04.03.1981
Efri deild: 61. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2692 í B-deild Alþingistíðinda. (2832)

225. mál, hagkvæmni í endurnýjun skipastólsins

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Mig langar til að leggja fá orð í belg. Hér er vissulega um að ræða stórt mál og grundvallarmál í okkar atvinnulífi og eðlilegt að það sé rætt á Alþingi.

Ég held að það séu ákaflega breytt viðhorf í þessum málum öllum á tiltölulega mjög skömmum tíma, og ég held að menn geri sér ekki fulla grein fyrir því enn þá hvert horfir um fiskstofnana. Með fullri virðingu og stuðningi við fiskifræðinga og þeirra starfsemi þá held ég þó að það sé það margt sem mönnum er hulið í þessum efnum, að menn geri sér ekki fulla grein fyrir hvert horfir í sambandi við fiskstofnana og þess vegna skynsamlegt að bíða nokkuð átekta um það, hvað gerist í þessum málum, áður en menn fara að draga ályktanir sem geta verið of snemma á ferðinni og byggist ekki á nægilegri reynslu við nýjar aðstæður í þessum efnum. Það eru gífurlegar breytingar sem orðið hafa með því að útlendingar hafa horfið af okkar fiskimiðum.

Mér er það ákaflega minnisstætt, vegna þess að ég er alinn upp við ströndina og við sjóróðra þegar ég var unglingur á Austfjörðum á haustin, að sjá fyrir öllu Austurlandi borg af erlendum flota fiskiskipa, óslitna allar götur norður undir Vopnafjörð og suður í Berufjarðarál, þannig að íslensku bátarnir, sem þarna stunduðu sjóróðra, urðu annaðhvort að vera innan við þessa borg og þetta belti eða utan við það, annað var vonlaust. Ég hef að vísu ekki upplýsingar um hver tala þessara veiðiskipa var á þessum tíma, en hún var geigvænleg. Hér hafa því auðvitað orðið gífurleg umskipti, og ekki nóg með það, heldur var það svo, að þessi floti fiskaði upp í fjörusteina, T. d. eystra var það þannig, að sérstaklega Bretar enduðu gjarnan sínar veiðiferðir með því að taka kolann í lokin og voru þá að fiska upp við fjörusteina. Og svona var þetta meira og minna í kringum landið.

Það er náttúrlega miklu meira stunduð djúpstóð núna heldur en áður var, og þetta eru svo gjörbreytt viðhorf að ég held að menn þurfi nokkurn tíma til þess að fá úr því skorið, hvert horfir í þessum efnum, og það sé alls ekki svo að menn hafi alla þá kunnáttu sem til þarf eða reynslu, til þess að fullyrða hvert horfi í þessum efnum við nýjar aðstæður. Ég er þess vegna alveg sammála hæstv. sjútvrh. um það efni, að meginstefnan eigi að vera sú að viðhalda fiskiskipastólnum nokkurn veginn í þeirri stærð sem hann er nú og sjá til. Það er athyglisvert, að fyrir tveimur eða þremur árum töldu fiskifræðingar að 250 þús. tonna þorskveiði væri skynsamleg. Hún var miklu meiri eins og allir þekkja. Nú í dag telja þeir 400 þús. tonna þorskveiði hæfilega, þannig að hér hefur orðið á örstuttum tíma gífurleg breyting á viðhorfum manna í þessum efnum og skoðunum. Auðvitað getur ótalmargt komið til sem hefur áhrif á þessi mál En ég held að það sé of snemmt að fara að marka stefnu til mikilla breytinga á okkar fiskiflota. Ég held að við eigum að bíða átekta og viðhalda flotanum svipuðum og hann er nú, enda er sannleikurinn sá, að það er óskaplega stórt mál ef á að minnka fiskiflotann, vegna þess að uppbygging fiskiflotans og stærð fiskiflotans miðast ákaflega mikið við þarfirnar, miðast við okkar land, okkar strandlengju og atvinnuaðstöðu alla kringum landið. Því er á margt að líta.

