03.03.1981
Sameinað þing: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2647 í B-deild Alþingistíðinda. (2782)

219. mál, snjómokstursreglur á þjóðvegum

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Mig undrar ekki að spurt er um snjómokstursreglur. Þeir eru ákaflega margir sem telja sinn hlut þar of lítinn og það er mjög skiljanlegt. Þetta eru viðkvæm mál, og eins og hv. fyrirspyrjandi sagði vilja menn gjarnan geta komist sinna ferða. Að sjálfsögðu takmarkast snjómokstur af því fjármagni sem er til ráðstöfunar, og ég vil upplýsa það í upphafi míns máls, að á síðasta ári fór snjómokstur um það bil 200 millj. gkr. fram úr áætlun, þrátt fyrir það að mjög snjólétt var framan af árinu. Engu að síður vildi ég reyna að auka nokkuð snjómokstur og bað Vegagerðina um tillögur í því skyni. Mun ég fara yfir þær og er það svar við fyrri mgr. í fsp. hv. þm.

Nokkrar breytingar voru gerðar á snjómokstursreglum í okt. s. l. Þessar breytingar, sem allar voru til rýmkunar á reglunum, áttu sér almennt þær forsendur, að breytingar hefðu orðið á vegakerfinu á viðkomandi svæði eða ástandi vega, þannig að aukin vetrarþjónusta væri eðlileg og framkvæmanleg, bæði tæknilega og fjárhagslega. Þá var í nokkrum tilvikum um að ræða breytingar á samgöngum og samgönguþörf og var þá gjarnan um að ræða atriði eins og nýtingu á hafnaraðstöðu, flugvöllum, heilbrigðisþjónustu, skólakerfi og fleira þess háttar.

Mun ég nú telja þær helstu breytingar sem urðu, þótt þær yrðu að vísu nokkuð mismunandi á einstökum vegum.

1. Á Þorlákshafnarvegi aukinn snjómokstur til samræmis við ferðir Herjólfs.

2. Á Vesturlandsvegi í Borgarfirði vegna opnunar vegar yfir Borgarfjörð.

3. Á Útnesvegi milli Ólafsvíkur og Hellissands vegna hafnaraðstöðu, flugvallar og samvinnu í fiskiðnaði.

4. Á Bíldudalsvegi milli Patreksfjarðar og Bíldudals vegna samvinnu í fiskiðnaði og hafnaraðstöðu, flutninga Ríkisskips og þess háttar.

5. Á Djúpvegi milli Súðavíkur og Bolungarvíkur vegna hafnaraðstöðu, flugvallar og skólakerfis.

6. Á Norðausturvegi milli Húsavíkur og Raufarhafnar, svo og um Hálsa, tengt endurbyggingu vegar um Melrakkasléttu.

7. Á Norðfjarðarvegi milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar í framhaldi af endurbótum á vegi og vegna samvinnu í fiskiðnaði.

8. Á Austurlandsvegi milli Breiðdalsvíkur og Hornafjarðar tengt nýjum vegi fyrir Hvalnesskriður.

Auk breytinga á einstökum vegum voru rýmkuð heimildarákvæði um opnun þeirra vega sem fyrirvari er á um opnun vegna snjóþyngsla eða veðráttu. Heimilt var að tvöfalda opnunartíðni þessara vega vor og haust meðan snjólétt er, en nú er þessi heimild ekki lengur bundin við vor og haust, heldur eingöngu háð snjóþyngslum. Eða m. ö. o., það er heimilt að opna tvisvar eins lengi og snjóþyngsli gera það kleift með viðunandi eða viðráðanlegum kostnaði. Meðal þessara vega er að finna flesta snjóþyngstu vegarkafla landsins. Má þar nefna Breiðadalsheiði, Ólafsfjarðarmúla, Fjarðarheiði og Oddsskarð. Með þeim snjómokstrarákvæðum, sem gilda og gilt hafa um þessa vegarkafla og aðra álíka, er í raun verið að setja takmark á það fjármagn sem verja má til vetrarþjónustu á einstökum vegum og vegarköflum.

Um allar þær breytingar, sem gerðar voru á snjómokstursreglum, lágu fyrir umsóknir frá heimaaðilum og raunar um miklu fleiri vegi og víðtækari rýmkanir, sem ekki þótti fært að verða við á þessu stigi af fjárhagsástæðum, eins og ég gat um í upphafi míns máls.

