04.11.1980
Sameinað þing: 13. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í B-deild Alþingistíðinda. (277)

46. mál, breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það gengur maður undir manns hönd og gerir fsp. til hæstv. ríkisstj. Hæstv. forsrh. er spurður út úr, spurður um lífshagsmunamál okkar, og allir hæstv. ráðh. þegja eins og múlbundnir. Það er einhver háværasta þögn sem ég hef lengi heyrt. Það glymur í þeirri þögn.

Hæstv. viðskrh. biður menn að bíða og halda í vonina um að ráðstafanirnar muni sjá dagsins ljós. Einfaldast hefði átt að vera fyrir hann að vísa mönnum um ráðagerðir ríkisstj. til stefnuræðu hæstv. forsrh. Af hverju ætti hæstv. viðskrh. hafi ekki gert það? Sjálfsagt vegna þess að hann hefur lesið hana eða hlustað á hana, nema hvort tveggja sé, og veit að þar er ekki rífandi ræksni af neinu viti í ráðstöfunum til handa þjóðinni í efnahagsmálum og dettur þess vegna ekki í lifandi hug að vísa einum né neinum til þeirrar stefnuræðu. Ég vil aðeins skjóta inn í að ekki getur hið háa Alþingi sætt sig við það til lengdar, að forsrh. einnar ríkisstj. fari það lauslega með þetta ætlunarverk, sem bundið er í lögum eða þingsköpum, að flytja þjóðinni stefnu stjórnar sinnar, en gera það með þeim hætti sem raun bar vitni nú síðast.

Hv. þm. 6. landsk. Karvel Pálmason varpaði fram spurningum. Hv. þm. á kröfu á svari frá hæstv. ríkisstj. Ég bæti því við að þetta er forsetaframbjóðandi. Kannske verður hann virtur svars þegar hann hefur verið kjörinn forseti Alþýðusambands Íslands, það má vel vera. En spurningin er, hvort þeir, sem velja hann til þess embættis, ef þeim svo sýnist, sætta sig við að hafa engin svör fengið við spurningum þegar og þá það hefur skeð.

Herra forseti. Ég er að ljúka máli mínu. Menn hafa rætt um gjaldmiðilsbreytinguna fyrirhuguðu. Ég er ekki kominn svo langt að hugsa beinlínis til hennar, heldur hugsa ég með hrolli og skelfingu til þess sem bíður þessarar þjóðar hinn 1. des. n. k. í verðtagsþróuninni, — þeirrar holskeflu sem þar rís. Það er mér gersamlega hulin ráðgáta að menn hyggist ekkert gera til viðnáms við þeim ókjörum.