26.02.1981
Neðri deild: 59. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2606 í B-deild Alþingistíðinda. (2769)

193. mál, viðnám gegn verðbólgu

Matthías Bjarnason [frh.]:

Herra forseti. Ég talaði nokkuð í gær þó að forsrh. væri fjarverandi, en nú sé ég ekki ástæðu til að halda áfram fyrr en hann er kominn. Ég tel að það sé alveg lágmarkskurteisi af ráðherrum sem flytja hér mál, að þeir séu viðstaddir umr. Ég býst ekki við, að hann sé uppi á Akranesi enn þá, og ég ætla því að bíða. — Hvort ég á að bíða hér í ræðustólnum eða fara í sætið, ég ætla ekki að flytja ræðu mína nema forsrh. sé viðstaddur. (Forseti: Ég gef hv. þm. leyfi til að taka sér sæti á meðan við hinkrum við.)

Herra forseti. Það hafa verið fréttir í gær og dag um opinbera heimsókn forseta Íslands til Danmerkur og fjölmiðlar hafa gert þeirri för og gestrisni Dana góð skil, eins og sjálfsagt er og skylt, en það brá nú aftur út af hjá útvarpinu. Jafnhliða fréttum af opinberri heimsókn forseta Íslands til Danmerkur er skýrt ítarlega frá för forsætisráðherra Íslands til Akraness. Þetta er eiginlega alveg nýr fréttaflutningur og nýr fréttamáti. Var sennilega um þetta beðið af ríkisstj. til að fylgja eftir hugmyndum hennar og forsrh. um að hann sé þjóðarleiðtogi og alveg sérstaklega vinsæll í landi sínu. Verða þá opinberir fréttamiðlar að fylgja slíkum þjóðarleiðtoga eftir og endursegja það sem hann lætur frá sér fara.

Hann mun hafa kvartað undan því uppi á Akranesi að sjálfstæðismenn hér í deildinni væru að beita málþófi. Ég ætla ekki að ásaka forsrh. um það þó að hann hafi haldið hér í hálftíma í gær nauðaómerkilega ræðu og sagði ekki neitt í henni. Hún hefði alveg eins getað verið 2 mínútur og 30. Ég er ekki að saka hann um að hann hafi verið að beita málþófi. Í hverju er málþóf fólgið? Er það fólgið í því að sinn hvor maðurinn frá stjórnarandstöðuflokkunum, formaður Sjálfstfl. og formaður þingflokks Alþfl., töluðu á fundartímanum, sem var þó ekki allur tíminn kl. 2 og 4, því að nokkrar mínútur fóru framan af fundartímanum, en að öðru leyti fór sá tími í þetta mál? Þetta er meira mál en setning brbl. Það hefur einnig í för með sér umr. um efnahagsáætlun ríkisstj. Þetta eru umr. um almenn efnahagsmál. — Síðan var haldinn fundur. Þá er forsrh. farinn upp á Akranes og vitaskuld átti að fresta þeim fundi, en talsmaður Alþfl., sem hafði ekki lokið máli sínu fyrr en kl. 4, hélt sinni ræðu áfram og ég hóf mína ræðu.

Ég hafði hugsað mér að verða ekki mjög langorður í þessari ræðu, en mér finnst það hart þegar forsrh., sem leggur mál fyrir, hverfur af þingfundi kl. hálfsex, þegar þingfundir hefjast að nýju, og er farinn úr bænum. Það eru haldnir fundir til klukkan að ganga 7, en þá er hann að klaga Sjálfstfl. uppi á Akranesi. Ja, þvílík væluskjóða! Ég ætla að þakka fyrir slíkar umkvartanir og sömuleiðis útvarpinu fyrir að flytja þessar umkvartanir Það fer aftur minna fyrir fregnum í Ríkisútvarpinu af því sem fulltrúar stjórnarandstöðu segja um þessi mál. Áramótaskaupið í sjónvarpinu hjá ríkisstj. tók marga daga. Það var ekki bara á gamlársdag. Því var haldið áfram dag eftir dag. Þar fékk ríkisstj. að glenna sig með að þetta væru stórkostlegar efnahagsráðstafanir og nytsamir sakleysingjar innan þessarar stjórnar tóku svo undir það við hana. En eftir stendur ekki neitt. Það hafa verið færð rök að því að það þurfti engin brbl. að gefa út. Alþingi gat afgreitt þau mál sem þurfti að lögfesta. Fyrir öðru voru heimildir í brbl. Þetta er búið að margtaka hér fram.

