03.03.1981
Sameinað þing: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2660 í B-deild Alþingistíðinda. (2797)

383. mál, símamál

Helgi Seljan:

Herra forseti. Í þessum málum öllum held ég að okkur sé hollast að hafa það í huga, að það markmið, sem við stefnum að, er fullur jöfnuður í símamálum landsins alls. Þar á ég ekki við aðeins hvað kostnað snertir, heldur ekki síður hvað þjónustu snertir. Við vitum að hér eigum við langt í land. Við vitum að landsbyggðin býr hér við mjög skertan hlut, ekki bara hvað þjónustu snertir, heldur ekki síður við stóraukinn kostnað, eins og gleggst kom fram í máli hæstv. ráðh. áðan.

Það er rétt, að þegar byggðanefndin vann að þessu máli á sínum tíma fékk hún greinargóðar upplýsingar um kostnað manna af síma um landið. Og það fór ekki á milli mála þá og kom engum á óvart, hversu Reykjavík stóð þar best að vígi. Og þetta hef ég svo sannarlega sannreynt eftir að ég fór að vera hér langdvölum. Ein af þeim tillögum, sem við fengum þá, var skrefatalning á innanbæjarsímtölum sem leið til þessarar jöfnunar. Ég var strax á því, að þessi skrefatalning væri sjálfsögð. Og mér skilst á máli hæstv. ráðh. að sú skrefatalning, sem hér er um að ræða, sé það rúm að vart sé unnt að segja, eins og jafnvel er rætt um, að hér verði um að ræða einangrun og innilokun þess fólks sem lítt kemst út, t. d. elli- og örorkulífeyrisþega.

Ég vil hins vegar ekki draga úr því, að það eigi að veita elli- og örorkulífeyrisþegum ákveðna rýmkun eða það fyrirkomulag, sem hæstv. ráðh. ræddi um áðan, og það verði athugað vandlega, því svo sannarlega eru þeir ekki ofhaldnir af sínum kjörum almennt.

En hitt vil ég leggja áherslu á, að hversu hátt sem menn hafa um þetta mál, — og ég skil það vel, að enginn vill auka við sínar byrðar, jafnvel þó í jafnaðarátt sé fyrir heildina, það er sama hver er, — þá hljótum við sem þm. hér fyrst og fremst að miða við það, að sem mestur jöfnuður náist hjá öllum íbúum landsins, bæði hvað snertir þjónustu og kostnað. Þessi leið hefur verið farin annars staðar með góðum árangri til jöfnunar og ég tel hana því ekki síður sjálfsagða hér.