04.11.1980
Sameinað þing: 13. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í B-deild Alþingistíðinda. (284)

60. mál, framkvæmdir RARIK á Melrakkasléttu

Fyrirspyrjandi (Níels Á. Lund):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 64 til hæstv. iðn.- og orkumrh. um framkvæmdir Rafmagnsveitna ríkisins á Melrakkasléttu í Norður-Þingeyjarsýslu. Fsp. hljóðar svo: Hvenær er áformað að ljúka lagningu svonefndar Blikalónslínu á Melrakkasléttu?

Það sem einum kann að finnast stórmál er í annarra augum smámál. Svo er líklega farið um málefni það sem ég spyr hæstv. orkumrh. um nú.

Vestan til á Melrakkasléttu, frá Kópaskeri að Blikalóni, eru tólf bæri í byggð, þar af eru sjö á svokallaðri Leirhafnartorfu sem liggur um 15 km fyrir norðan Kópasker á leiðinni að Blikalóni og Raufarhöfn. Árið 1966 var fyrir mikla forgöngu heimamanna sjálfra lögð rafmagnslína á Leirhafnarbæi sem gjörbreytti aðstöðu bænda þar. Meðalvegalengd milli bæja í þeirri línu var aðeins 1.5 km og var hún því hagstæð miðað við 6 km mörkin, en orkuráð lagði til á sínum tíma að allir bæir innan þeirra marka yrðu rafvæddir frá samveitu. Nú eru aðeins eftir um 30 bæir á öllu landinu innan þessara marka sem ekki hafa fengið ríkisrafmagn, að því er mér er tjáð. Af þessum 30 bæjum eru fimm á vestanverðri Sléttu frá Leirhöfn að Blikalóni.

Meðalvegalengd í fyrirhugaðri Blikalónslínu, þ.e. Leirhöfn að Blikalóni, er 4.8 km og því er sú lína miklu óhagstæðari lína en fyrrgreind Leirhafnarlína, þar sem meðalvegalengdin var aðeins 1.5 km. Ef hins vegar hefði verið strax árið 1966 lögð öll línan Kópasker- Blikalón hefði meðalvegalengdin verið mun styttri eða u.þ.b. 2.7 km. Er því augljóst að á sínum tíma var aðeins tekinn unginn úr egginu þegar fyrrgreind lína, Kópasker Leirhöfn, var lögð. Nú má ekki taka það svo að ég sé að setja út á þá framkvæmd, það sæti síst á mér, heldur er ég aðeins að benda á þá staðreynd, að nú eru liðin um 14 ár síðan þessi lína var lögð og ekki bólar enn þá á frekari framkvæmdum, og sé spurt er svarið í þá áttina, að Blikalónslína sé óhagkvæm vegna þess hvað meðaltalsvegalengd sé löng.

Það ætti ekki að þurfa að lýsa því fyrir hinu háa Alþingi, hve mikinn þátt raforka á í daglegu lífi hvers og eins. Hún er miklu fremur forsenda nútímalífs en þægindi sem deila má um hvort eru þörf eða óþörf. Það hlýtur að vera markmið stjórnvalda á hverjum tíma að rafvæða alla bæi landsins og nota íslenska raforku til margvíslegra hluta í stað þess að notast við misdýra erlenda orku í formi olíu. Sú óvissa, sem ríkir nú í heiminum í olíuviðskiptum, hlýtur enn fremur að herða á öllum framkvæmdum sem hníga í þá áttina að skipta á erlendri olíu í íslenska raforku. Þær framkvæmdir hljóta alltaf að skila arði.

Nú er verið að ljúka við gerð uppbyggðs vegar á Sléttu milli Kópaskers og Raufarhafnar, svonefnds Hafísvegar. Má í raun segja að með þessum vegi tengist Raufarhöfn vegakerfi landsins í fyrsta skipti. Sá vegur, sem fyrir var, hefur staðið nánast óbreyttur í milli 30 og 40 ár. Á vetrum var hann ófær fyrir snjó, á sumrum landsfrægur ókeyrandi vegur. Hinn nýi vegur og þeir samskiptamöguleikar, sem með honum opnast, eru því Norður-Þingeyingum öllum kærkomnir. Með honum batna til muna samgöngur milli þorpanna Kópaskers og Raufarhafnar, svo raunverulega má segja að með tilkomu hans sé fyrst hægt að hugsa sér sameiginlega starfsemi þessara byggðakjarna í einhverjum mæli.

Lagning vegarins fyrir Sléttu er önnur af tveimur stærstu forsendunum fyrir því að byggð geti haldist þar áfram. Þau býli, sem við hann standa, eru í alfaraleið og eru auk annars mikið öryggi fyrir vegfarendur á langri leið þegar vetur er sestur að. Hin meginforsendan fyrir áframhaldandi byggð á Sléttu er að þau býli, sem enn hafa ekki fengið rafmagn, verði rafvædd. Í fámennum héruðum og sýslum veltur afkoma héraðanna mikið á samvinnu þeirra í milli, bæði hvað varðar einstaklinga og fyrirtæki. Það er mikill missir að hverjum þeim, sem burt flytur, eða því býli, sem í eyði fer. Þar kemur ekki síst hinn félagslegi þáttur inn í. Ég ætla ekki að ræða þann þáttinn frekar í þeim stutta tíma sem ég hef til þessarar fsp., en e.t.v. fæ ég tækifæri til þess síðar.

Ég leyfi mér fyrir hönd umbjóðenda minna að vænta jákvæðs svars við fsp. frá hæstv. iðn.- og orkumrh.