Ég tel orðið fullkomið áhyggjuefni hvernig fréttamenn bæði ríkisfjölmiðla og annarra fjölmiðla reyna að koma fréttum til almennings. Ég held að það væri fróðlegt að fá á því rannsókn, hvort þar sé þrýstingur frá ríkisstj. eða hvort það sé af eigin hvötum fréttamanna almennt og þá á ég ekki við neinn einn út af fyrir sig.

Það hafa ekki verið gerð mikil skil í fréttum, ekki í ríkisfjölmiðlum, tillögum sjálfstæðismanna og Alþfl.- manna í brtt. þeirra við þetta frv. í Ed. Þeim var leyft að komast að í eina mínútu hvorum í hádegisútvarpinu í gær. Það er mínútu meira en andófsmönnum yrði leyft í Sovétríkjunum. Ég veit ekki hver er yfirmaður útvarps, því að menntmrh. er lítið hér á landi eftir að hann varð ráðh. Hann er meira erlendis, er farinn víst enn, en hver gegnir starfi hans veit ég ekki. Það væri fróðlegt, ef sá heyrir hér og er viðstaddur, ef hann skýrði frá því, hvort það sé fyrir atbeina ríkisstj. að þessi nýi máti í fréttaflutningi er tekinn upp.

Ég kom hér í gær inn á fréttatilkynningu frá heilbr.- og trmrn. og orðalag hennar og hvað það olli víða misskilningi hjá fólki og þá ekki síður hjá öldruðu fólki. Það taldi að hér væri um að ræða 8% hækkun tekjutryggingar elli- og örorkulífeyrisþega, það væri ekkert undanskilið þar, en þeir, sem þekkja vel inn á þessi mál, skildu það. Meira að segja þm. í Ed. misskildu þessa fréttatilkynningu og létu blekkjast af umbúðunum um hana með því að taka aftur till. sína. Þeir sáu þó fljótt hvernig þessum málum var háttað, en það var of seint.

Það var látið að því liggja að till. þeirra um hækkun almennra bóta almannatrygginga gengi skemur en ákvörðun ríkisstj. En í ljós kemur að hinn almenni ellilífeyrir hækkar aðeins um 6%. Út úr eru teknar tekjutryggingin og heimilisuppbótin, sem nær aðeins til 2577 manna miðað við árslok 1979, og má reikna með að séu um 3% fleiri um síðustu áramót. Elli- og lífeyrisþegar og aðrir bótaþegar atmannatrygginga voru um 25 þús. í árslok 1979 og heildarfjölgun ætti því að vera 3% ofan á þá tölu. Ellilífeyrisþegar voru þá taldir vera 18 300, en þeir, sem fengu tekjutryggingu, bæði skerta og óskerta tekjutryggingu, voru taldir þá 11 400. Það er því enginn smáhópur sem verður nú að sætta sig við aðeins 6% hækkun þegar verðbótavísitalan gerir ráð fyrir 14.32% hækkun. Það er ekki lítið sem er verið að taka af bótaþegum almannatrygginganna.

Við skulum líta á hinn almenna ellilífeyri til hjóna. Hann var 2135 nýkr., hann fer í 2263 nýkr., en ef bótaþegar hefðu fengið fulla vísitölu hefðu bæturnar orðið 2441 kr. Skerðing á ári miðað við þetta er hvorki meira né minna en 2136 nýkr. eða 213 600 gkr.