Menn ræða um einstök skip hér á Alþingi og jafnvel einstaka báta. Ég verð að leyfa mér að segja það alveg eins og er, að miklar umræður um einn bát, sem er fluttur til landsins ef þörf er á því einhvers staðar, — mér finnst það varla vera verkefni Alþingis satt að segja. Það kann að gegna öðrum máli um einn togara. Um það mál hef ég ekki tekið mikinn þátt í að ræða og ætla ekki að gera. Það er ýmislegt fleira í því máli. Reynslan hjá okkur hefur verið sú, að það hafa liðið tímabil þar sem sáralítið hefur verið keypt eða byggt af skipum, síðan hafa komið gusur. Það var komin ný ríkisstj. með nýjan málefnasamning og hún ákvað að efla útgerð, kaupa 30 togara. Það var viskulegt að lýsa því yfir. Það var nýsköpunarstjórnin fræga. Ekki skal ég nú fara að efna til umræðu um hana. En hún lýsti því yfir í stjórnarsáttmálanum, að hún ætlaði að kaupa 30 togara. Náttúrlega hækkuðu allir togarar a. m. k. í Bretlandi, það vita allir nú, af því það átti að kaupa 30 togara til Íslands. Því var lýst yfir svo þeir voru fljótir að lyfta prísunum. En það er nú annað mál.

En síðan hefur þetta gerst með nokkuð stöðugu millibili, að það hafa verið teknar gusur og stór stökk í þessum efnum. Ég held að það sé miklu skynsamlegra að hafa þetta minna og jafnara og stefna á það, eins og sakir standa, að viðhalda flotanum nokkuð svipuðum því sem hann er nú og sjá til frekar hver framvindan verður um þróun fiskstofnanna.

Það eru margþætt vandamál sem koma upp þegar á að fara að setja hömlur. Það er t. d. hvernig þetta á að þróast hjá einstökum greinum útgerðar. Nú eru þær ákaflega misjafnar, og t. d. útgerðarmannastéttin, sem er mjög þýðingarmikil stétt. Hún er misjöfn eins og gengur og gerist, og ef settar eru strangar hömlur er hætt við að áhugi dofni hjá mönnum að byggja upp myndarleg fyrirtæki á þessu sviði vegna þess að þeir hafi ekki svigrúm til að þróa þau með eðlilegum hætti. Það er því á margt að líta í þessu sambandi. Inn í þetta koma svo öryggismálin að sjálfsögðu ef settar eru strangar reglur.

Nú er ég ekki að tala fyrir því, að það sé ekki skynsamlegt að viðhalda bátum með eðlilegum hætti. Það er nauðsynlegt og skynsamlegt og búmannlegt. En það má ekki ganga út í öfgar þannig að menn freistist til þess að nota skip sem eru ekki nægilega örugg.

Ég tek undir það með hv. þm. Kjartani Jóhannssyni, að það þarf að endurbæta fiskvinnsluna. Ég tek undir það. Hins vegar er rétt og skylt að geta þess um leið, að það hafa verið gerð stórkostleg átök í þessum málum á undanförnum árum, sérstaklega á árunum 1970–1980, áratugnum sem hefur verið kallaður Framsóknaráratugur stundum, — stórkostleg átök, slík bylting að það er ekki hægt að líkja því saman við það sem var fyrir þann tíma. Ég gæti haldið um það langa ræðu.

Ég skal fúslega viðurkenna það, að viss svæði landsins urðu nokkuð útundan í þessari þróun, eins og t. d. Reykjanesið. En það voru ýmsar ástæður sem voru þess valdandi, m. a. þær, að þar var lögð mikið áhersla á saltfiskverkun. En það hefur mikið gerst í þessum málum. Þó ég vilji taka undir það, að það þurfi að halda þessum verkum áfram, þá má ekki gleyma því, að það hefur mikið gerst, geysilega mikið, og verið varið stórkostlegum fjármunum til þess að endurbæta t. d. fiskiðjuverin í kringum landið, og þeim fjármunum er vel varið.

Ég skal ekki hafa þessi orð öllu fleiri, en ég vil leggja áherslu á það, að þessi mál eru vandasöm og eiga verulegt erindi í þingsali.