04.03.1981
Neðri deild: 60. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2699 í B-deild Alþingistíðinda. (2840)

214. mál, dýralæknar

Flm. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er afskaplega einfalt í sniðum. Þar er gert ráð fyrir að skipta Þingeyjarþingsumdæmi sem í stórum dráttum nær yfir austanverða Suður-Þingeyjarsýslu að Jökulsá á Fjöllum, þ. e. yfir Kelduneshrepp að auki.

Í frv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir að skiptin verði þannig að í Vestur- Þingeyjarþingsumdæmi verði Bárðdælahreppur og þeir bæir vestan Fljótsheiðar sem eru í Reykdælahreppi og Aðaldælahreppi norðan Hafralækjaskóla, en í Austur-Þingeyjarþingsumdæmi verði Suður-Þingeyjarsýsla austanverð, Húsavík og Kelduneshreppur í Norður-Þingeyjarsýslu.

Þessi skipting er í samræmi við skoðanir þess dýralæknis sem nú gegnir þessu umdæmi, en að sjálfsögðu er eðlilegt að kanna hvort rétt kunni að vera að hafa mörkin annars staðar. Má í þeim efnum nefna sem dæmi að eðlilegra kunni að vera að Fjallahreppur eða Hólsfjöll fylgi Austur-Þingeyjarþingsumdæmi. Sömuleiðis hef ég heyrt raddir um að eðlilegt sé að Öxarfjörður fylgi Austur-Þingeyjarþingsumdæmi fremur en Norður-Þingeyjarsýslu eða Norðausturlandsumdæmi eins og segir í lögunum.

Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta. Reynslan hefur sýnt að Þingeyjarþingsumdæmi er of stórt til þess að einn maður geti gegnt því svo að vel sé. Það er engum manni fremur ljóst en þeim dýralækni sem þar hefur verið ráðinn til starfa, og þess vegna er það, að hann hefur sjálfur átt frumkvæði að því að fá þessa skiptingu fram.

Ég þarf ekki að taka fram að þeir bændur, sem ég hef haft samband við um þetta mál, eru þessum málum fylgjandi og óska eftir að málið geti fengið þinglega meðferð. Ég legg áherslu á að deildin taki afstöðu til þess eða Alþingi áður en gengið verður frá fjárlögum næsta árs, til þess að hægt verði að gera þar ráð fyrir fjölgun dýralækna í Suður-Þingeyjarsýslu.

Hv. 6. þm. Norðurl. e. er flm. að þessu máli ásamt mér, en hv. 2. þm. Norðurl. e., Stefán Valgeirsson, treysti sér ekki til að taka afstöðu til málsins að svo stöddu og kaus þess vegna ekki að vera flm. að málinu.