03.03.1981
Sameinað þing: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2649 í B-deild Alþingistíðinda. (2783)

219. mál, snjómokstursreglur á þjóðvegum

Helgi Seljan:

Herra forseti. Það er full ástæða til þess að fagna þeim rýmkunum sem urðu varðandi snjómokstursreglur á s. l. hausti. Ég sé ástæðu til þess varðandi okkur á Austurlandi. Við fögnum því sannarlega að þar var rýmkað nokkuð til, bæði varðandi Fjarðarheiði og Oddsskarð og eins hið sjálfsagða mál milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar. Við viljum þó ekki láta hjá líða að benda á þá undarlegu eyðu sem er í okkar vegakerfi eystra varðandi snjómokstur, á leiðinni Breiðdalsvík-Djúpivogur. Það er eyða sem við eigum ákaflega erfitt með að sætta okkur við, að þar sé fært allt í kring, en síðan sé sá tiltölulega stutti kafli ófær heilu vikuna — eða heilu vikurnar jafnvel eins og verið hefur nú í vetur.

En ég kom hér aðallega í ræðustól til að leiðrétta ákveðinn misskilning sem ég hef séð að hefur verið ítrekaður nú að undanförnu og ég held að sé örugglega kominn frá opinberum aðilum, þ. e. að þessar snjómokstursreglur séu settar í samráði við þm. hvers kjördæmis. Ég hef lesið þetta einhvers staðar á prenti og ég hef heyrt þetta í fjölmiðlum. Ég vil aðeins leiðrétta þetta. Þetta er ekki rétt. Það hefur vissulega verið rýmkað til og vissulega eru ákveðnar reglur til um það hvernig með skuli fara. Starfsmenn Vegagerðarinnar hafa sannarlega oft tekið vel ýmsum málaleitunum okkar þm. Hins vegar eru það auðvitað rn. og Vegagerð ríkisins sem setja um þetta ákveðnar endanlegar reglur. Eflaust er um eitthvað haft samráð við þm. hvers byggðarlags, en ég veit það með okkur Austurlandsþingmenn, að varðandi þær reglur, sem settar voru núna síðast, var ekki haft samráð við okkur. Við erum þessu þó, held ég, að þeim ráðamönnum Vegagerðarinnar ólöstuðum, allra manna kunnugastir og verðum einnig að svara fyrir það heima í héraði sem mönnum þykir þar ábótavant. Því vil ég að þessari leiðréttingu sé hér komið á framfæri.