26.02.1981
Efri deild: 59. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2598 í B-deild Alþingistíðinda. (2756)

228. mál, framkvæmd eignarnáms

Flm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. þm. Kjartani Jóhannssyni og Karli Steinari Guðnasyni að flytja hér frv. til l. um breyt. á lögum um framkvæmd eignarnáms. Frv. þetta felur það í sér, að inn í þessi lög komi ný grein, sem svo hljóðar:

„Þegar fasteign er tekin eignarnámi skal miða fjárhæð eignarnámsbóta við þá notkun, sem fasteign er í, þegar beiðni um eignarnámsmat hefur borist matsnefnd, sbr. 4. gr.

Til grundvallar eignarnámsbótum skal leggja söluverðmæti fasteignar og við mat á því skal hafa söluverðmæti hliðstæðra fasteigna í viðkomandi landsfjórðungi eða landshluta. Verði því ekki við komið eða notagildi fasteignar fyrir eignarnámsþola nemur meiru skal miða bætur við það.

Að öðru leyti skal gæta eftirfarandi meginsjónarmiða við mat á bótum vegna eignarnáms fasteigna:

1. Við bótaákvörðun skal taka tillit til breytinga á notkun eignar sem eðlilegt er að reikna með eftir aðstæðum á staðnum, en með hliðsjón af þeirri starfsemi eða þeim tilgangi sem notkun eignarinnar hefur verið tengd.

2. Ekki skal taka tillit til möguleika á verðhækkun eignar í framtíðinni.

3. Ekki skal heldur taka tillit til þess, hversu mikið eignarnemi hefði vegna hinna sérstöku þarfa sinna verið reiðubúinn til að greiða fyrir eignina, ef eignarnámsheimild hefði ekki verið fyrir hendi.

4. Ekki skal meta verðbreytingar, sem leiðir af tilgangi eða markmiði eignarnámstökunnar, né heldur af framkvæmdum eða starfsemi, hvorki þegar gerðum né fyrirhuguðum, sem eru í tengslum við eignarnámstökuna.“

Herra forseti. Það er skemmst frá því að segja, að frv. þessa sama efnis hefur áður verið flutt hér á hinu háa Alþingi, fyrst á 100. löggjafarþingi. Þá fluttu það þeir Bragi Sigurjónsson, Ágúst Einarsson, Bragi Níelsson og Karl Steinar Guðnason. Enn var frv. sama efnis flutt á 102. löggjafarþingi, en náði þá eigi fram að ganga. Flm. þá voru Kjartan Jóhannsson, Karl Steinar Guðnason og Eiður Guðnason. En um það leyti sem frv. var flutt var jörðin Fífuhvammur í Kópavogi auglýst til sölu og var þá yfirlýst af hálfu eigenda að þeir teldu hæfilegt verð fyrir þennan jarðarskika um 1 milljarð kr. Um svipað leyti kom fram í dagblöðum að hugsanlegt væri að Reykjavíkurborg mundi gera tilboð í jörðina.

Í grg. með frv. sem flutt var á 102. löggjafarþingi, sagði m. a.:

„Engum dettur í hug að svo blómlegt búskaparlag sé í Fífuhvammi eða að landeigandi hafi hýst jörðina svo vel, að hún sé 800–1000 millj. kr. virði. Hliðstæð jörð með húsum í Stafholtstungum, Skútustaðahreppi eða á Barðaströndinni fengist fyrir lítið brot af þessu verði. Skýringin á þessum verðmun liggur ekki í framtaki eða atorku ábúandans. Hún liggur í því, að fyrir framtak fjölda annars fólks og atorku hefur risið þéttbýll í Kópavogi og nærtækt land fyrir frekari þróun þéttbýlis þar er m. a. í landi Fífuhvamms. Hliðstæða sögu um okurverð á landi má finna víðs vegar um landið, t. d. á Eskifirði og í Keflavík, svo dæmi séu nefnd. Þéttbýlissveitarfélögin standa þannig frammi fyrir því, að eðlilegur viðgangur þeirra og vöxtur sé kyrktur með afarkjörum á nærtæku landi, og stendur þá verðlagning landsins ekki í neinu samhengi við afrakstur þess til verandi nota heldur hugsanlegt verðmæti til lóðaúthlutunar.

