26.02.1981
Efri deild: 59. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2601 í B-deild Alþingistíðinda. (2757)

228. mál, framkvæmd eignarnáms

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Hér er, að mínum dómi, hreyft mjög þýðingarmiklu máli í sjálfu sér, þ. e. um ákvörðun fjárhæðar vegna eignarnámsbóta. Það hefur löngum verið talin mjög örlagarík ákvörðun þegar einstaklingur er sviptur eign sinni, og þess vegna er, eins og hér hefur réttilega verið bent á og getið er um í grg., um það rætt og það skjalfest í hinni íslensku stjórnarskrá að þar skuli koma til fullar bætur. Hliðstætt ákvæði er raunar í stjórnarskrá fleiri ríkja og er þess getið hér, t. d. í norsku stjórnarskránni, 105. gr., og í 73. gr. dönsku stjórnarskrárinnar. Þess ber náttúrlega að geta, að auðvitað hefur í ýmsum tilfellum verið gengið á rétt samfélagsins og að margra dómi, og að mínum dómi jafnframt, væri e. t. v. ástæða til að reisa skorður við óeðlilega háum bótum.

Svo að við víkjum að Noregi aftur hafa þar verið sett sérstök lög um eignarnámsbætur, en í Danmörku hafa menn ekki treystst til að stofna til slíkrar löggjafar.

Ég ítreka að e. t. v. þarf að koma í veg fyrir óhóflegan hagnað eins aðila á kostnað samfélagsins, ég vil ekki neita því. En þessu máli má e. t. v. sinna á fleiri vígstöðvum en þar sem áhersla er lögð á forsendur laga um eignarnám, t. d. mætti athuga skattalöggjöfina og jafnframt skipulagslög. Það verður í sjálfu sér ekki um það deilt, að gífurlegt vandaverk er að semja lög um fjárhæð eða ákveða hversu háar fjárhæðir skuli til koma vegna eignarnámsbóta. Miðað við núverandi aðstæður held ég að svo sé einmitt þegar um það er að ræða að einstaklingar fá í ríkum mæli að halda fasteignum sínum og njóta arðs af þeim og hagnaðar af sölu á frjálsum markaði. Þessi viðfangsefni fela því að mínum dómi í sér mjög vandasamt pólitískt úrtausnarefni, hversu nærri sé þá réttlætanlegt að ganga að þeim einstaklingum sem eignarnám í sumum tilfellum bitnar á. Þarna eru því fjölmörg atriði sem koma til og eru mjög vandasöm í meðferð, þ. e. að setja skorður að því er varðar hámark þessara bóta. Ég vil ítreka að þessi málefni þurfa vandlegrar skoðunar við það vil ég ítreka og það er mín einlæga skoðun en ég vil vara við því, að gengið sé til lagasetningar frá einhliða sjónarmiðum.

Það hefur komið fram í framsögu hv. 1. flm. að um þetta hefur verið fjallað á opinberum vettvangi og hann hefur skilmerkilega greint frá því. En það er mín skoðun á þessu frv., að e. t. v. þurfi það að taka til fleiri atriða og kveða á um fleiri þætti en fram koma þar. Sumar reglur, sem þar eru, þarfnast að mínum dómi samræmingar og frekari útfærslu, t. d. annars vegar reglan um notagildi og hins vegar reglan um söluverðmæti. Hér er um það að ræða, að lagt er til að bætt verði einni grein inn í lög um eignarnám. Ég kysi frekar að menn gengju til þess verks að semja heildarlöggjöf um þessi efni.

Eins og ég vék að áðan og hv. flm. gat um er í Noregi sérstök heildarlöggjöf um ákvörðun eignarnámsbóta. Ég vil minna á það, eins og raunar hefur komið hér fram, að að sjálfsögðu þarf að taka til greina ákvæði 67. gr. íslensku stjórnarskrárinnar, um fullar bætur. Enn fremur er rétt að hafa í huga, að hin norsku lög hafa orðið tilefni umfangsmikilla málaferla í Noregi. Niðurstaða hæstaréttar Noregs varð raunar sú að takmarka yrði í ýmsum veigamiklum atriðum þær reglur er miðuðu að lækkun eignarnámsbóta. Úr því les ég það, að niðurstaða hins norska hæstaréttar hafi raunar verið sú, að þarna hafi verið um stjórnarskrárbrot að ræða.

Ég segi einu sinni enn, að þessi mál eru afskaplega vandmeðfarin og við verðum að gæta þess, að lagasetning leiði ekki til umfangsmeiri og harðvítugri málaferla en þegar hafa átt sér stað í þessum efnum, við skulum gæta þess. Ég vil koma í veg fyrir að réttur samfélagsins sé fótum troðinn, en við verðum jafnframt að hafa í huga hversu langt eigi þá að ganga í að skerða rétt einstaklingsins. Við skulum gæta að því, hvort ákveðin skref, sem stigin yrðu, væru e. t. v. ekki aðeins byrjun á öðru meira. Slíka löggjöf sem hér er verið að fjalla um þarf mjög að vanda.