26.02.1981
Neðri deild: 59. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2637 í B-deild Alþingistíðinda. (2773)

193. mál, viðnám gegn verðbólgu

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég er nú búinn að standa í fundahöldum og hvers konar þvargi í a. m. k. 35 ár, og ég verð satt að segja að segja það, að þó að oft hafi verið glatt á hjalla man ég vart eftir ræðu eins og hjá hv. síðasta ræðumanni. Ef ég vildi svara hv. 7. landsk. þm. í svipuðum tón og hann talar mundi ég segja að fyrir pólitíska tilviljun og ógæfu samtíðarinnar hafi hann skolast inn á hv. Alþingi. Svona málflutningur, svona botnlaust persónuhatur, sem heltekur þennan hv. þm., er satt að segja á því stigi að það er ekki til umræðu og á ekki að svara slíku.

Ég held ég leggi ekki í umr. við hv. 1. þm. Reykv., en ég hef nokkurn áhuga á hv. 1. þm. Vestf. Bæði er það nú, að hann er einn harðskeyttasti stjórnarandstæðingurinn hér og á það til að vera býsna skemmtilegur oft á tíðum í málflutningi sínum. En áður en að því komi vil ég svara Friðrik Sophussyni. Hann hélt hér efnislega ræðu. Það er meira en hægt er að segja um flesta aðra sem hér hafa talað í dag.

Hann beindi ákveðinni spurningu til mín um 1.5% skattalækkun sem „fjórir spekingar“ hefðu samþykkt fyrir hönd Alþýðusambandsins. Ég skal skýra þetta. Það voru fengnir fimm menn til að ræða við fjmrh. um framkvæmd þessa fyrirheits ríkisstj. Í þessari nefnd voru menn sem tilheyra ólíkum stjórnmálaflokkum og með mjög mismunandi afstöðu til skattamála. Hlutverk þeirra var alls ekki það, að þeir ættu fyrir hönd Alþýðusambandsins að lýsa sínum skoðunum. Þar voru ágætir Alþfl.-menn með allt aðrar skoðanir á skattamálum. Það var einungis verkefnið að vera umboðsmenn Alþýðusambandsins til að tryggja að þessi skattalækkun upp á 1.5% kæmi til skila. Þetta var verkefnið. (Gripið fram í: Skattalækkun miðað við hvað?) Vissulega er miðað við fjárlög. Hvað er annað miðað við? Hvað datt hv. þm. í hug?

Einn ágætur flokksbróðir þessa hv. þm., Björn Þórhallsson, var um árabil formaður framtalsnefndar Reykjavíkurborgar fyrir hönd Sjálfstfl. Hann er þrautreyndur skattamaður. Ég mundi taka svo djúpt í árinni að hann væri einna þrautkunnugastur skattamálum þeirra sem ég þekki. Hvort sem pólitík hefur verið með í spilinu eða ekki hefur þessi ágæti maður alltaf verið talinn ómissandi vegna geysilega góðrar þekkingar sinnar og hæfni á þessum málum. Hann átti sæti í nefndinni.

Ég vænti þá að spurningunni sé svarað. Við lýstum því yfir, að með þessum aðgerðum væri stjórnin búin að uppfylla þetta ákvæði. Það bindur ekki t. d. Alþfl: mann eða sjálfstæðismann, ef hann tilheyrir þeim flokkum, að það séu skoðanir hans í skattamálum — alls ekki. Þessir fimm voru nánast gæslumenn þess, að skattalækkunin væri framkvæmd. Það var gert og liggur skýrt fyrir.

