03.03.1981
Sameinað þing: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2663 í B-deild Alþingistíðinda. (2801)

383. mál, símamál

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það hefur verið ákaflega fróðlegt að hlusta á umr. um þetta mál. Viðhorf manna um það, hvernig opinber stofnun eigi að haga sinni gjaldskrá, virðist alfarið fara eftir búsetu og kjósendahræðslu jafnframt. Ég vil spyrja hæstv. ráðh. hvort það standi til að lengja skrefin í landssímasímtölum úr 8–12 sekúndum upp í kannske 2–3 mínútur, sem væri eðlilegt. Stendur til við þessa gjaldskrárbreytingu að breyta flokkunum þannig að þeir verði bara tveir, innanbæjarsímtöl og langlínusímtöl.

Hitt verður þó kannske skoplegast, þegar menn ætla að fara að hæla sér hér af sigrum og lýsa því yfir, að það hafi staðið til að leggja þetta aðeins á í Reykjavík. Það hefur aldrei staðið til. Það hefur ávallt verið gert ráð fyrir að tímamæla öll innanbæjarskref, hvar sem er á landinu. Þess vegna held ég að umr. um þetta einkennist allt of mikið, eins og ég sagði áðan, annars vegar af viðhorfum eftir því hvar menn búa og hins vegar af kjósendahræðslu.

En hitt vil ég undirstrika, að það er óverjandi að veita stofnun eins og Landssímanum einkaleyfi til þess að sjá um símaþjónustu í landinu og reka hana jafnilla og gert er úti um hinar breiðu byggðir landsins. Þar eru stórir hópar fólks sem ekki eiga þess kost að hringja til tæknis eða í slökkvilið eða í neyðartilfellum að ná sambandi við þá stjórnsýsluaðila sem þeim er ætlað að ná sambandi við. Það er hið mesta óréttlæti í þessum málum.