25.02.1981
Efri deild: 58. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2564 í B-deild Alþingistíðinda. (2743)

218. mál, atvinnuleysistryggingar

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég vek enn athygli á því, að Atvinnuleysistryggingasjóður hefur heimild til þess að lána til atvinnuuppbyggingar og hefur gert það í mjög ríkum mæli. En fjármagnið er af mjög skornum skammti.

Það dæmi, sem er verið að tala um hérna, hafísinn og þau vandamál sem koma til með að fylgja honum er miklu stærra en menn kannske átta sig á. Ég held að það þurfi e. t. v. sérstaka umfjöllum um það, hvernig við eigum að bregðast við slíkum málum og gera það á annan hátt en að fara í sjóð sem er fjárhagslega vanmegnugur að sinna sínu hlutverki. (StJ: Það verður að fara í sjóðinn. Það verður að veita sjóðsstjórninni heimild til þess.) Ég held að þessi heimild sé til að mestu leyti samkv. reglum sjóðsins í dag og þess vegna sé þetta frv. óþarft. En ég held að það þurfi að skoða þessi hafísmál alveg sérstaklega með það fyrir augum, að hægt verði að fá fjármagn til að sinna þessum málum. Ég held að það verði ekki gert með því að setja einhverjar sérstakar auknar kvaðir á Atvinnuleysistryggingasjóð utan þess að stuðla að atvinnuuppbyggingu. Ég held að niðurstaðan í nefndinni hljóti að verða sú, að ástæða sé til að fara aðrar leiðir. Spurningin er sú, hvort þetta er ekki fremur hlutverk Bjargráðasjóðs eða Viðlagasjóðs eða einhverra slíkra sjóða eða nýs sjóðs sem stofnaður yrði til að sinna þessum vandamálum, því að auðvitað horfum við ekki upp á það, að heilir landshlutar leggist í rúst vegna svona óáranar.

En það má ekki reyna að leysa málin á þann hátt að eyðileggja þann sjóð sem ætlaður er til þess að sinna atvinnuleysisvandamálum sérstaklega. Ég er nefnilega hræddur um það, að ef settar eru á sjóðinn sérstakar kvaðir til að leysa svona sérstök mál, þá bresti í fyrsta lag algjörlega greiðslugetuna hjá sjóðnum og einnig verði ekkert gagn að því fyrir málið sjálft að einblína einungis á Atvinnuleysistryggingasjóðinn.

Ég er reiðubúinn að taka þátt í því að ræða og samþykkja það, að staðið verði að fjáröflun til að leysa þessi vandamál með sérstakri fjáröflun.