Ég held að það væri búin að koma glannafyrirsögn í Þjóðviljanum, ef kommarnir væru ekki í ríkisstj., og talað mikið um það. Mér segir svo hugur að sumir þm., sem nú sitja í salnum og þegja þunnu hljóði, væru búnir að spretta hér margoft á fætur og fara í ræðustól. En nú er það í lagi. Nú gerir ekkert til þó að skertar séu bætur almannatrygginga. Hvað segja nú baráttumenn fyrir almannatryggingum úr hópi kommúnista? Hvað segja þeir nú? Hvað segja þeir um sjúkradagpeningana, vasapeningana? Þær verður 6% hækkun þegar verðbótavísitalan er 14.32. Hvað með fæðingarstyrkina, baráttumálið mikla fyrir jólin? Hvað er um barnalífeyrinn? Hvað er um mæðralaun og bætur til ekkna, 6%, sem nú þykir ágætt? Nú er þetta allt í góðu lagi. Hverjir fara með heilbrigðis- og tryggingamál? Alþb. Flokkur þeirra sem berjast alltaf fyrir lítilmagnann. Þetta væri ekkert óeðlilegt ef það væru vondir menn í ríkisstj. sem aldrei vildu sinna þessu fólki nema vera neyddir til þess, eins og þessi flokkur hefur viljað halda fram.

Guðmundur J. Guðmundsson lagði hér inn á borðið fsp. Af því að forseti vildi ekki leyfa honum að bera fram fsp. undir ræðu minni kom hann með hana hingað og spurði: Hvað voru bæturnar 1978 háar, hverjar voru þær? Nú er hann alveg gufaður upp, hann sést ekki. Ég sagði honum þá að ég héldi hér áfram kl. 2. — Ég skal koma nánar inn á þessar bætur. Ég sagði þá, að sennilega væri hann kominn í jakkavasann á fjmrh. eða í vestisvasann á orkumálaráðh. (SighB: Eða til Stykkishólms.) Kannske er hann kominn til Stykkishólms. Það fer ekki mikið fyrir jakahlaupi þessa dagana.

Ég held að það væri rétt að minna á það út af bótum almannatrygginga, að þegar ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar tók við og til 1. júní 1978 hækkaði elli- og örorkulífeyrir um 263.5%, tekjutryggingin hækkaði á sama tíma um 495.2% og tekjutryggingarmark elli- og örorkulífeyris að viðbættri tekjutryggingu á sama tíma hækkaði um 345.3%. Tekjutryggingarmark með heimilisuppbót, sem tekið var upp á árinu 1977 eftir kjarasamninga, hækkaði á því stjórnartímabili um 423.9%. Frítekjumarkið, þ. e. hámarksfjárhæð tekna annarra en af lífeyri, sem ekki skerðir réttindi tekjutrygginga, hefur hækkað um 380% til 1. júní 1978. En í byrjun júlímánaðar það ár voru gefin út brbl. þar sem frítekjumarkið var hækkað verulega til að skerða ekki rétt tekjutryggingarþega. Hækkunin eftir útgáfu þeirra laga var því 692% fyrir einstakling og 516% fyrir hjón. Á sama tíma og þetta gerðist í tryggingamálunum hækkuðu kauptaxtar verkamanna um 261.6% og kauptaxtar allra launþega um 252.7%. Á þessu sést að elli- og örorkulífeyrir ásamt tekjutryggingu hefur hækkað mun meira en almennt kaupgjald hækkaði í landinu á þessum tíma og þó alveg sérstaklega til einstaklinga sem njóta heimilisuppbótar. Í lok valdatíma vinstri stjórnarinnar, sem var á undan og fór frá 1974, var hámark tekjutryggingar einstaklings 54.6% af elli- og örorkulífeyri, en þegar stjórnin fór frá 1978 var þetta hámark komið upp í 89.4% og auk þess tekin upp heimilisuppbót fyrir einstaklinga. Þannig var hlutur þeirra, sem verst voru settir, aukinn verulega á tímabili þeirrar ríkisstj. sem sat 1974–1978.