En víkjum nú að hv. 1. þm. Vestf. Hann fór á kostum í gær. Hann sá Alþb. í hverju horni. Hann býsnaðist lifandis ósköp yfir að hæstv. forsrh. væri að flækjast upp á Akranes og hæstv. félmrh. gæti farið þangað. Mér skilst að þetta hafi verið fundur hjá sjálfstæðisfélögunum á Akranesi. Hvað um hv. þm. Jósef H. Þorgeirsson? Hann hlýtur að vera kominn á svartan lista. Hann mætti með varaformanni flokksins, — sem hv. 1. þm. Vestf. féll fyrir á síðasta landsfundi, ef ég man rétt, — á fundi upp á Akranesi. Og mér er sagt að þarna hafi verið sjálfstæðismenn fyrst og fremst. Mér er sagt að það hafi verið ágætasti fundur sem þeir hafi haldið. Sjálfsagt hafa þeir sungið sjálfstæðisstefnunni lof og dýrð. En það var meira. Hann kvartaði mjög undan því, hvernig Alþýðusambandsstjórn hefði brugðist við þeim tillögum í efnahagsmálum sem hér liggja fyrir. Alþýðusambandsstjórnin gaf einróma umsögn um þessar tillögur. Þar voru t. d. tveir ágætir vinir mínir, — 20% af þingflokki Alþfl. Þar voru þrír flokksbræður hv. 1. þm. Vestf. og gegna allir trúnaðarstörfum í flokknum. Voru þetta allt tómir Alþb.-menn? Í viðræðunefndinni í skattamálum var minni hlutinn Alþb.-menn. Allt Alþb.-menn, segir 1. þm. Vestf. Mig skal ekki undra þó að menn séu ókyrrir þegar þeir sjá Alþb.-menn í hverju horni og þegar lagt er til að formaður Alþb. sé framsögumaður í sjálfstæðisfélaginu á Akranesi. Ég held að menn verði að hefna harma sinna í flokknum, en ekki vera að kveina hér á Alþingi yfir þessum ósköpum. Fyrir hönd formanns Alþb. afþakka ég þetta boð, að mæta á fundum sem framsögumenn hjá Sjálfstfl. hvar sem er á landinu, en í kappræðu getum við farið við Matthías Bjarnason o. fl.

Ekki nóg með það. Síðan barðist hv. þm. hér ansi hressilega um og lýsti yfir hvernig þetta væri nú, hvernig gamla fólkið hefði verið leikið, og talaði um falsið og svikin og blekkingarnar, ríkisstj. lifði á blekkingum. Ég held að hann hafi sagt það tíu sinnum. Ég held að það sé óhjákvæmilegt vegna þessara gífurlegu, hryllilegu svika og út af þeim umr., sem hér hafa farið fram áður að staldra við.

Hvað fólst í lögunum frá 17. febr.1978? Það fólst í þeim að það skyldi aðeins greiða hálfar verðbætur 1. mars, 1. júní, 1. september og 1. desember. Í þessum brbl. er hins vegar lagt til að verðbætur séu skertar 1. mars um 7%, á móti komi krafa, sem verkalýðsfélögin lögðu fram í samningum, um breytt vísitöluform. Þær tölur, sem hafa verið nefndar um minnkandi kaupmátt, má að verulegu leyti rekja til þessara laga. Það má að vísu koma með alls konar tölur um kaupmátt og það geta sjálfsagt allir haft rétt fyrir sér út frá hvaða forsendum þeir ganga. — En hvernig er nú komið fyrir gamla fólkinu? Í lögum frá 1978 segir, með leyfi forseta, í 3. gr., — það er best að lesa 3. gr. fyrir fyrrv. heilbr.- og trmrh.:

„Bætur almannatrygginga, aðrar en fæðingarstyrkur, skuli 1. mars 1978, l. júní 1978 og 1. september 1978 taka sömu hlutfallshækkun á laun almennt þessa daga. Hækkun þessi skal einnig taka til greiðslna samkv. 73. gr. laganna“ — þ. e. allt skert um helming um vísitöluna.

„Fjárhæð uppbótar á lífeyri, tekjutryggingar, samkv. 1. mgr. 19. gr. laganna, svo og heimilisuppbótar, samkv. 2. mgr. 19 gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 56/1977, skal hækka um 2. prósentustig 1. mars 1978 umfram hækkun almennra bóta þann dag“ — 2 stig. Þetta átti að gilda árið. Það var eitt kaupgreiðslutímabil sem það er sett á 2`% hækkun. Nú er verið að leggja til miklu meiri hækkun. Haldið þið að einhver segi nú: Er þetta hægt, Matthías“ — að leggja sjálfur til 2%, en tala um það sem rán ef það eru 8%? Hvers konar málflutningur er þetta af prýðilega hæfum og þrautreyndum stjórnmálamanni? Það er meira en lítið sem á gengur þegar menn halda svona á málum.

