03.03.1981
Sameinað þing: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2657 í B-deild Alþingistíðinda. (2796)

383. mál, símamál

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Þar sem mál þetta hefur nú verið alllengi á döfinni óskaði ég eftir grg. frá Pósti og síma og hef fengið þá grg. bæði frá forstjóra stofnunarinnar og nokkrar ítarlegri upplýsingar frá verkfræðingi. Ég ætla að leyfa mér að lesa bréf frá forstjóra stofnunarinnar, með leyfi forseta, og bæti þá inn í nokkrum upplýsingum frá eigin brjósti í þessu sambandi. Í fyrrnefndu bréfi segir:

„Með tilvísun til bréfs samgrn., dags. 25. febr. 1981, með fsp. á þskj. 463 varðandi skrefatalningu símtala skal eftirfarandi upplýst:

Það er af augljósum ástæðum að mínu mati,“ segir forstjórinn, „að margir eða flestir fyrrv. hæstv. samgrh. frá 1971 höfðu áhuga á að mæla símtöl innanbæjar með hliðstæðum hætti og á sér stað í landssímakerfinu. Hin sameiginlega fjárhagsbyrði símakerfisins dreifðist með þeim hætti réttlátast hvarvetna á landinu. Í þessu sambandi má á það benda, að norska Stórþingið samþykkti samhljóða að gera sams konar gjaldskrárbreytingu í maí 1973, og höfuðmarkmiðið var sama og hér, að jafna símgjöldin í „ulike deler af landet“, segir hér í bréfinu.

Ég vil jafnframt geta þess til viðbótar, að samkv, þeim upplýsingum, sem ég hef, tóku Norðmenn þetta upp 1975, Vestur-Þjóðverjar tóku þetta upp 1980 og Svíar hafa ákveðið að taka upp skrefatalningu 1982. Frakkar hafa ákveðið að taka upp skrefatalningu í höfuðborg sinni París, þó að það hafi ekki verið tímasett.

Ég vil einnig upplýsa að í svokallaðri byggðanefnd, sem starfaði hér um árið, var þetta mjög mikið rætt, enda kom í ljós í úttekt, sem gerð var á kostnaði landsmanna eftir byggðarlögum, að símakostnaður var, ef ég man rétt um 50% hærri í dreifbýlinu heldur en á þéttbýlissvæðinu hér. Því flutti sú nefnd tillögu þar sem lögð var áhersla á að jafnaður yrði kostnaður milli þéttbýlis og dreifbýlis. Á löngum fundum og mörgum, sem þá voru haldnir með póst- og símamálastjóra og fleiri tæknimönnum, kom í ljós að þetta mætti heita nánast ógerlegt án þess að taka upp talningu.

Ég tes síðan áfram, með leyfi forseta:

„1. Þau kerfi, sem í boði eru við fyrstu athugun, þóttu of kostnaðarsöm, og það liðu nokkur ár áður en hægt var að leggja fyrir rn. áætlun um búnað sem hentaði að þessu leyti og á viðráðanlegu verði. Samkvæmt framansögðu er ljóst að margir ráðherrar hafa komið hér við sögu. En það er í ráðherratíð Ragnars Arnalds sem samgrn. ákveður kaup tækja til tímamælinga á innanbæjarsímtölum. Og fyrir hinn almenna notanda var það talið betri kostur en nefskattur, sem nokkuð mun hafa verið um rætt.

2. Fyrirhugað er að teljarabúnaður fyrir innanbæjartalningu verði á öllum símstöðvum landsins og uppsetningu mun verða lokið í júlí n. k.

3. Hin breytta gjaldskrá miðast við að meiri jöfnuður náist hvarvetna á landinu.“

Þessi gjaldskrá er ekki enn þá komin til mín, en það munu verða tilbúnar tillögur um hana fljótlega. Ég get því ekki á þessu stigi sagt nákvæmlega hvert gjaldið verður. Að sjálfsögðu er með þessu leitast við að jafna símakostnað dreifbýlis og þéttbýlis, ekki að auka tekjur stofnunarinnar, og er vert að hafa það í huga þegar um gjaldskrána er rætt.

4. „Þegar velja á einhverja réttláta skrefalengd ber að hafa í huga meðalsímtalalengd, en um þessar mundir hefur hún mælst um 2.6 mínútur. Þá tel ég,“ segir forstjórinn, „að þessi skrefalengd eigi að vera minnst tvöföld meðalsímtalalengd, eða sex mínútur eða átta mínútur, svo dæmi sé nefnt.“

Þetta hefur hann lagt til við mig. Ákvörðun um það hefur ekki verið tekin, en mér sýnist þetta út af fyrir sig skynsamleg tillaga. Síðan segir:

„Svíar munu taka upp sex mínútna skrefalengd, Þjóðverjar nota átta mínútna skrefalengd, en flest önnur lönd nota skemmri skref innanbæjar, svo sem þrjár mínútur. Umrædda skrefatalningu má láta fylgja dagtaxtatímabilinu, sem er frá klukkan átta að morgni til klukkan 19 mánudaga til föstudaga, og á laugardögum frá klukkan 8 –15. Utan þessa tíma má taka tímamælinguna af svo og alla sunnudaga.“

Og ég vil geta þess, að ég hef þegar samþykkt að þessi háttur verði á hafður. Verður þá ekki um skrefamælingu að ræða eftir klukkan 7 mánudaga til föstudaga og ekki um helgar eftir klukkan 3 á laugardögum.