Þær reglur, sem í gildi hafa verið við ákvörðun eignarnámsbóta og fasteignamats, hafa rennt stoðum undir þetta óréttlæti og komið ýmsum sveitarfélögum í óbærilega aðstöðu, þar sem þær grundvallast á svonefndu markaðsverði. Landeigandi skákar þannig í skjóti þeirrar aðferðar sem beitt er við eignarnámsmat fyrir opinbera tilstuðlan. Með þessu móti geta fjársterkir aðilar ráðið byggðaþróun. Og samkvæmt þeim hugmyndum, sem kynntar eru í tilvitnaðri frétt Dagblaðsins hér að framan gætu fjársterk sveitarfélög keypt upp land í umdæmi fjárvana sveitarfélaga. Spyrja má, hvort þessi háttur geti leitt til þess, að Hafnarfjarðarbær stundi lóðabrask á Siglufirði, Húsavík á Reyðarfirði“ o. s. frv.

Að mati okkar flm. er hér vitaskuld fetuð röng braut. Allir sanngjarnir menn vilja auðvitað að við eignarnám sé hverjum og einum umbunað fyrir það sem frá honum er tekið, en sú umbun á ekki að fara fram úr þeim afrakstri sem hann hefði haft af eign sinni til þeirra nota sem hún er í.

Nú vill svo til, að með því að breyta aðferðum við ákvörðun eignarnámsbóta má einmitt tryggja framgang þessarar stefnu og afnema það óréttlæti, sem viðgengst, og jafnframt koma þéttbýlissveitarfélögunum úr þeirri úlfakreppu sem þau eru í. Ef eignarnámsbætur eru miðaðar við þá notkun, sem eign er í þegar beiðni um eignarnámsmat hefur borist, en ekki metnar verðbreytingar, sem rekja má til tilgangs eignarnámstökunnar, er mörkuð ný braut í þessum efnum og tilgangur þessa frv. er einmitt að marka þá nýju braut.

Ágætisdæmi um það, hvernig landeigendur hugsa í þessu tilviki, er t. d. þegar Landssími Íslands hafði fengið leyfi til þess að reisa endurvarpsstöð fyrir útvarp og sjónvarp og síma á fjallstindi nokkrum. Þá fékk landeigandi bætur fyrir þau spjöll sem talin voru gerð á landinu þegar vegur var lagður þangað upp. Þegar vegurinn var kominn upp vildi landeigandi fá auknar bætur fyrir fjallstoppinn vegna þess að þangað væri kominn vegur og því væri hægt að reisa þar hótel og því væri þetta nú öllu verðmætara en nokkru sinni fyrr. — En þetta var nú frekast útúrdúr.

Á málþingi Lögfræðingafélags Íslands, sem haldið var 25. nóv. s. l. haust, flutti Jón G. Tómasson hrl., sem er borgarlögmaður í Reykjavík, erindi um ákvörðun eignarnámsbóta. Erindi Jóns Tómassonar er birt sem heild sem fskj. með grg. þessa frv., en þar koma einmitt fram ákaflega mörg og veigamikil atriði sem styðja þann megintilgang er þetta frv. hefur, þ. e. að landeigendur geti ekki gert sé nánd við þéttbýli og þann möguleika, að lönd þeirra séu hæf til skipulags sem byggingarlóðir að jafngríðarlegri féþúfu og dæmin sanna og þannig sett þéttbýlissveitarfélögunum í rauninni stólinn fyrir dyrnar um eðlilega þróun.

Á vettvangi Sambands ísl. sveitarfélaga hefur oftlega verið fjallað um vandamál sem tengd eru eignarnámi lands í þéttbýli eða næsta nágrenni við þéttbýli. Á fulltrúaráðsfundi Sambands ísl. sveitarfélaga 13. og 14. mars 1980 var gerð svofelld ályktun, með leyfi forseta:

„Fulltrúaráðið ítrekar fyrri samþykktir um lagasetningu varðandi eignarnám lands í þéttbýli, þar sem tekið verði tillit til þess afraksturs, sem eigandi hefur haft af landinu, án tillits til legu gagnvart skipulagi. Bent er á fordæmi í norskri löggjöf sama efnis.“

Nokkru síðar eða 14. apríl 1980 var eftirfarandi samþykkt gert á fundi í stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, með leyfi forseta:

„Ályktun um eignarnám lands í þéttbýli.