Ég vil ekkert fara að elta ólar við hv. þm. Karvel Pálmason. Munurinn á þessum lögum, sem hann taldi sig nú saklausan af baráttu gegn 1978, — ég er nú ekki viss um að flokksbræður hans mundu fagna þessum yfirlýsingum, svo rösklega gengu þeir nú margir fram, — munurinn er sá, að hér er um að ræða einu sinni 7% skerðingu, en á öllum fjórum tímabilunum 1978 var vísitalan skert um helming. Þar kemur ekkert í staðinn. Nú kemur í staðinn ákveðin skattalækkun. Það kemur nýtt vísitöluform, sem mikið hefur verið barist fyrir. Án þess að ég geri Þjóðhagsstofnun að minni biblíu, þá rúllar um það bil 1% hvorum megin kaupmáttarrýrnunin er. Hitt skal ég vera fúsastur til að viðurkenna, að allt slíkt er ákaflega vafasamt og hættulegt og dugar ekki eitt sér. Af hverju ekki? Þegar þessi lög voru sett í febr. 1978 var þeim að vísu breytt í maí 1978, en lögin voru í gildi allan tímann þar til ríkisstj. hrökklaðist frá.

Það er talað mikið um útflutningsbann Verkamannasambandsins, sem ég skal ekki vera margorður um. Verkamannasambandið hélt ákaflega snyrtilega á sínu útflutningsbanni. Það hélt þannig á því, að það stöðvaðist ekkert frystihús í landinu. En aftur á móti, undir lok ráðherratíðar hv. 1. þm. Vestf., — ég vil að hv. 1. þm. Vestf. taki eftir, það er verið að lýsa afrekum hans, — tókst honum það sem Verkamannasambandinu tókst ekki, að hverju einasta frystihúsi í landinu var lokað og allur flotinn ætlaði að sigla til hafnar. Þetta voru afrek ráðh. og þannig kvaddi hann. Þetta var útflutningsbann í lagi. Ætti ég aftur eftir að standa í útflutningsbanni og vildi hafa það fullkomið mundi ég kveðja mér til ráðuneytis 1. þm. Vestf.

Ekki veit ég hvort það hefur mikið gildi að vera að þjarka hér fram og aftur á því plani sem þessar umr. hafa verið á. Ég skal fúslega taka undir það, að aðgerðir eins og þessar eru býsna hættulegar. En þegar menn lýsa hér yfir að síðan vinstri stjórnin tók við hafi verið 32–36% kaupmáttarskerðing, síðan hafi komið þarna á móti 3% 1979 og síðan hafi komið þarna 10% undir lok ársins 1980, er náttúrlega um að ræða fráleitar tölur. Sannleikurinn er sá, að menn geta leikið sér nokkuð mikið með tölur. En ég hef hér kaupmáttartölur hvers mánaðar síðan 1971. Það er ákaflega auðvelt að gera sér grein fyrir þeim vegna þess hvað hlaupið er mikið á milli ársfjórðunga og milli mánaða, en ég var að þræða mig áfram í þessu.

1978, þegar vísitalan er sett á að fullu, er kaupmáttur samkv. tímakaupi 118.8, en í des. 1980 er hann 113.9 eða 114. Eftir því sem mér er sagt — og er vissara að vera ekki að slá föstum hér afgerandi tölum — er þarna sennilega um að ræða kaupmáttarrýrnun upp á u. þ. b. 4.9 stig, sem mundi gera um 4.1%. Svo má deila ákaflega um hvað miðað er við, hvort sú vísitala, sem miðað er við, sé sú rétta, en hitt er ekki vafi, að kaup hefur rýrnað um milli 4 og 6 stig á þessum tíma. Þetta er sér í lagi á árinu 1980. Ég miða hér við kaupmátt verkamanna, sem er að vísu heldur hærri vegna tveggja stiga hækkunar sem Verkamannasambandið fékk sérstaklega á árinu 1979, skerðingarákvæði bitnuðu ekki á því, en þá er engu að síður kaupmátturinn um 114 stig. Hv. 1. þm. Vestf. finnst þetta alger óhæfa, en kaupmátturinn í febrúar 1978 var 109 stig og þá taldi þessi hv. þm. ekki eftir sér að skera allar vísitölubætur niður um helming. Þetta tal í mönnum er því ekki trúverðugt. Að vísu skal ég viðurkenna að jafnmálsnjöllum manni og hv. 1. þm. Vestf. tókst ákaflega illa að útfæra „leiftursóknina“. Ég held að hann hafi aldrei dansað þar fullkomlega með. Þarna voru aldeilis 7 sinnum 7%. Þarna fylgir ekki nokkur hugur máli, — eða á hverju strandaði helst myndun ríkisstj. eftir kosningar? Hún strandaði helst á því, að það voru uppi harðar kröfur frá Sjálfstfl. og því miður að nokkru leyti Alþfl. um að skerða mjög verulega vísitölu á kaup. Það var á þessu fyrst og fremst sem strandaði. Og að koma síðan hér, berja sér á brjóst og hneykslast niður í tær á þessum vinnubrögðum er fráleitt.