„Í þessu sambandi,“ segir enn fremur, „er rétt að benda á að nú færist óðfluga í vöxt að flytja eftir símaleiðum innanbæjar boð milli tölvustöðva, og þess háttar sambönd eða leiðir er nú orðið auðvelt að velja í sjálfvirka símakerfinu. En sambönd eins og hér um ræðir eru allt annars eðlis en venjuleg símtöl manna á milli. Þau geta staðið yfir svo tímunum skiptir hverju sinni og þar af leiðandi mjög eðlilegt að gjaldfæra þau samkvæmt hinum fyrirhuguðu gjaldskrám. Enn fremur er ógerningur fyrir stofnunina að vita hvaða aðilar taka tölvur í símaþjónustu og of mikil og óeðlileg hnýsni í einkahagi verður að telja að grennslast eftir slíku,“ segir forstjórinn.

Ég vil jafnframt geta þess, að í því bréfi verkfræðings, sem fylgir með, ræðir hann allítarlega einmitt um þetta og kveður ekki óalgengt að tölva sé með síma innanbæjar í notkun allan daginn og greiðir þá að sjálfsögðu ekki nema eitt skref. Þetta íþyngir kerfinu að sjálfsögðu ákaflega mikið og veldur truflunum og erfiðleikum fyrir aðra að nota símann eins og til er ætlast. Mér er jafnframt tjáð að þau tilfelli séu mörg að símalína er upptekin þannig allan daginn, en aðeins notuð lítinn hluta úr degi, þar sem að sjálfsögðu kostar minna að velja númer og halda línunni allan daginn heldur en að velja númer oftar.

Síðan segir forstjóri: „Skrefagjaldið mætti hugsanlega færa niður í 33–34 aura frá því sem nú er, 35 aurar, auk hækkunar sem kemur á leiðirnar, sem nú reiknast á 8, 10 og 12 sekúndur, en þær færu í 10, 12 og 15 sekúndur.“ En eins og ég sagði áðan hefur endanleg ákvörðun ekki verið tekin um gjaldskrána.

„5. Elli- og örorkulífeyrisþegar eru nú undanþegnir að greiða ársfjórðungsgjöldin, og hugsanlega mætti láta þá alla sitja við sama borð og njóta 600 frískrefa á ársfjórðungi, en nú hafa notendur á höfuðborgarsvæðinu aðeins 300 skref innifalin í ársfjórðungsgjaldinu.

Varðandi fsp. um mismun á kostnaði við skrefatalningu í dreifbýli og á höfuðborgarsvæðinu er erfitt að gefa nákvæma tölu, en allt bendir til þess að þetta sé hlutfallslega mjög svipað.“

Í ítarlegri grg. verkfræðings kemur margt fróðlegt fram og ætla ég, með leyfi forseta, að lesa hér aðeins stuttan kafla.

Verkfræðingurinn upplýsir að Pósti og síma hafi borist kvartanir af þéttbýlissvæðinu, en engar utan af landsbyggðinni, og segir: „Samtök sveitarfélaga hafa þvert á móti lýst yfir ánægju sinni með framkvæmdina. Þeir einu, sem kvarta, eru þeir sem búa í Reykjavík og nágrenni. En þeir, sem á því svæði búa, hafa líka hingað til haft geysihagstæðar aðstæður í símamálum samanborið við aðra landsmenn. Þrátt fyrir stærð svæðisins hafa allar símstöðvar í Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi, Reykjavík og Mosfellssveit verið samtengdar eins og um eina símstöð væri að ræða og bæjarsímtalagjald látið gilda fyrir allt svæðið eins og um einn bæ væri að ræða, þ. e. ein talning fyrir hvert símtal innan svæðisins óháð tímalengd símtalsins. Á þessu svæði eru tveir þriðju hlutar allra uppsettra símanúmera á Íslandi. Á þessu svæði er öll stjórnsýsla landsins og aðalstöðvar nær allra stærstu fyrirtækja og þjónustustofnana landsins. Notendur þessa svæðis hafa haft þau réttindi fram yfir dreifbýlisnotendur að geta hringt í svo mörg númer og aðila á bæjargjaldi.“

Og síðar segir: „Á þessu svæði eru símstöðvar á sex mismunandi stöðum, og eru þessar símstöðvar allar samtengdar með miklum fjölda millistöðvalína. Þetta gerir símakerfi þessa svæðis hlutfallslega dýrara en nokkuð tilsvarandi símakerfi í dreifbýlinu, og er því eðlilegt að jafna að einhverju leyti símakostnað dreifbýlisins og þessa svæðis.“

Síðar segir: „Sumir hafa kvartað yfir því, að þegar þeir hringi í ýmsar stofnanir og fyrirtæki og biðji um samband við einhverja ákveðna persónu, þá séu þeir látnir bíða lengi, og á því muni þeir ekki hafa ráð þegar tímamæling bæjarsímtala verði komin á. Eflaust er mörgum fyrirtækjum nauðsynlegt,“ segir hér, „að bæta símakerfi sín þannig að slíkur biðtími komi helst ekki fyrir. Með þeirri löngu skrefalengd, sem fyrirhuguð er, ætti þessi biðtími ekki að verða verulegur kostnaðarauki. Einnig má benda þeim á það, sem þessu halda fram, að hingað til hefur dreifbýlið hringt í þessi fyrirtæki og tekið á sig þessa bið með skrefalengd sem er 8–12 sekúndur, í stað 6 mínútna eða 8 mínútna sem hér er verið að tala um.“ — Og ég gæti gjarnan bætt því við, að að sjálfsögðu hefur þéttbýlisbúinn tækifæri til að fara til þessara opinberu stofnana og ná þannig tali af mönnum, sem dreifibýlismaðurinn hefur að sjálfsögðu ekki sama tækifæri til.

Undir þessa grg. verkfræðingsins skrifar Þorvarður Jónsson yfirverkfræðingur hjá Póst- og símamálastofnun.