Þetta þótti Alþb. alveg hræðileg stjórn og gat ekki unað því að hún fengi starfsfrið, og þá var hafinn skæruhernaður og skemmdarstarfsemi í landinu undir forustu Alþb. Þá voru verkalýðsleiðtogar í þeim hópi heldur vígreifir. Þá var ekki staðið í 10 mánaða samningastappi upp á það að fá að meðaltali 1% kauphækkun á mánuði. Nei, þá var brugðið heldur harkalega við. Það var sett útflutningsbann á íslenskar afurðir. Það varð að nota fiskinn í frystihúsunum fyrir keyri og stöðva útflutninginn. Það var kjarabarátta fyrir fólkið að stöðva útflutninginn og beita skæruhernaði, — beita hreinni og klárri skemmdarstarfsemi. Þetta var gert. Þá þótti núv. hæstv. forsrh. þetta ekki gott frekar en öðrum hugsandi mönnum. En á bak við þetta bjó að koma átti frá völdum ríkisstj. sem naut ekki stuðnings þessarar klíku. Og þá var ekki verið að spyrja um hver væri með henni. Þá var sagt við launþega: Stéttasamtökin skulu hafa fullt frelsi til samninga um kjör félaga sinna. Gerða kjarasamninga ber skilyrðislaust að virða. Stuðla ber að launajöfnuði og tryggja raunverulegt launajafnrétti karla og kvenna. Launamenn eiga réttláta kröfu til þess að laun séu verðtryggð samkv. samningum hverju sinni. — Þetta var stefnan 1978. Síðan er búið að skerða launin um 34% og gráðugra fólk er ekki til en Alþb.- fólkið sem étur þetta allt saman ofan í sig. Það endurprentar sennilega stefnuna næst þegar gengið verður til kosninga. Þetta er flokkurinn sem ræður öllu í þessari ríkisstj. Hann hefur Framsfl. meira eða minna í taumi, að ég tali nú ekki um hina þrjá. Það þarf ekki einu sinni að hafa taum á þeim, þeir elta, enda er aldrei talað um það.

Sagt er að Alþb. og Framsfl. séu að ræða saman um ágreiningsmál núna, og yfirþm. hv. Ólafur Ragnar Grímsson segist ekkert vilja um málið segja fyrr en þetta sé búið og þá auðvitað með fullum sigri kommúnista. Það er ekki minnst á hina þrjá í ríkisstj. frekar er þeir séu ekki til. Þeir vita að þeir dingla með hvernig sem þetta fer. Þeir fljóta ofan á eins og korktappi.

Ég bjóst nú við því, að þegar forsrh. fylgdi þessu frv. úr hlaði mundi hann skýra frá hvaða aðgerðir væru væntanlegar í efnahagsmálunum. En það kom ekki eitt orð frekar en fyrir jólin. Það verður sennilega ekki gert á Alþingi. Það verður gert í fjölmiðlum og þá verður leikþáttur undirbúinn alveg eins og var á gamlársdag, — tvær upptökur. Rullan kom svo seint frá Svavari Gestssyni og Steingrími Hermannssyni að jafngóður leikari og forsrh. þurfti tvær upptökur. (Forseti: Það ber að ávarpa hæstv. ráðh. sem hæstvirta.) Já, hæstv. Ég skal taka það til greina, hæstv. forseti.

Nú ber vel í veiði. Nú hefur gengið í salinn 7. þm. Reykv., formaður Verkamannasambands Íslands, Guðmundur J. Guðmundsson. (Forseti: Það ber að ávarpa hv. þm. sem háttvirta.) Já, Lási kokkur sagði oft við menn: Guðmundur heitinn sálugi. Mér finnst jafnvel eiga við að segja, þegar maður hugsar til þess mikla baráttumanns fyrir verkalýðshreyfinguna, að nú sé hann orðinn Guðmundur J. sálugi heitinn. (Forseti: Hv. þm.) Já, hv. Guðmundur J. sálugi heitinn. Svo er honum nú aftur farið að eins og ég sagði kemst hann nú jafnvel fyrir í vestisvasa hæstv. iðnrh.