Ég læt það alveg ósagt og það er best að vera ekki með neinar fullyrðingar um að það takist að halda þeim kaupmætti sem við bjuggum við, einhvers staðar í kringum 114 eða svo. Þetta kemur að vísu með ákvæðum sem ég hef nefnt, en það verður að hafa vel í huga, að til þess að ráða við verðbólgu er ekki lækkun á kaupgjaldi einhver sérstök einhæf aðgerð sem leysir vandann. Það er öðru nær. Er skemmst að minnast að eftir að hv. 1. þm. Vestf. hafði komið þessu áhugamáli sínu fram í febr. 1978 og vísitala var skert um helming óð verðbólgan áfram. Hitt geri ég mér fullkomlega ljóst, að verkalýðssamtökin þurfa að halda mjög vöku sinni. Þau þurfa að veita ríkisstj. aðhald og þau eiga að starfa með ríkisstj. að öllum góðum málum, eins og t. d. þeim skattalækkunum sem var verið að álasa okkur fyrir, eins og t. d. að þeim hækkunum á tekjutryggingu sem var verið að álast okkur fyrir. En fyrst og síðast verður að leggja sig fram í því með margþættum ráðum — og um það hygg ég að sé býsna góð samstaða í ríkisstj. — að tryggja að lægstu laun og lægri laun, manna sem hafa innan við eða um 4000 kr. á mánuði, stígi upp á við. Að því munum við stuðningsmenn ríkisstj. stefna.

Mín vegna mega hv. þm. hefja umr. Mér skilst að hér hafi verið samkomulag um afgreiðslu málsins. Ef menn vilja ekki viðurkenna það, þá þeir um það. En þó þeir berjist hér um á hæl og hnakka trúir þeim ekki nokkur maður. Þessir menn stóðu að því að svipta launamenn helmingi vísitölubóta og ætluðu sér meira. Þeir ætluðu sér líka með heimildarákvæði að taka alla óbeina skatta og tolla út úr vísitölunni þannig að það væri hægt að spila á hana eins og píanó.

Ekki þarf ég að verja varaforseta Alþýðusambands Íslands, en ansi finnast mér kaldar kveðjurnar hjá flokksbróður hans hv. þm. Halldóri Blöndal, í garð þessa ágæta manns sem er kjörinn varaforseti Alþýðusambandsins með rösklega 2/3 atkvæða. Ég efast um að í nokkurri stofnun, nema þá einhvers staðar í innri hringum Sjálfstfl., fengi Halldór Blöndal 2/3 atkv.

Ég gæti þrætt söguna, bæði kaupmátt lið fyrir lið, skatta og tryggingabætur. Ég held að aðgerðir núv. ríkisstj. séu á öllum sviðum allt aðrar og ólíkt óhagstæðari launþegum en þegar hv. 1. þm. Vestf. var ráðh. Við skulum engu slá föstu. Við skulum halda vöku okkar. Við erum á því að 70–80% verðbólga mundi ekki laga til fyrir þeim lægst launuðu. Verkafólk hefur jafnan verið tilbúið í baráttu við verðbólguna. Standi ríkisstj. sig í því að vernda kaupmátt þessa fólks á hún vísan stuðning almenns láglaunafólks í landinu — og hvorki Halldór Blöndal né Matthías Bjarnason gætu þá talað fyrir þess hönd.