Þá er í öðru lagi spurt sérstaklega um Ólafsvíkurenni og Óshlíð annars vegar og Ólafsfjarðarmúta hins vegar. Ég hef hér svar frá Vegagerðinni við þessari spurningu og vil lesa það með leyfi forseta:

„Snjómokstursreglur þær, sem gilda á þjóðvegakerfi landsins, taka annars vegar mið af þörfum fyrir samgöngur og hins vegar þeim takmörkunum sem veðurfar, ástand vega og aðrar aðstæður setja á vetrarþjónustu. Í flestum tilvikum má segja að umræddar takmarkanir komi að lokum fram sem fjárhagslegar takmarkanir, þannig að kostnaður við að leysa þær þarfir sé það atriði sem ráði úrslitum. Ef bera á saman einstaka staði er því nærtækast að líta á þessi tvö atriði. Þörf fyrir samgöngur speglast í umferð, ef um sambærilega þjónustu er að ræða á þeim vegum sem bornir eru saman. Sé litið á umferð þeirra vega, sem fsp. tilgreinir, þ. e. Ólafsvíkurenni og Óshlíð og Ólafsfjarðarmúla, var hún sem hér segir árið 1979:

Sumarumferð Bílar á dag

Ólafsvíkurenni ............................. 436

Óshlíð .................................... 406

Ólafsfjarðarmúll ........................... 253

Ársumferð

Ólafsvíkurenni ............................. 309

Óshlíð .................................... 275

Ólafsfjarðarmúli ........................... 186

Sumarumferð er hér talin mánuðina júní-sept. Eins og sést á þessum tölum er umferð greinilega minni um Ólafsfjarðarmúla en hina vegina tvo, og er sá munur öllu meiri á sumarumferð en ársumferð, þó að minni vetrarþjónusta í Ólafsfjarðarmúla ætti að leiða til hins gagnstæða. Sé hugað að skýringum á þessum hlutfallslega mikla mun á umferð koma fyrst til álita atriði eins og aðgangur að flugvelli, en Ólafsvík og Bolungarvík sækja á flugvöll um tvo fyrstnefndu vegina. Þá er hafnaraðstaða ekki fullkomin á þessum stöðum þannig að vöruflutningar fara í nokkrum mæli a. m. k. um viðkomandi vegi. Til Ólafsfjarðar gengur flóabátur og uppskipun fer fram um eigin höfn. Þar er nú einnig kominn flugvöllur með föstum áætlunarferðum. Vegalengdin milli þéttbýlisstaða um tvo fyrrnefnda vegi er mun styttri en milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur og hvetur það að sjálfsögðu til samskipta á mörgum sviðum, svo sem í atvinnulífi, skólagöngu og fleiru.

Sé litið á kostnaðarhliðina kemur í ljós að Ólafsfjarðarmúli er fjárfrekastur þessara vega í vetrarviðhaldi. Árin 1977–1979 var að meðaltali varið 47 millj. gkr. hvert ár til vetrarviðhalds í Ólafsfjarðarmúla á verðlagi ágúst 1980. Sambærilegar tölur fyrir hina vegina tvo eru 9 millj. kr. í (Ólafsvíkurenni og 16 millj. kr. í Óshlíð. Raunar má segja að Ólafsfjarðarmúli sé í hópi erfiðustu vega landsins í þessu tilliti. Meðal þessara vega má t. d. nefna Breiðadalsheiði, Fjarðarheiði og Oddsskarð, en á þessum vegum öllum gilda sömu reglur hvað snjómokstur varðar. Stærð byggðarlaga, sem um þessa vegi sækja, er einnig svipuð.“

Hér hefur verið drepið á nokkur helstu atriðin, sem hafa ber í huga og höfð eru í huga þegar snjómokstursreglur eru ákveðnar. Ég sagði í upphafi míns máls að kostnaður við snjómokstur hefði farið töluvert fram úr áætlun á síðasta ár, og lítur satt að segja ekki vel út á þessu. Til fróðleiks vil ég geta þess, að meðaltalskostnaður í hinum ýmsu kjördæmum við snjómokstur frá 1976–1979 var eins og hér segir á verðlagi 1980: Suðurland 130 millj. kr., Reykjanes 185.8, Vesturland 215, Vestfirðir 356, Norðurland vestra 134, Norðurland eystra 283.7 millj. kr. og Austfirðir 401.9 millj. kr.

Ég vona að mér hafi tekist að svara þessari fsp. og vil endurtaka að lokum að víða er beðið um meiri snjómokstur, t. d. ekki síst úr ýmsum sveitum landsins sem í vaxandi mæli þurfa að senda nemendur til skóla í þéttbýli. Ekki hefur þó verið talið fært að taka upp snjómokstur á slíkum leiðum. Það mundi þýða að snjómokstur yrði að taka upp á líklega um 20–30 slíkum dreifbýlisleiðum víðs vegar um landið. Því miður er fjármagn ekki svo mikið að unnt sé að ráða við það. Vel má vera að auka eigi fjármagn til snjómoksturs, en þó hygg ég að skynsamlegasta leiðin sé að vinna jafnt og þétt að því að koma, eins og sagt er, vegum upp úr snjó og létta þannig á snjómokstri.