25.02.1981
Efri deild: 58. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2565 í B-deild Alþingistíðinda. (2745)

218. mál, atvinnuleysistryggingar

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil mjög eindregið taka undir það með hv. 3. landsk. þm., Karli Steinari Guðnasyni, að það þurfi að sjálfsögðu að kanna mjög vandlega greiðslugetu sjóðsins og getu hans yfirleitt til þess að standa við slíkar skuldbindingar sem hér er veitt heimild til að hann taki á sig. En ég vil jafnframt ítreka það, eins og fram hefur komið í umr. áður, að hér er aðeins og fyrst og fremst um að ræða heimild. Það er ekki lögð eins ströng kvöð á sjóðinn og mér fannst hv. 3. landsk. þm. tala um, þar sem það er alfarið í höndum stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs að meta aðstæður hverju sinni og hvort hún telur rétt eða þörf á að beita þessu ákvæði.

En mér finnst gæta svolítils misskilnings eða mismunar á skilningi okkar á þessu máli, þar sem hann talar um og telur að þetta sem lagt er til í þessu frv., sé allt eins og kannske ekki síður verkefni Bjargráðasjóðs eða Viðlagasjóðs en Atvinnuleysistryggingasjóðs. Ég vil aftur líta svo á, eins og ég gat um í fyrri ræðu minni, að það sé hlutverk Atvinnuleysistryggingasjóðs að reyna að vinna sem mest að aðgerðum til að koma í veg fyrir atvinnuleysi, ekki síður en að greiða hreint út atvinnuleysistryggingabætur. (Gripið fram í.) Já, hann gerir það, segir hv. þm., og það er líka rétt, enda veit ég það og gat um það einnig í fyrri ræðu minni. Mér er fullkunnugt um það, að sjóðurinn hefur lánað mikið til atvinnuuppbyggingar.

Hv. alþm. Stefán Jónsson nefndi það, hvort kannske ætti frekar að kveða hér á um lánveitingu í stað styrkja, sem ég held að sé ekki nægjanlegt í þessu tilviki. Og ég vil líka benda á það, að ég tel að líta megi á það sem nokkurs konar ávöxtun fjár Atvinnuleysistryggingasjóðs þegar það er lagt í fyrirbyggjandi aðgerðir, aðgerðir sem koma í veg fyrir atvinnuleysi, vegna þess að af því nýtur sjóðurinn raunverulega aftur tekna. Ef um atvinnu er að ræða, áframhaldandi atvinnu, þá hlýtur sjóðurinn af því tekjur og þannig er um nokkurs konar ávöxtun á fé sjóðsins að ræða. En á hinn bóginn eru beinar greiðslur atvinnuleysisbóta hrein útgjöld fyrir sjóðinn.