnulausir verða. Hér er skýrt kveðið á um að það sé stjórn sjóðsins sem leggi sjálfstætt mat á hvort, hvernig eða hvenær hún telji rétt eða ástæðu til að beita þessu heimildarákvæði ef það verður að lögum.

Ég hygg að hvatinn að flutningi þessa frv. sé fundur sem þm. Norðurlandskjördæmis eystra áttu með fulltrúum frá bæjarstjórn Húsavíkur, en síðan hefur þetta — og sjálfsagt bæði fyrr og síðar — verið rætt við fulltrúa ýmissa sveitarfélaga, eins og hv. 1. flm, gat um. Á umræddum fundi var einkum rætt um það, að ef hafnir lokuðust af hafís mætti verja einhverju fjármagni til að taka þátt í kostnaði við flutning afla milli landshluta eða staða. Þetta getur átt við í ýmsum fleiri tilvikum. Ég hef lengi haft þá skoðun, að það beri að athuga hvernig beita megi Atvinnuleysistryggingasjóði á þann hátt sem hér er vikið að, að hann beiti sér fyrir fyrirbyggjandi aðgerðum svo að koma megi í veg fyrir að atvinnuleysisvofan knýi dyra hjá íbúum landsins, hjá hinu vinnandi fólki, fremur en bíða eftir atvinnuleysinu og þurfa síðan að greiða peninga því fólki sem ekki hefur atvinnu. Vafalaust er það gert í ýmsum tilvikum. Atvinnuleysistryggingasjóður hefur lánað til ýmissa nytsamlegra hluta í atvinnuuppbyggingarskyni, en ég álít að þarna sé hægt að ganga lengra og eigi að skoða þetta mál ítarlega.

Ég tel fyllilega tímabært að taka einmitt þennan þátt atvinnumálanna til gaumgæfilegrar athugunar.