26.02.1981
Efri deild: 59. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2602 í B-deild Alþingistíðinda. (2758)

228. mál, framkvæmd eignarnáms

Flm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Mér kemur ekki á óvart þó að sjónarmiðum þeirra, sem telja sig eiga landið og eru stundum skrifaðir fyrir landi, sé haldið hér fram að nokkru, en auðvitað er það rétt hjá hv. síðasta ræðumanni, 3. þm. Vesturl., að hér er um vandasamt mál að ræða. Ég vil aðeins út af því, sem hann sagði, leyfa mér að vitna til erindis Jóns G. Tómassonar, sem manna mest hefur hugleitt þessi mál og manna mest hefur um þau fjallað, bæði á hinum fræðilega vettvangi svo og í daglegu starfi, og þekkir þau. Hann hefur sett þetta á pappír betur en ég treysti mér til að gera og þess vegna vildi ég gjarnan vitna hér í fáeinar málsgr., með leyfi forseta. Það segir hér:

„Þegar skýra skal eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar er nauðsynlegt að hafa í huga þjóðfélagsástandið eins og það var, þegar ákvæðið var upphaflega sett. Taka verður mið af þjóðfélagslegum breytingum og ekki má missa sjónar af því, að tilgangurinn með setningu ákvæðisins var fyrst og fremst að vernda þá eign, sem einstaklingurinn hafði sjálfur skapað, en ekki að samfélagið ætti að greiða bætur fyrir verðmæti, sem skapast hafa vegna aðgerða þess, og skattleggja síðan eignir eða tekjur annarra til að greiða bæturnar.“

Það er þetta sem þetta mál snýst um. Síðan segir áfram:

„Ákvæðið á rætur sínar að rekja fyrst og fremst til 18. aldar heimspeki um verndun einstaklinga og eigna þeirra gegn gerræðisfullum aðgerðum stjórnvalda. Nú er hins vegar ástandið þannig, að oft þarf fremur að vernda hagsmuni almennings gegn óeðlilegum gróða einstaklinga, gróðahugmyndum, sem skapast vegna aðgerða þjóðfélagsins og löggjafar frönsku byltingarinnar og aðrir, sem fetuðu í fótspor þeirra, ætluðust ekki til að vernda með eignarréttarákvæðum sínum, enda sáu þeir eflaust ekki fyrir, að slíkur gróði gæti myndast.“

Síðan segir hér: „Margir hafa talið vandkvæði á því að taka í lög ákvæði um fjárhæð eignarnámsbóta, þar sem m. a. ákvæði 67. gr. stjórnarskrár setji slíkri löggjöf vissar og óhagganlegar skorður. Þessi skoðun á eflaust rétt á sér, en aðeins að vissu marki.

Stjórnarskráin tryggir eignarnámsþola vissulega rétt á bótum, sem svari til „fulls verðs“, en gefur enga vísbendingu um með hvaða hætti slík verðviðmiðun skuli fundin. Í ákvæðinu segir ekki, að endurgjaldið skuli ákvarðast með hliðsjón af þeim hagsmunum eignarnámsþolans að fá óáreittur að halda hinni teknu eign og nýta hana með óbreyttum hætti, eða þeim hagsmunum hans að kunna síðar að geta breytt eigninni til arðvænlegri nota. Og ákvæðið segir heldur ekki, að endurgjaldið skuli ákvarðast með hliðsjón af þeim hagsmunum, sem eignarnemi kann að hafa af eignarnáminu. Milli þessa hagsmunamats getur þó verið reginmunur, nánast hyldýpi, þegar það er metið til fjár.“

Síðan segir hér að lokum, — ég skal ekki tengja þessar umr. mjög:

„Spurningin, sem leita þarf svars við, er sú,“ — og það er aftur kjarni þessa máls,— „hvort hið opinbera skuli við eignarnám greiða bætur fyrir verðmæti, sem það sjálft hefur skapað eða leiðir af athöfnum þess, m. ö. o. hvort sækja eigi í vasa skattborgaranna greiðslu fyrir verðmæti, sem þeir hafa þegar greitt fyrir.“

Þetta er kjarni málsins. Ég ítreka það og minni á það, að Samband ísl. sveitarfélaga hefur hvað eftir annað lýst fullum stuðningi við þetta mál og lagt fram óskir um að það megi ná fram að ganga á Alþingi.

Ég hef þá lokið máli mínu, herra forseti.