Rædd var ályktun fulltrúaráðsfundarins 13. og 14. mars um eignarnám lands í þéttbýli.

Jafnframt var lagt fram frv. til l. um breyt. á lögum nr. 11 6. apríl 1973, um framkvæmd á þskj. 287, 141. mál, flm. Kjartan Jóhannsson o. fl.

Stjórnin lýsir sig efnislega samþykka frv., vísar til ályktunar stjórnarinnar, sem send var stjórnarskrárnefnd Alþingis í ársbyrjun 1975 um þetta efni, og leggur áherslu á, að afgreiðslu málsins sé hraðað á Alþingi.“ Hér lýkur tilvitnun í þessa samþykkt.

Það er ljóst af því sem hér hefur verið sagt, að það er Sambandi ísl. sveitarfélaga mikið áhugamál að frv. um þetta efni nái fram að ganga, enda er hér um að ræða stórkostlegt hagsmunamál sveitarfélaganna í landinu og um almannahagsmuni er hér að ræða um leið. Það er mikilvægt að löggjöf verði sett um þetta efni sem tryggi í senn hagsmuni sveitarfélaganna og hagsmuni alls almennings.

Mig langar að lokum að vitna til niðurlagsorða í erindi Jóns G. Tómassonar borgarlögmanns í Reykjavík á málþingi Lögfræðingafélags Íslands. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ég mun ekki fara nánar út í einstök atriði þeirrar lagasetningar, sem ég hef nú lýst og tel sjálfsagða en þegar í ársbyrjun 1975 setti nefnd á vegum Sambands ísl. sveitarfélaga, sem ég var í fyrirsvari fyrir, fram þá skoðun, að við ættum að taka norsku eignarnámslögin frá 1973 okkur til fyrirmyndar, enda eigi ekki að miða eignarnámsbætur fyrir land eða önnur landgæði við væntanleg eða fyrirhuguð not þessara verðmæta, eftir að hið opinbera hefur með skipulagi og framkvæmdum breytt möguleikum til nýtingar, en það viðhorf hefur óneitanlega vegið þungt við verðlagningu fram til þessa. Um norsku eignarnámslögin fjallaði Gunnlaugur Claessen deildarstjóri í fjmrn. á málþinginu.

Ljóst er, að lagasetning, sem kveður á um meginreglur til viðmiðunar bótaákvarðana við eignarnám getur engan veginn tæmt öll tilvik, sem upp kunna að koma. Mörgum spurningum hef ég eflaust látið ósvarað og að sjálfsögðu verður ávallt visst mat að ráða endanlegri niðurstöðu um fjárhæðir. Eflaust verður einnig unnt að benda á, að slíkar meginreglur kunni að leiða til ósanngjarnrar niðurstöðu í einstökum og afmörkuðum tilvikum, t. d. með viðmiðun við önnur og eldri dæmi, þar sem landeigendur hafa fengið ríflega greiðslu fyrir eignarréttindi, eða að aðrir, sem ekki þurfa að þola eignarnámstöku, kunni síðar að verða betur settir, hafa aukna hagnaðarvon með frjálsri ráðstöfun eða nýtingu eigna sinna.“

En að lokum segir Jón G. Tómasson:

„Ekki verður þó séð ástæða til að viðhalda almennu óréttlæti, að viðhalda sérréttindum fárra útvaldra á kostnað alls almennings, með því að skírskota til þess, að aðrir og enn færri njóti óskertra hagsvona, og slík niðurstaða verður ekki sótt til meginreglunnar um, að allir eigi að vera jafnir að lögum.“

Eitt atriði mætti minnast á hér í sambandi við framkvæmd þessara mála, ef þetta frv. verður að lögum, og það er það, að auðvitað verður að hafa hliðsjón af því við ákvörðun fasteignagjalda af þeim löndum sem hér um ræðir, ef þessar reglur verða teknar upp um framkvæmd eignarnáms. Það segir sig sjálft.

Herra forseti. Ég mun ekki hafa fleiri orð um þetta hér að þessu sinni, en ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og allshn.