03.03.1981
Sameinað þing: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2656 í B-deild Alþingistíðinda. (2794)

400. mál, lánskjör Fiskveiðasjóðs

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir ítarleg svör við þessum fsp. Það kom glöggt fram í svari hans, að þarna er um að ræða nokkuð misjöfn lánskjör síðustu árin og að þeir, sem tóku lán árin 1978 og 1979, búa við verri lánskjör en flestir aðrir sem hafa fengið skipalán hjá Fiskveiðasjóði.

Ég vil sérstaklega fagna því, að hæstv. ráðh. hefur rætt þetta mál við stjórn Fiskveiðasjóðs, og eins og mér heyrðist á máli hans er í athugun hvort ekki sé hægt að lagfæra þetta. Ég vil sérstaklega leggja áherslu á að það verði gert og þeirri athugun verði hraðað.

Um önnur atriði, sem komu fram í svari hæstv. ráðh., er ekki ástæða til að fjölyrða að sinni, að öðru leyti en því að það er að sjálfsögðu rétt, sem fram kom hjá honum, að Fiskveiðasjóður á og þarf að lána til skipakaupa og skipasmíða með þeim kjörum sem hann fær sína peninga á. En það er að sjálfsögðu mikið áhyggjuefni, að ný skip, bæði þau sem eru keypt erlendis frá og smíðuð innanlands, eiga í mjög miklum erfiðleikum við núverandi aðstæður að standa í skilum eins og menn vita. En það er önnur saga.

Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin og vænti þess, að viðleitni hans til að jafna þessi lánskjör verði árangursrík.