25.02.1981
Efri deild: 58. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2565 í B-deild Alþingistíðinda. (2744)

218. mál, atvinnuleysistryggingar

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég skil fullvel áhyggjur hv. þm. Karls Steinars Guðnasonar af Atvinnuleysistryggingasjóði. Þm. hefur lifað það eins og við fleiri, að í þennan sjóð hefur verið gengið í afsakanlegum kannske — en vissulega annarlegum tilgangi, og hefur Atvinnuleysistryggingasjóði þá ekki verið hlíft fremur en ýmsum öðrum sjóðum. En það er nú eðli sjóða, geymslustaða peninga, að þeir eru æ í hættu fyrir þá sem skortir, allt frá tinfrómum mönnum og upp í forsjármenn ríkis sem eru með tóma kassa. Þetta er okkur fullvel ljóst.

Ég endurtek það sem ég sagði í fyrri ræðu minni, að ég geri mér grein fyrir því, að heimild af þessu tagi til stjórnarinnar mun opna leið fyrir aukna ásókn í sjóðinn. Þá verður um það að ræða, að sjóðsstjórnarmenn standi þar á móti og leggi á þetta sjálfstætt mat. Við höfum gert ráð fyrir því, að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs muni meta það hverju sinni, hvort þarna verði ekki um það að ræða að Atvinnuleysistryggingasjóður þurfi að reiða af höndum upphæð, hærri eða lægri, hvort eð er og þá beint til atvinnuleysisbóta, og meta það þá, hvort það fé kæmi ekki að betri notum með því að veita það til þess að standa að einhverju leyti straum af flutningi á hráefni til vinnslu í fiskiðjuverunum eða til annarra þeirra framkvæmda, sem komið gætu í veg fyrir það atvinnuleysi sem ella mundi kalla á veitingu á þeirri hinni sömu fjárupphæð.

Ég geri mér grein fyrir því, að litlu munar að heimildirnar séu til, eins og hv. þm. Karl Steinar gerði grein fyrir í ræðu sinni. En nokkru munar, það sem hér er ekki um að ræða framkvæmdir til atvinnuuppbyggingar, heldur til þess að ráða bót á aðsteðjandi atvinnuleysisvandamáli af völdum náttúruhamfara eða annarra slíkra nauða, svo sem hafíss. Hérna munar þessu, að við höfum fengið þau svör, að það sé ekki heimild til að veita fé úr sjóðnum í þessu skyni. Þetta reyndum við hafísárið í hittiðfyrra þegar um það var að ræða að fá fjármagnsfyrirgreiðslu til þess að styrkja flutning á fiski í frystihús sem lokuð voru vegna hafíssins á þeim tíma. (Gripið fram í.) Já, að vísu kom það fram líka, en þá getur náttúrlega hv. þm. Karl Steinar spurt ósköp einfaldlega sem svo, hvort það sé þá ekki ástæða til að breyta þeim lögum líka. Það kynni að vera, að ástæða væri til þess að breyta þeim jafnframt. En ég ítreka þetta, að hér er eingöngu um það að ræða að veita stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs skýlausa heimild til að ráðstafa fé á þennan hátt ef hún telur það hagstætt. Og ef með þarf, ef í ljós kemur að þeir reynist gljúpir fyrir, stjórnarmenn, af þessum sökum, vegna aukinnar ásóknar, þá verða hæg heimatökin fyrir verkalýðssamtökin að kjósa bara harðari karla í stjórnina.