03.03.1981
Sameinað þing: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2670 í B-deild Alþingistíðinda. (2810)

383. mál, símamál

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég kveð mér nú hljóðs til þess að mótmæla þeim röddum sem hér hafa heyrst í umr., að það sé óeðlilegt af hálfu fyrirspyrjenda að leggja fram þær fsp., sem þeir hafa gert, eða leggja út af þeim hætti sem raun ber vitni. Það er talað um kjósendahræðslu. Hvílík fjarstæða. Er það ekki skylda þingmanna að hlusta á kjósendur sína og íbúa þess svæðis sem þeir eru fulltrúar fyrir? Það er upplýst að hingað kom sendinefnd, fulltrúar 14 þús. reykvískra kvenna, með áhugamál sín og báðu þm. Reykv. að kanna hvernig í þeim lægi og hvernig framkvæmd skyldi háttað á tilteknu sviði mannlegs lífs sem nú er orðinn nauðsynlegur þáttur í samskiptum manna á meðal. Er það kjósendahræðsla að spyrjast fyrir um framkvæmd fyrirhugaðra aðgerða að þessu leyti? Ég segi nei. Hér er um eðlilegar, fullkomlega eðlilegar fsp. að ræða, og eins og fram hefur komið af hálfu hæstv. ráðh. er þar um að ræða upplýsingar sem ekki lágu fyrir áður, upplýsingar sem þessu fólki og öðru er nauðsynlegt að hafa tiltækar. Ég held jafnvel að ýmsum þingmönnum annarra kjördæma hafi alls ekki verið ljóst að það var verið að taka upp skrefatalningu í þeirra kjördæmum. Er ekki nauðsynlegt fyrir þá og íbúa þeirra kjördæma að vita um gang mála og framkvæmd að þessu leyti?

Það er talað um misjafna aðstöðu o& misrétti. Við viljum auðvitað allir þm. jafna aðstöðu Íslendinga eins og kostur er á. En það kann að vera að það skipti máli með hvaða hætti aðstaðan er jöfnuð. Það er hægt að jafna aðstöðu með þeim hætti að allir búi við lakari hlut. Það er hægt að jafna aðstöðu með þeim hætti að enn sé til staðar hvati fyrir íbúa hvers landssvæðis fyrir sig að bæta stöðu sína og þar með heildarinnar um leið. Þess vegna er það stefnumarkandi atriði og stefnumarkandi þáttur, sem m. a. er skylda Alþingis að fjalla um, með hvaða hætti aðstaðan skuli jöfnuð.

Við Reykvíkingar og þm. Reykv. höfum síst af öllu eytt tíma Alþingis fyrir sérmál okkar kjördæmis eða okkar umbjóðenda. Og ég vil mótmæla því þegar sú rödd heyrist m. a. úr hópi þm. Reykv., að málflutningur okkar hér í þessu máli og fyrirspyrjenda sérstaklega sé af þeim toga spunninn. Ég tel að hann ætti að standa reikningsskap gerða sinna og orða við sína kjósendur, og hann mun verða kvaddur til þess.

Það er áhugamál okkar Reykvíkinga og þm. Reykv. sérstaklega, að skilningur aukist milli þéttbýlis og strjálbýlis. Og ég held að þetta mál, skrefatalningin og fyrirkomulag, sé alveg eins hagsmunamál strjálbýlisins og þéttbýlisins, alveg eins elli- og örorkulífeyrisþega í strjálbýli og í þéttbýli. Og með þeim hætti eigum við að taka á málinu.

Ég held að það sé ástæða til þess fyrir samgöngunefndir þingsins og fjvn. að fjalla mun ítarlegar um þetta mál en unnt er að gera í fyrirspurnatíma í Sþ. Ég held að það sé ástæða til þess, m. a. í ráðgjafanefnd sem er til trausts og halds stjórnendum Pósts og síma, að fara yfir þær breytingar sem orðið hafa frá því að byggðajöfnunarnefnd fjallaði um þessi mál, hvaða breyting hefur orðið á símakostnaði í þéttbýli og strjálbýli. Mér segir svo hugur um, að sem betur fer hafi nokkur jöfnun átt sér stað síðan talið var að þessi útgjaldamunur væri 50%. Ég held líka að það væri ástæða fyrir þessar nefndir með tilvísun til tækniþróunar að kanna hver kostnaður er vegna símaþjónustu í mismunandi hlutum landsins, einmitt vegna þess að slík könnun gæti bent á eðlilegustu leiðir til þess að jafna þennan útgjaldaþátt án þess að úr þeim hvata væri dregið að gera símaþjónustuna sem hagkvæmasta fyrir alla landsmenn.

Ég læt máli mínu lokið að þessu sinni með áskorun til samgn. Alþingis og fjvn. sérstaklega um að fjalla um þessi mál innan vébanda sinna og kalla til embættismenn sem geta veitt upplýsingar í þeim efnum, en legg loks áherslu á að þm. Reykv. fái að fylgjast með framkvæmd þessa máls í einstökum atriðum og fái tækifæri til þess að hafa áhrif á niðurstöður mála. Og þá þykist ég tala þar fyrir hönd hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar sem annarra. Ég trúi ekki öðru en að hann vilji standa með okkur sem og öðrum þingmönnum að því að gera símaþjónustuna sem hagkvæmasta fyrir alla landsmenn.