04.11.1980
Sameinað þing: 13. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í B-deild Alþingistíðinda. (281)

46. mál, breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Verðbólgan mun vera um 52–53% eins og málin standa, ef grunnkaupshækkanir sem urðu fyrir skömmu eru ekki teknar inn í dæmið. Það, sem hefur gerst með grunnkaupshækkununum, er að hvernig sem menn títa á þær munu þær sennilega valda um 15–20% verðbólguhækkun á næstu 6–12 mánuðum. Þetta er tiltölulega auðvelt að reikna út vegna þess að það vefur upp á sig eins og hið sjálfvirka kerfi er. Þannig er augljóst mál að verðbólgan, ef ekkert verður að gert, verður — ég skal ekki nefna tölur, en það er óhætt að segja öðru hvorum megin við 70% þegar kemur talsvert fram á næsta ár. Það er alveg augljóst mál, að þessu verður að mæta með efnahagsráðstöfunum.

Ég hef ekkert um það sagt í þessum umr., að efnahagsráðstafanirnar eigi að vera þannig að þær beinist að launafólkinu í landinu. Launin eru að vísu mjög stór þáttur í verðlaginu. Það er talið að launin séu líklega 70–75% af þjóðarframleiðslunni og þau eru stór þáttur. En það eru margir fleiri þættir sem koma þar til álita. Því er alveg óþarfi af hv. þm. Karvel Pálmasyni að vera að snúa út úr og gera mér upp skoðanir í þessu efni. Það þarf að gera samræmdar aðgerðir á breiðum grundvelli, og eitt af þeim atriðum, sem koma inn í þær aðgerðir, er launamálin og launamálastefnan. Það er alveg augljóst mál.

Án þess að ég sé að gera grein fyrir fyrirhuguðum aðgerðum vil ég endurtaka það, sem ég hef áður sagt, að gera verður efnahagsráðstafanir til að bremsa niður þá verðbólgu sem nokkurn veginn blasir nú við. Það verður að gera með því að taka á, að mínu mati, öllum þeim þáttum sem eru umtalsverður liður í verðlaginu. Það er fjarri því, að ég hafi gefið í skyn áður að það væru eingöngu launamálin. Það er margt fleira sem þarf að taka á, eins og marglýst hefur verið t.d. af okkur í Framsfl. sem höfum talað um niðurtalningu og niðurtalningarstefnu. En það hefur verið að mínu mati talsvert mistúlkað upp á síðkastið hvað við höfum átt við. Sannleikurinn er auðvitað sá, að í sumar, meðan kjarasamningar hafa verið opnir og menn hafa ekki vitað hvers væri að vænta í þeim efnum, mætti orða það svo, að ríkisstj. hafi viljað borga vinnufriðinn því verði að fresta fyrirætlunum sínum um niðurtalningu á verðbólgu. Það er auðvitað staðreynd, sem skylt er að viðurkenna, að grunnkaupshækkanir, sem gerðar voru um daginn, hafa áhrif á verðbólguþróunina og auka á verðbólguna. Þeim mun frekar er ástæða til að taka á þessum málum á breiðum grundvelli.