Berum saman baráttu Alþýðusambands Íslands 1977, útflutningsbannið og allt það, berum nú saman samningana á s. l. ári í 10 mánuði og afraksturinn, 1% á mánuði eftir 10 mánaða vinnu, og berum saman núna kjaraskerðinguna, sem á sér stað með brbl. sem við erum að ræða hér, og skerðingu Ólafslaga, sem Alþb. átti fulla aðild að. Þá kallar fjmrh. í þessa höfuðsmenn Alþýðusambands Íslands og segir þeim að þá verði skattalækkun og lækkun á sjúkratryggingagjaldinu. Og fjmrh. bjóst við þó nokkrum fundum með þeim, en varð svo undrandi að þeir gleyptu þetta á fyrsta fundi og kepptust við að segja að hér væru „slétt skipti“. Nú gerir það ekkert til, nú má skerða launin. Og það má líka leika sama leik og sá meiri hl., sem styður þessa ríkisstj., lék fyrir jólin, að afgreiða fjárlög með skattvísitölu 145 — þegar hún átti að vera a. m. k. 151–152 að dómi Þjóðhagsstofnunar — til þess að íþyngja í sköttum. Það er núna verið að gefa eftir af þeirri íþyngingu sem ranglega var mörkuð með afgreiðslu fjárlaga og svo lágt er risið á forustumönnum Alþýðusambands Íslands að þeir segja: Já takk, við gleypum þetta á sléttu. — Ég held að það sé jafnvel betra að gleypa heilt flugskýli en gleypa þetta fyrir hönd allra launþega í landinu — og þó þau séu þrjú. Ég spyr: Finnst alþm. og finnst þjóðinni að forustumenn launþegasamtakanna standi í stöðu sinni? Finnst þeim ekki vera munur á hvernig forustumenn þeirra haga sér eftir því hvaða ríkisstj. situr? Er þetta hið faglega starf verkalýðshreyfingarinnar? Nei, hér eru menn á ferðinni sem nota verkalýðshreyfinguna og launþegasamtökin í landinu annars vegar til skemmdarverka gagnvart ríkisstj. sem þeir eru á móti, en hins vegar liggja þeir hundflatir þegar er ríkisstj. sem þeir eru með. Þetta er léleg forusta.

Ég tel sjálfsagt að verkalýðshreyfingin og launþegar taki fyllsta tillit til hvaða ríkisstj. sem er í að móta efnahagsstefnu, og jafnvel verða launþegar sem aðrir einhverju að fórna. Ég hefði ekkert talið athugavert við að skerða kaupið, sem þessi brbl. gera ráð fyrir að skerða, ef samræmdar aðgerðir til að koma í veg fyrir verðbólgu eða samræmdar aðgerðir til að lækka verðbólguna væru gerðar um leið. En þegar ekkert stendur eftir í þessum brbl. annað en að skerða kaup launþega, en halda áfram á fullri ferð í verðbólgudansinum, tel ég að fulltrúar verkalýðssamtakanna hafi ekki átt að standa að málum eins og þeir hafa gert. Þeir hefðu þá átt að gera aðrar og meiri kröfur til ríkisvaldsins.

Til hvers er þetta sama ríkisvald að óska eftir og gefa út brbl. um heimild til að skera niður framkvæmdir á fjárlögum þegar 3000 millj. heimild gkr. er í fjárlögum og ekkert er farið að gera, að við vitum? Það væri fróðlegt að fá að vita nú hjá hæstv. fjmrh. hvað líði þessum niðurskurði. Ég spyr hann ekki hvað líði niðurskurði á lánsfjáráætluninni, sem brbl. gera ráð fyrir að heimila ríkisstj., af þeirri einföldu ástæðu að lánsfjáráætlun liggur ekki enn þá fyrir frá hendi ríkisstj. og hæstv. fjmrh.

