25.02.1981
Efri deild: 58. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2566 í B-deild Alþingistíðinda. (2746)

218. mál, atvinnuleysistryggingar

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt sem ég vildi segja í þessu máli. Ég get tekið undir það sem flm. þessa frv. hafa sagt, og kem aðeins til að undirstrika það.

Ég vil segja vegna ummæla hv. þm. Karls Steinars Guðnasonar, sem sagði að með þessu væri ætlast til að menn gætu vaðið í þennan sjóð, eins og hann orðaði það, og ætlast til þess, að úr honum yrði greitt hitt og þetta, að hér er náttúrlega um mikinn misskilning að ræða. Og ég vildi segja um þennan ágæta þm., að hér sé vísvitandi farið rangt með, því að eins og segir í 1. gr. frv. er hér aðeins um heimild að ræða. En í niðurlagi þessarar 1. gr. segir: „Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs leggur sjálfstætt mat á það, hvort, hvernig eða hvenær henni þykir ástæða til að nota þessa heimild.“

Þetta er kjarni málsins. Hins vegar vil ég hvetja til þess eins og aðrir, að málið verði skoðað vel í nefnd, og hér hefur formaður þeirrar nefndar, hv. þm. Davíð Aðatsteinsson, lýst yfir að hann muni beita sér fyrir því að málið fái góða meðferð í nefnd.

Ég tek undir með þeim flm., sem hér hafa talað, að mér finnst það þess vert, að menn skoði málið rækilega. Ég held að finna megi haldgóð rök fyrir því, að það geti verið skynsamlegt og heppilegt að greiða úr Atvinnuleysistryggingasjóði fé til þess að koma í veg fyrir atvinnuleysi á ákveðnum landssvæðum.

Það hefur komið hér fram og mér finnst ástæða til að velta því fyrir sér, hvort þarna væri eðlilegra að kveða á um heimild handa sjóðnum til að veita lán í þessu skyni.