25.02.1981
Efri deild: 58. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2563 í B-deild Alþingistíðinda. (2742)

218. mál, atvinnuleysistryggingar

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki löngu máli við að bæta framsögu hv. þm. Lárusar Jónssonar til skýringar á þessu máli. Ég vil aðeins undirstrika þau atriði, að hér er svo ráð fyrir gert, að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs ráði því, hvort fé sjóðsins verði ráðstafað á þennan hátt við sérstakar aðstæður eða ekki, og ætla að þá muni stjórnin leggja á það mat — rökstutt mat — hvort slíkt sé í þágu verkalýðshreyfingarinnar, hvort slík ráðstöfun sé hagstæð fyrir sjóðinn, hvort litið er til lengri eða skemmri tíma.

Einnig legg ég áherslu á það, að mál þetta verði athugað gaumgæfilega í nefnd. Ég hef heyrt því haldið fram af þeim, sem ég ætla að vit hafi á, að réttara sé að kveða á um heimild til stjórnarinnar að veita lán úr sjóðnum í þessu skyni fremur en að féð verði veitt beint úr sjóðnum. Þetta atriði þarf að athuga gaumgæfilega í nefnd, og svo náttúrlega síðast en ekki síst þurfum við að leita álits sérfræðinga verkalýðshreyfingarinnar á þessu sviði.

Ég hef rætt þetta við ýmsa af forustumönnum verkalýðssamtakanna og þeir, sem ég hef rætt þetta mál við, hafa ekki séð á því faglegan eða tæknilegan annmarka, að stjórnin fái heimild af þessu tagi, og telja eðlilegt að stjórn sjóðsins leggi mat á það hverju sinni, hvort heppilegt sé fyrir sjóðinn og í samræmi við tilgang sjóðsins að verja fé á þennan hátt. En aðeins þetta: ég legg áherslu á að málið í heild verði athugað vandlega í nefnd og leitað álits hinna færustu manna.

Ég veit að við vissar aðstæður, svo við tökum aðeins líkinguna, svo við víkjum aðeins að því dæmi sem hv. þm. Lárus Jónsson tók um það þegar hafís hindrar hráefnisflutninga til hafna, — við slíkar aðstæður getur ráðstöfun fjár á þennan hátt orðið hagstæð. Dæmin gætu orðið fleiri um hliðstæðar aðstæður þar sem eðlilegt gæti talist að slíkt væri á valdi sjóðsstjórnar.

Það fer ekkert á milli mála, að þetta opnar leið til þess að ásókn aukist umfram það sem fyrir var, að meira sé til sjóðsstjórnar leitað. En ætlan mín er að þeir menn, sem verkalýðshreyfingin velur til setu í stjórn þessa sjóðs, muni hafa bein í nefi til að standast slíkt.

Og svo rétt aðeins í lokin vil ég geta þess, að þeir þm., sem standa að flutningi málsins, hafa af ákaflega skiljanlegum ástæðum haft sambandi við fulltrúa á þessu hættulega hafíssvæði á Norður- og Norðausturlandi, og þar var ekki síður mælt með framgangi þessa máls — sem raunar var vakið af þeim Norðlendingum — af fulltrúum verkalýðsfélaganna, sem við þm. ræddu, heldur en af hinum.