03.03.1981
Sameinað þing: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2646 í B-deild Alþingistíðinda. (2781)

219. mál, snjómokstursreglur á þjóðvegum

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 432 fyrirspurn til hæstv. samgrh. um snjómokstursreglur á þjóðvegum, ásamt hv. þm. Halldóri Blöndal. Fyrirspurnin er svohljóðandi:

„Hverjar voru veigamestu breytingar á snjómokstursreglum á þjóðvegum sem gerðar voru í okt. s. l.? Hver eru rökin fyrir því, að þörf sé að ryðja snjó af veginum um Ólafsvíkurenni og Óshlíð milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar alla virka daga, en einungis einn dag í viku um Ólafsfjarðarmúla?“

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að vetrarsamgöngur eru mjög stopular um Ólafsfjarðarmúla, og þar er um að ræða þá einu leið sem menn geta komist á landi milli byggðarlaga ef menn þurfa að fara til annarra staða. Það hefur tengi verið erfitt að eiga við þennan veg sökum snjóþyngsla, og heimamenn hafa verið óhressir yfir því, að þeim finnst þeir ekki sitja við sama borð, ekki fá sömu þjónustu af hálfu samfélagsins og aðrir til þess að komast leiðar sinnar á vetrum. Er þó enginn að fara fram á neina feiknalega fyrirgreiðslu í þessum efnum, t. d. að veginum sé haldið opnum alla vikuna eins og víða er gert, heldur að þarna verði komið til móts við heimamenn um aukna þjónustu. Skylt er að geta þess, að það hafa verið núna í seinni tíð sveigjanlegri reglur að því leyti, að heimamenn hafa haft nokkur áhrif á það, hvaða dagur í viku er valinn til þess að ryðja snjó af þessum vegi, og það hefur orðið til þess að snjómoksturinn hefur stundum nýst miklu betur. Og þetta hefur dregið úr sárustu óánægjunni með framkvæmd þessara mála í Ólafsfirði. En það er síður en svo að þarna sé að mati sanngjarnra manna gengið nægjanlega langt til móts við heimamenn. T. d. hafa þeir þráfaldlega óskað eftir því að hafa tiltæk snjómoksturstæki í Ólafsfjarðarkaupstað, þannig að þeir geti sjálfir gripið til þeirra, t. d. snjóblásara, en margir eru þeirrar skoðunar að snjóblásari sé á þessum stað heppilegasta tækið. En þrátt fyrir að Vegagerð ríkisins á Akureyri hefur átt snjóblásara í nokkur ár og suma vetur geymt þetta tæki svo til einvörðungu á Akureyri og ekki notað, þá hefur þetta sanngirnismál ekki náð fram að ganga, að þeir fái einu sinni að reyna hvort ekki væri lausn fólgin í því að hafa slíkt tæki á Ólafsfirði og nota það og fá þá að ryðja snjó af veginum tvisvar í viku á þann hátt.

Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. svari þessum spurningum jákvætt.