26.02.1981
Efri deild: 60. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2605 í B-deild Alþingistíðinda. (2764)

231. mál, eftirlaun til aldraðra

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Nokkur orð um fsp. frá hv. þm. Davíð Aðalsteinssyni, 3. þm. Vesturl. Ég kannast við þetta bréf frá Stéttarsambandi bænda.

Ég sendi það strax Umsjónarnefnd eftirlauna til athugunar. Ég hef enga niðurstöðu fengið þaðan, en ég geri ráð fyrir að hér sé um að ræða fólk sem nýtur engra réttinda samkv. lögum um eftirlaun til aldraðra vegna þess að ekki er um að ræða einstaklinga sem verið hafa í venjulegri launavinnu og geta ekki sannað það, hvorki með skattframtölum né öðrum hætti. Það er um að ræða mikinn fjölda fólks í landinu sem nær ekki lífeyrisréttindum út úr þessu, það er alveg ljóst. — Ég hef ekki fengið niðurstöðu frá Umsjónarnefndinni varðandi þetta sérstaka mál, en get gengið eftir henni hvenær sem er.