Ég hef áhuga á að vita hver sé afstaða ríkisstj. til búvöruverðsbreytinga núna eftir tvo daga. Það er uppi ágreiningur í sexmannanefndinni um það, hvernig túlka eigi verðstöðvunina í brbl. Hvernig túlkar ríkisstj. verðstöðvunina? Er bann við því að hækka búvöruverðið eða er ekki bann við því? Ef þetta er óljóst ákvæði, hvernig stendur þá á því að ríkisstj. flytur ekki brtt. við brbl. til að gera þetta ákvæði fyllra þannig að menn þurfi ekkert um það að deila dögum saman? Það er verið að byrja þarna. Voru ekki fulltrúar bænda að ganga á fund landbrh.? Hver er hans skoðun? Hver er skoðun fjmrh.? Hver er skoðun forsrh. á þessu máli eða ríkisstj. í heild, ef hún hefur heildarskoðun á málinu? Er þá ekki nauðsynlegt að breyta þessu frv., þó að það sé komið til Nd., til að taka af öll tvímæli í þessum efnum.?

Það er undarlegt að á þessum tímum verðstöðvunar var gamlársdagur notaður vel til að hækka hressilega þjónustu opinberra aðila og nú nýlega voru Skýrsluvélar að hækka þjónustu sína um 25% og það rann í gegn í ríkisstj. Ná þá verðstöðvunarlögin ekki til Skýrsluvéla ríkisins? Ég sé þar hvergi neitt undanskilið. Er samræmi í þessu starfi? Ég held að annar gangi eitt skref áfram og hinn eitt skref aftur á bak.

Það væri gaman að fá að vita hjá formanni Verkamannasambands Íslands hvað hann telji að í árlegar afborganir og vexti og vísitöluálag af lánum Byggingarsjóðs til hverrar íbúðar fari af daglaunum verkamanns, en stefna Alþb. var að þar færu aldrei yfir 20% af daglaunum verkamanns. Hvað á þetta eiginlega eftir að breytast núna á þessu ári, ef áfram heldur skerðing á launum, hvað verður hlutfallið ef þessi stjórn sæti nú út kjörtímabilið með sama árangri og hún hefur sýnt í liðlega eitt ár? (Gripið fram í: Hún situr út kjörtímabilið.) Já, en alls ekki lengur, það er útilokað, — ekki nema hafa þá engar kosningar eða bara einn frambjóðanda, eins og þeir gerðu í einu ákveðnu ríki sem þm. þekkti einu sinni vel, en er nú farinn að afneita því núna öðru hverju.

Í gær var ætlunin að afgreiða þetta mál til 2. umr. og það var ætlunin að kalla saman fund í n. í morgun og afgreiða málið fyrir hádegi. Ég sagði formanni fjh.- og viðskn. Nd. að ég væri annars staðar. Hann hefur alltaf reynt — og reynir enn — að hafa gott samstarf við nm. og því gekk hann auðvitað ekki til þess, enda kom forsrh. sjálfur í veg fyrir að frv. væri vísað til 2. umr. og nefndar með því að vera víðs fjarri. Hann segist hafa verið búinn að ákveða þennan fund og það getur enginn neitt sagt við því, hann hefur að sjálfsögðu eins og allir aðrir leyfi til að fara eitthvað annað, en þá þýðir það ekki í sömu andránni að kenna öðrum um að þeir séu að beita málþófi og töfum í þessu máli. Ég skora á hæstv. forsrh., að áður en þessari umr. lýkur, áður en ríkisstj. heldur til Kaupmannahafnar, skýri hann þd. frá því helsta sem er í undirbúningi nú í efnahagsmálum. Það getur verið fróðlegt að vita hvað á að taka við. Það er loforð um að ekki eigi að skerða verðbætur á laun 1. júní, 1. sept. og 1. des. Það eru fyrirheit um að draga úr verðbólgunni. Okkur leikur forvitni á að vita og heyra með hvaða hætti menn ætla að draga úr verðbólgunni út þetta ár og halda áfram að öðru leyti á fullri ferð. Þeir verða harðast úti af völdum verðbólgunnar sem eiga minnst og þeir sem urðu harðast úti eftir aðgerðir verkalýðsforustunnar 1977. Þeir biðu mesta tjónið af útflutningsbanninu, en ekki sú ríkisstj. sem sat þá. Þetta á verkalýðshreyfingin að skilja á hverjum tíma.