04.03.1981
Efri deild: 61. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2688 í B-deild Alþingistíðinda. (2830)

225. mál, hagkvæmni í endurnýjun skipastólsins

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hætta mér mjög langt út í þessar almennu umræðu um skipulagningu í sjávarútvegi. Satt best að segja finnst mér að varla geti það verið við hér sem getum tekið ákvarðanir í smáatriðum í því efni, og mér finnst stundum að þessar umr. gangi nokkuð út og suður og er kannske ekki að furða. Það er um mikið vandamál að tefla. Það er ljóst, að floti okkar er of stór og hefur kannske verið farið heldur geyst í uppbyggingu togaraflotans sérstaklega og þessi mál hljóta auðvitað öll að verða til umræðu á næstu árum. En ég held að við eigum ekki að ætla okkur þá dul, að hér í þingsölunum leysum við öll mannleg vandamál með skipulagningu á þessu sviði og öðrum. Og ekki vil ég óska sjávarútveginum þess að lenda í sömu sporum og landbúnaður nú er lentur, þar sem tekið er upp kvótakerfi og nokkurs konar lénsskipulag. Ég held að þrátt fyrir allt þurfi einhverjir að borga skipin, eins og einn ræðumanna vakti hér athygli á, það verði að fara mjög gætilega í að gefa mönnum skip og kannske borga með þeim og allt muni það leiða til þess, að stöðnun verði í íslenskum atvinnuvegum fremur en hitt. Auðvitað verða menn eitthvað á sig að leggja til að geta eignast glæsileg skip. Ætla ég ekki að fara lengra út í þessar hugleiðingar. Þetta kemur allt seinna meir til umræðu. Mér er auðvitað ljóst eins og öllum öðrum, að óhöpp geta borið við á einstökum stöðum á landinu og verður að grípa til sérstakra ráðstafana til að létta undir með ákveðnum byggðarlögum. En þegar það á að fara að verða almenn regla að úthluta skipum til manna eftir geðþótta einstaklinga, kannske ágætra manna, þá líst mér ekki orðið á blikuna, þá held ég að sjávarútvegurinn fari að fara halloka rétt eins og landbúnaður og svo kæmi iðnaður auðvitað á eftir og við værum meira og minna lentir í greipum sósíalisma og ofstjórnar og þar af leiðandi lakari lífskjara. En út í stórpólitík ætla ég nú ekki að fara.

Það er alveg ljóst, að við verðum að halda áfram skipasmíðaiðnaði á Íslandi og við eigum þá ekki endilega að einblína á að það þurfi að smíða stærstu skip, heldur kannske ekki síður smábáta. Og svo vill til, að við höfum nokkrar mjög glæsilegar skipasmíðastöðvar sem einmitt smíða minni skipin og þau skipin sem ég hygg, þegar allt kemur til alls, að skili kannske mesta arðinum, séu ódýrust í rekstri og hreini arðurinn af þeirri útgerð sé kannske meiri en af hinni sem meira ber á. En við skulum láta það liggja á milli hluta. Það er alveg ljóst, að smábátaútgerð verður á Íslandi og hún á að vera á íslenskum bátum, bátum smíðuðum hér, og hún á að vera á nýjum bátum sem mest og nýlegum bátum. Þess vegna er úrelding skipa auðvitað alveg sjálfsögð við þær aðstæður sem nú eru, bæði af öryggisástæðum og eins af fjárhagslegum ástæðum, og það séu hagstæð skip sem séu notuð en ekki óhagstæð. Ég nota þetta tækifæri þess vegna til að spyrja hæstv. sjútvrh. hvort tilraunir þær, sem ég veit að hann hefur gert til að fá Fiskveiðasjóð til að breyta reglum sínum um lánslofarð þannig að íslenskar skipasmíðastöðvar, einmitt þær sem smíða litlu bátana, fái eðlilega afgreiðslu og sitji við sama borð og aðrir.

