04.11.1980
Sameinað þing: 13. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í B-deild Alþingistíðinda. (285)

60. mál, framkvæmdir RARIK á Melrakkasléttu

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Áður en ég svara beinum hætti fsp. hv. þm. Níelsar Á. Lunds tel ég rétt að rifja í aðalatriðum upp stöðu svonefndrar sveitarafvæðingar eins og hún er nú. Með sveitarafvæðingu er átt við tengingu þeirra býla í landinu við samveitur, sem ekki eru tengd nú þegar, eða rafvæðingu þeirra býla á annan hátt, sem ekki er talið fært að tengja samveitum vegna kostnaðar. Af sveitarafvæðingarfé hefur á ári hverju einnig verið greiddur kostnaður við tengingu á nýjum býlum, sem liggja á gömlum veitusvæðum, og hafa þau þá einnig greitt heimtaugagjöld sem koma til frádráttar útlögðum kostnaði.

Samkvæmt áætlun, sem orkuráð, sem um þessi mál hefur fjallað, gerði á sínum tíma um rafvæðingu sveita, er eftir að leggja rafmagn til þriggja bæja þar sem meðalfjarlægð að hverju býli er um eða innan við 4 km, nánast á bilinu 3–4 km eða þá að kostnaður á býli er minni en 23 millj. á núv. verðlagi. Heildarkostnaður vegna þessara þriggja bæja, miðað við verðlag í árslok 1980, er áætlaður 62 millj. kr. Er þetta af orkuráði nefnt áætlun I. Annar þáttur í áætlun orkuráðs, áætlun II, nær til raflagna að býlum þar sem meðalfjarlægð er á bilinu 4–5 km eða kostnaður á býli fer ekki yfir 36 millj. kr. Hér er um 9 býli að ræða og er heildarkostnaður vegna þeirra 229 millj. kr. Samkvæmt áætlun III. hjá orkuráði er um að ræða raflagnir til 15 býla, þar sem meðalfjarlægð er á bilinu 5–6 km eða þá kostnaður á býli fer ekki yfir 30 millj. kr. Heildarkostnaður vegna þessara 15 býla er 406 millj. kr. Samtals er þannig um að ræða innan þessarar áætlunar orkuráðs 27 bæi og kostnaður við lagningu raflína til þeirra, miðað við núverandi verðlag, er nálægt 700 millj. kr.

Blikalónslínan, sem hér er spurt um, telst meðal þeirra verka sem orkuráð mælir með að tekin verði í III. áfanga framkvæmdaáætlunar Orkusjóðs um rafvæðingu sveita. Raunar liggur þessi tínulögn alveg á mörkum II. og III. áfanga og er efst á blaði í III. áfanga ráðsins. Skiptir því út af fyrir sig ekki máli hvort hún flokkast til II. eða III. áfanga. Þessari veitulögn er ætlað að ná til þeirra bæja norðan Leirhafnar á Sléttu sem ekki hafa rafmagn frá samveitu. Eru það bæirnir Grjótnes, Núpskatla, Sigurðarstaðir og Blikalón. Á Núpskötlu mun vera tvíbýlt.

Áætlaður kostnaður við Blikalónslínu er 115 millj. kr., miðað við verðlag í árslok 1980. Á næsta ári er áætlað að kostnaður við tengingu vegna nýrra notenda á gömlum veitusvæðum nemi 400 millj. kr. Þetta fjármagn verður tekið af sveitarafvæðingarfé næsta árs. Í fyrirliggjandi fjárlagafrv. er gert ráð fyrir 500 millj. kr. til sveitarafvæðingar á komandi ári, þannig að ef það yrði lögfest með þeim hætti eru aðeins um 100 millj. kr. sem hægt er að gera ráð fyrir til nýrra línulagna eða sem svarar til þess að tengja 4–5 býli. Samkvæmt framansögðu er ekki útlit fyrir að fé verði fyrir hendi til lagningar Blikalónslínu á næsta ári, ef fylgt yrði framkvæmdaáætlun orkuráðs, nema fjárveitingar til sveitarafvæðingar verði auknar mjög verulega eða sem svarar til um 300 millj. kr. umfram það sem er í fjárlagafrv., ef fylgja ætti tillögum orkuráðs um framkvæmdaröð.

Ég vil geta þess, að við undirbúning fjárlagagerðar mat iðnrn. þörfina í þessu skyni um 800 millj. kr., þannig að ef hefði verið orðið við óskum rn. að þessu leyti, en raunar hafði orkuráð gert tillögur í svipaða átt, hefðu þessar 300 millj., sem ég gat um, verið inni. En það er ekki aðeins í þessu efni sem um er að ræða minni fjárveitingar en þarfirnar bjóða, ef meta ætti þær einar saman. Þar hefur víða verið skorið af, eins og ég geri ráð fyrir að hv. þm. hafi skilning á þótt hver og einn líti misjöfnum augum á einstök verkefni.

Ég skil vissulega vel áhuga hv. fyrirspyrjanda í þessu máli og hef orðið var við slíkan áhuga frá fólki því sem hér á í hlut, sem hefur rætt við mig um sín efni. Iðnrn. telur þörf á að auka fjárveitingar í þessu skyni frá því sem nú er og hefur gengið frá erindi til fjvn. þar að lútandi. Jafnframt því sem hraða þarf, eftir því sem frekast eru ráð til, tengingu þeirra býla er næst liggja samveitum þarf að leita úrlausnar fyrir þær jarðir er liggja utan við þann ramma sem orkuráð hafði markað í áætlun sinni, þ.e. þar sem vegalengd er meiri en svarar til 6 km. Raunar hefur Alþ. mér vitanlega aldrei tekið neina heildstæða ákvörðun um þessi efni. Á sínum tíma lá fyrir samþykki af hálfu Alþ., að ég hygg, varðandi rafvæðingu að þriggja km markinu, en því, sem umfram er, hefur verið reynt að þoka eftir því sem fjárveitingar hafa frekast leyft hverju sinni.

Þannig eru þrjú býli sem eru á bilinu 3–4 km og standa samkv. hinni umræddu áætlun næst því að fá úrlausn sinna mála. En það munu vera um 29 býli, sem eru utan 6 km meðalfjarlægðar milli jarða, og aðstæður þeirra eru vissulega mismunandi. Iðnrn. stefnir að því að gerð verði sem fyrst úttekt á aðstæðum þessara jarða og möguleikum á úrbótum, öðrum en að tengja þær samveitum, t.d. með því að reisa vatnsaflsvirkjanir, litlar vatnsaflsstöðvar þar sem þannig hagar til að henti, eða koma upp vindrafstöðvum eða öðrum orkugjöfum sem ódýrari eru en olíurafstöðvar, en flest þeirra býta, sem ekki njóta rafmagns frá samveitu, flest eða öll, búa við rafmagn frá dísilstöðvum sem lán eru veitt til úr Orkusjóði.