03.03.1981
Sameinað þing: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2672 í B-deild Alþingistíðinda. (2813)

383. mál, símamál

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Aðeins örstutt innskot út af þeim umr. sem hafa orðið um störf fjvn. að því er varðar fjárfestingu Pósts og síma.

Það er nú einu sinni svo, að fjvn. fær oft fjárfestingaráætlun Pósts og síma einungis til umfjöllunar á einum eða tveimur fundum milli umræðna, 2. og 3. umr., og má heita í raun að það sé fyrst og fremst stjórnarliðið hverju sinni sem mótar þá áætlun. Ég man eftir því, að einmitt þessi skrefatalningartæki hafa komið til umræðu á slíkum augnabliksfundum milli 2. og 3. umr. tvisvar, tvívegis að ég best man.

Í fyrra skiptið, sem þessi tæki komu þar til umræðu, gerði hv. þm. Friðrik Sophusson sérstakan fyrirvara frá sinni hálfu einmitt um þessi ágætu tæki, ef ég man rétt. Það er hægt að fletta því upp og gá að hvort það er ekki rétt, og þá skal ég hafa það sem sannara reynist, ef þetta er ekki rétt hjá mér. En ég held að það sé alveg öruggt að hann hafi gert þetta á þeim tíma.

Síðan mun það hafa verið svo, að í annað skipti sem fjárfestingaráætlun Pósts og síma kom til umfjöllunar í hv. fjvn. höfðum við minnihlutamenn alveg sérstakan fyrirvara einmitt um fjárfestingaráætlanir allra B-hlutafyrirtækja. Það, sem hér hefur komið fram um afstöðu hv. þm. Friðriks Sophussonar í hv. fjvn., er því ekki á rökum byggt. Ég vil upplýsa það hér, ef menn vita það ekki, að hv. þm. Friðrik Sophusson hefur unnið sín störf afskaplega vel í fjvn. og hann er mjög verðugur fulltrúi Reykvíkinga þar.