03.03.1981
Sameinað þing: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2668 í B-deild Alþingistíðinda. (2808)

383. mál, símamál

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Það hefur nokkuð verið talað um það, hvenær ákvörðun var tekin um að fleiri landshlutar en Reykjavíkursvæðið kæmu inn á talningu. Að fara að kaupa tæki og setja þau upp á Reykjavíkursvæðinu var samþykkt af ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar að tillögu þáv. samgönguráðh. Póst- og símamálastjóri kom til mín fljótlega eftir að ég tók við embætti samgrh. um tíma og spurði hvort ekki ætti að halda áfram áætlun um talningu í Reykjavík, og auðvitað játti ég því, enda var þá fyrir samþykkt um það. Þá spurði hann hvort ég væri ekki fylgjandi því líka að taka upp talningu úti á landi. Mér fannst það sjálfsagt þegar hitt lá fyrir, og hann skýrði fyrir mér búnaðinn til þess. Hvort búið var að taka formlega ákvörðun um það áður skal ég ekki segja um. Þetta var sem sagt haustið 1979.

Það hefur verið sagt að menn tali í báðar áttir. Vitanlega tala menn í báðar áttir. Sumir Reykvíkingar eiga foreldra úti á landi og öfugt. En Reykvíkingar geta talað við 60% þjóðarinnar án þess að það sé mælt. Og með svona hóflegri mælingu geta þeir talað í 6 eða kannske 10–12 mín. að jafnaði fyrir tvö skref. En hitt fólkið, sem þarf að tala utan af landi, það nær ekki nema til 1% þjóðarinnar sumt af því, sumt ekki nema 0.1% án þess að það sé tímamælt. Það er stóri munurinn. Reykvíkingar geta, eins og ég segi, talað við meiri hluta þjóðarinnar án skrefamælingar, en það geta ekki aðrir. Þar að auki eru margar stöðvar hér á Reykjavíkursvæðinu innifaldar í þessu: Mosfellssveit, Hafnarfjörður, Kópavogur o. s. frv. Hér er því um margar stöðvar að ræða sem unnt er að tala frítt á milli.

Hv. síðasti ræðumaður vék að því, að það væri gamla fólkið sem talaði mest. Vel má vera að þess vegna þurfi, eins og hæstv. samgrh. kom inn á, að gera einhverjar sérstakar ráðstafanir. Auðvitað eru allir á því, en ég held að það séu fyrst og fremst unglingarnir sem tala lengi í síma, ekki gamla fólkið.