04.11.1980
Sameinað þing: 13. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í B-deild Alþingistíðinda. (279)

46. mál, breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég hef í raun og veru engu við það að bæta sem ég hef áður sagt varðandi spurningu hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar. Ég mun hafa svarað henni á þá leið, að af mörgum ástæðum sé ekki mögulegt að hætta við þá fyrirætlan að gera á gjaldmiðilsbreytingu um n.k. áramót.

Ég get viðurkennt það, og raunar þarf ekkert að viðurkenna, það blasir við öllum hv. þm. og allri þjóðinni, að gera verður efnahagsráðstafanir, vegna þess að það er alveg sama hvernig menn velta málum fyrir sér, eins og nú er komið, eftir að verulegar grunnkaupshækkanir hafa verið gerðar í samningum, að verðbólguþróunin verður slík að það er óhugsandi annað en að gera efnahagsráðstafanir. Það tókst á þessu ári að halda atvinnulífinu gangandi. Ég vil segja að það hafi raunverulega hangið á bláþræði með suma þætti atvinnulífsins, eins og t.d. frystiiðnaðinn, útflutningsiðnaðinn og fleiri greinar. Ég hef ekki trú á að auðvelt verði að halda atvinnulífinu í landinu gangandi nema það verði gerðar ráðstafanir í efnahagsmálum til að bremsa niður verðbólguna. Þannig er ég alveg sammála hv. þm., sem hér hafa tekið til máls, um þetta atriði.

Til þess að svara spurningu hv. þm. Matthíasar Á. Mathiesens vil ég aðeins segja það, að ríkisstj. mun að sjálfsögðu leggja sín mál fyrir Alþ. þegar hún leggur fram till. sínar um aðgerðir í efnahagsmálum. Um það þarf ekkert að efast. Ég ætla ekki að fara að tiltaka neinar ákveðnar dagsetningar við þetta tækifæri, en hv. þm. getur alveg treyst því, að ríkisstj. mun leggja fyrir Alþ. till. sínar um aðgerðir í efnahagsmálum, sem eru nauðsynlegar og geta að mínu mati ekki beðið lengi.