03.03.1981
Sameinað þing: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2667 í B-deild Alþingistíðinda. (2807)

383. mál, símamál

Fyrirspyrjandi (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. samgrh. fyrir þau svör sem hann gaf við þeirri fsp., sem hér er á dagskrá, og vekja jafnframt athygli á því, að þetta er í raun og veru í fyrsta sinn sem þetta mál, er rætt hefur verið manna á meðal í meira en ár bæði hér í Reykjavík og annars staðar, er raunverulega skýrt fyrir mönnum hér á Alþingi. Það vakti líka athygli í svari hæstv. ráðh. og sýnir þann mun sem er á því hvernig ríkisstjórnir á Íslandi og opinberar stofnanir á Íslandi umgangast Alþingi, þegar hann vitnaði í hvernig Norðmenn hefðu farið með þetta mál hjá sér. Hann sagði að sú gjaldkrárbreyting, sem fól í sér að taka upp skrefagjald, hefði verið samþykkt í norska Stórþinginu. Þannig hefði verið fullkomin ástæða til að taka þetta mál til umr. í hv. Alþingi áður en slík grundvallarbreyting var samþykkt, en ekki eftir, þegar engu verður breytt, eins og hér er verið að gera.

Sannleikurinn er nefnilega sá, að hvað sem menn segja um jöfnuð og réttlæti í þessu sambandi er þetta mjög umdeild ákvörðun — umdeild tæknileg ákvörðun. Ég hef t. d. hér í höndunum blaðagrein sem Guðmundur Ólafsson verkfræðingur skrifaði, en hann var mjög lengi starfsmaður Pósts og síma, sérfræðingur í símaverkfræði og hefur starfað sem ráðgjafi í símamálum nú um nokkurra ára skeið. Hann hefur fært mjög sannfærandi tæknileg rök gegn því, að þessi breyting sé tekin upp. Hann bendir á að þetta sé mjög dýr búnaður. Ég hef ekki tíma til að rekja ummæli hans hér, en hann bendir á geysilegan kostnað þessu samfara, hann bendir á að afkastageta símakerfisins á höfuðborgarsvæðinu sé það rúm, að hún sé nánast aldrei fullnýtt, og þess vegna sé það öfugt að farið að gera einhverjar aðgerðir sem minnki notkun kerfisins, og hann bendir á að mætingar á tímalengd símtala á Reykjavíkursvæði sýni að langflest þeirra séu tiltölulega stutt. Þannig séu um 40% símtala skemmri en ein mínúta, um 70% skemmri en 3 mínútur og aðeins um 15% símtala séu lengri en 6 mín. Og hverjir skyldu það vera sem að jafnaði eru í hópi þessara sem tala lengur en 6 mín., þeirra 15% sem nú eiga að taka á sig þennan dreifingarkostnað sem talað er um? Það er gamla fólkið í borginni, það eru elli- og örorkulífeyrisþegar sem nota síma fyrst og fremst í félagslegum tilgangi. Það eru ekki viðskiptaaðilar, þeir tala ekki löng símtöl. Það hefur að vísu verið talað um tölvur sem hægt er að tengja, en það er líka upplýst að það er til búnaður sem getur mælt þær sérstaklega þegar svo ber undir. Hér er því um tæknilega umdeilanlegt mál að ræða sem að sjálfsögðu hefði átt að taka ákvörðun um á Alþingi áður en ráðist var í jafnumfangsmiklar breytingar og nú stendur til að gera.

Það eru líka margs konar aðrar leiðir til þess að jafna símakostnað og það er fráleitt þegar einstakir þm. bæði í dreifbýll og í Reykjavík eru að reyna að koma því orði á okkur, að við séum að magna einhvern ríg á milli byggðarlaga. Ég er alveg sammála því, að það þarf að jafna símagjöld í vissum tilvikum. Ég nefni þó í því sambandi t. d. að við Reykvíkingar höfum haft þrjú skref á dag í innanbæjarsímtölum meðan t. d. Akureyringar hafa sex. Hvers eigum við að gjalda í þeim efnum? Og auðvitað hringja menn í báðar áttir, eins og fram kom hjá hv. 10. þm. Reykv. Friðrik Sophussyni, áðan. Þannig er margt í þessu máli sem ástæða hefði verið til að ræða. Og því fer fjarri að við séum hér að ástæðulausu að gera þetta grundvallaratriði í gjaldskráruppbyggingu Pósts og síma að einhverju stórmáli eða gera útfalda úr mýflugu, eins og getið var um. Ég held þó að þessar umr. — bæði hér og reyndar að undanförnu hjá ýmsum öðrum sem hafa gagnrýnt þetta — hafi orðið til þess, að úlfaldinn hafi fengið því áorkað að fyrir liggur ákvörðun sem ekki lá fyrir áður, að taka þetta upp um allt land samtímis. Það virðist vera ákvörðun nú að miða skrefalengd við 6–8 mín., sem ekki lá fyrir áður, og það virðist vera ákvörðun nú, sem ekki lá fyrir áður, að aldraðir og öryrkjar eigi að fá að njóta sérstakrar undanþágu í þessu efni, og því fagna ég. En það vil ég fullyrða, að það er fyrst og fremst vegna þess að það var ekki látið ganga þegjandi og hljóðalaust fyrir sig að þessari breytingu væri skáskotið í gegnum kerfið, eins og átti að gera með samvinnu ráðh. — ekki endilega núv. hæstv. samgrh., heldur forvera hans- og yfirmanna Pósts og síma. Við tókum þetta mál upp til opinberrar umræðu og þess vegna virðist nú von um að sú ákvörðun, sem endanlega verður tekin, ætli að vera a. m. k. sæmilega sanngjörn.