Mér er kunnugt sérstaklega um eina skipasmíðastöð, skipasmíðastöð Guðmundar Lárussonar á Skagaströnd, mjög glæsilegt fyrirtæki, að hún er nánast sett algerlega hjá, það fæst ekki smíðaður þar nokkur bátur með eðlilegum lánum hjá Fiskveiðasjóði. Þó er þarna um geysimerkilegt fyrirtæki að ræða. Það var hafin uppbygging á því á erfiðleikaárunum í kringum 1970 og þá smíði eikarbáta, en síðan voru hafnar smíðar á plastbátum sem hafa reynst mjög vel og eru hin glæsilegustu skip þó að ekki séu þau stór. En á síðustu árunum hefur ekki fengist að smíða einn einasta slíkan bát. Og eins og ég sagði, þá veit ég að hæstv. sjútvrh. hefur áhuga á að bæði þetta fyrirtæki og önnur í skipasmíðaiðnaði fái að sitja kannske ekki við sama borð og stóru skipin af því að það er ekki verið að víla fyrir sér að afgreiða nokkra milljarða í skuttogara þegar ekki fást nokkrir tugir milljóna eða nokkrar milljónir í þessa einstöku smábáta. Þess vegna er verið að leggja þennan iðnað í rúst, eina glæsilegustu iðngrein hérlendis sem ég hef séð, stórglæsilega og ætti auðvitað að verða útflutningsiðnaður og ætti að styrkja menn til að geta stundað þennan rekstur. Mér sýnist það vera alveg augljóst mál, að slíkar stöðvar eigi að fá einhvers konar lánafyrirgreiðslu úr þessu margstungna og þrælfléttaða lánakerfi landsins sem er að stiga sjálft sig og þar með efnahagslíf þjóðarinnar. En látum það einnig liggja á milli hluta. Á meðan þessi frumskógur er ætti þó a. m. k. einhvers staðar að vera í honum glufa fyrir mestu athafnamenn landsins, eins og t. d. þann mann sem ég áðan nefndi, Guðmund Lárusson, sem hefur drifið upp þetta glæsilega stórfyrirtæki. Um leið og það er komið á laggirnar og búið að smíða nokkur skip, þá er sagt: Nei takk, góði minn, þú átt ekki upp á pallborðið, svona skip ætlum við ekki að smíða, við ætlum að smíða nokkra skuttogara í viðbót, og þeir skulu fá alla peningana úr Fiskveiðasjóði.

Þetta er staðreynd málsins og þessu verður auðvitað að breyta. Þarna er um rangsleitni að ræða. Það er hrein nauðung við þá menn sem hafa byggt upp slík fyrirtæki, auðvitað í trausti þess, að þeir fengju að reka þau. Þess vegna endurtek ég spurningu mína til ráðh. og þakka honum fyrir það sem hann hefur reynt að gera í þessu efni vegna þess að allir hljótum við að vera sammála um að þennan iðnað megi ekki deyða. Skipasmíðaiðnaður á að verða mjög stór iðngrein á Íslandi í framtíðinni og hlýtur að verða það, vegna þess að þótt fiskveiðar víða um heim séu nú stundaðar með halla vegna ýmiss konar breyttra aðstæðna í hafréttarmálum o. s. frv., þá verða auðvitað fiskveiðar auknar mjög samhliða því sem verður farið að hjálpa náttúrunni til að auðga hafið með því að rækta það alveg eins og landið. Þá þarf skip til að veiða aukinn afla. Þess vegna verða fiskveiðiskipasmíðar miklar í framtíðinni, og vísi af skipaiðnaði má ekki drepa á Íslandi. Því eigum við að sameinast um að sjá til þess, að sá veiki vísir, sem er að þessari iðngrein, fái að blómgast og dafna og fiskiskip hérlendis verði íslensk, bæði af því að þau eru betri og verða betri en nokkur skip önnur vegna reynslu okkar og af því líka að þau verða ódýrari ef íslenskur skipasmíðaiðnaður fær að búa við svipuð kjör og slíkur iðnaður gerir í öðrum löndum.