05.03.1981
Sameinað þing: 57. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2713 í B-deild Alþingistíðinda. (2852)

100. mál, stefnumörkun í landbúnaði

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég hygg að þótt þessi þáltill. sé efnislega að sumu leyti þannig að það sé hægt að taka undir marga liði í henni, þá marki hún engin sérstök tímamót í stefnumótun í landbúnaði. Ég held að það, sem menn verða að gera sér grein fyrir nú, sé hvernig við ætlum að byggja landið. Ættum við að halda landinu öllu í byggð, eins og flestir segja nú sem koma upp í þennan ræðustól? Ef við ætlum að gera það verðum við að marka einhverja atvinnumálastefnu sem tryggi viðhald byggðanna. Þessi till. gerir það ekki, og það kann að vera að aðrar till., sem hafa komið hér á borð að undanförnu, geri það ekki heldur. Þetta er kannske enn flóknara en virðist í fljótu bragði vegna þess að þetta er svo samofið atvinnu hinna ýmsu þéttbýlisstaða víðast hvar á landinu.

Ég ætla ekki hér og nú að fara að ræða þessa till. efnislega, vegna þess að ég vænti þess, þar sem kom fram hjá hæstv. landbrh. áðan, að það verði kleift að leggja fram till. um stefnumótun í landbúnaði af hálfu hæstv. ríkisstj. á þessu þingi. En ég vil leggja áherslu á það að niðurstaða af könnun t. d. á gildi sauðfjárframleiðslunnar fyrir þjóðina liggi fyrir áður en slík stefnumörkun verður lögð fram, vegna þess að það er kannske veigamesta atriðið til þess að geta gert sér grein fyrir því, hvernig við ætlum okkur að byggja upp atvinnulífið, ef það reynist svo að við verðum líka að draga sauðfjárframleiðsluna verulega saman.

Ég hef merkt mörg atriði í þessari till. og ekki síður grg. og mundi gera aths. við þau, ef ég væri að ræða þessa till. á þann veg að ég gerði ráð fyrir að hún yrði tekin þannig til umfjöllunar að það ætti að samþykkja hana hér á hinu háa Alþingi. En ég held að það þurfi að breyta henni nokkuð mikið til þess að það verði samstaða um hana.

Það eru örfá atriði sem ég ætla að drepa hér á með nokkrum orðum.

Það er í fyrsta lagi hvernig á að stjórna framleiðslunni, framleiðslustjórnunin. Það hefur verið mikið rætt um kvótakerfið og kjarnfóðurskattinn á undanförnum árum. Auðvitað eru það ekki nein gleðitíðindi að skuli þurfa að setja á framleiðslutakmörk. En til hvers er að framleiða t. d. mjólk til útflutnings sem ekkert fæst fyrir? Er þá ekki skynsamlegra að reyna að gera einhverjar ráðstafanir til þess að framleiða ekki þessa mjólk? Og ef á að tryggja búsetu í landinu verður það ekki gert öðruvísi en með einhvers konar svona ráðstöfunum. Það þarf enginn að halda að kjarnfóðurskattur nái þessu marki. Það kemur harðast niður á þeim sem eru verr settir . En að nota báðar aðferðirnar, það er allt annað mál, ef kjarnfóðurnotkun er í hóflegu samræmi við þá framleiðslu sem hver og einn hefur möguleika til að framleiða til þess að fá fullt verð fyrir sína framleiðslu. Ef framleiðslan er of mikil — það höfum við séð og það skilja allir — þá kemur það þannig út að við fáum ekki fullt verð.

Það er gert ráð fyrir að færa stjórnina inn í héruðin. Ég held að það yrði nokkuð þungt í vöfum, vegna þess að eðli sínu samkvæmt hlýtur alltaf höfuðstýringin að verða frá einhverjum einum stað og þá er bara verið að koma fyrir öðru stýringarkerfi heima fyrir sem yrði í reyndinni að fara að miklu leyti eftir formúlu frá höfuðstöðvum. Annað væri ekki framkvæmanlegt. Það er hægt að hugsa sér að þeir gætu stjórnað því þannig, sem kemur nú af sjálfu sér, að einhver framleiði minna og annar meira eftir ástæðum og fjölskyldustærð heima fyrir, breyta þannig til, en í heildinni mundi það ekki koma, að ég hygg, að neinu verulegu gagni. Hins vegar er það nú gert og er sjálfsagt að hafa þetta eitthvað í samráði við búnaðarsamböndin heima fyrir.

Það, sem ég er alveg sammála hv. 1. flm. um, er að kjarnfóðurgjaldið ætti að fara til þess að borga niður t. d. verð á tilbúnum áburði, vegna þess að þarna er verið að færa til. Það er mikilvægur þáttur í þessari stjórnun og ég er alveg sammála því, að það sé eðlilegast að halda þannig á málum. Það getur ekki verið neitt markmið í sjálfu sér að ætla að skattleggja rekstrarvöru, hvorki bænda né annarra, heldur að hafa stjórnunaráhrif á hvers konar rekstrarvörur eru þá notaðar.

Það eru ákaflega mörg vandamál sem blasa nú við landbúnaðinum og t. d. kemur ekki fram í þessari till. hvernig eigi að bregðast við. Það er orðin staðreynd að við höfum dregið úr mjólkurframleiðslunni. Það gerðist á stuttum tíma. Mjólkurframleiðslan er þannig að það er ákaflega hætt við að hún haldi áfram að minnka. Það er mjög hætt við því, að á næstu einu, tveimur árum minnki mjólkurframleiðslan svo mikið að það geti orðið jafnvel vöntun á mjólk á vissum árstímum. Það er líka vegna þess að þjóðfélagið er að breytast. Það eru fáir sem vinna orðið á laugardögum og sunnudögum og jafnvel eru menn að hætta að vinna seinni hluta föstudaga. Unga fólkið í sveitunum vill ekki binda sig við þessi störf, og þegar við bætist sá áróður, sem uppi hefur verið á móti þessari framleiðslu að undanförnu og er búið að berja inn hjá sumum að það þurfi að minnka hana og minnka, þá er hætt við að viðbrögðin verði þau, að menn vilji breyta enn þá meira til en þjóðfélagið þolir. Ég segi að þjóðin þoli ekki að minnka það niður fyrir þau mörk sem hún þarf til neyslu. En við erum komnir að þeim mörkum á svo stuttum tíma að það er hætt við að þessi minnkun stöðvist ekki.

Því miður hefur sauðfjárframleiðslan líka dregist saman, og menn sjá að þeir fá ekki fullt verð fyrir þá framleiðslu eins og nú er háttað. Þessi till. leysir engan vanda í því efni.

Ef ekki finnast einhverjir tekjumöguleikar fyrir fólkið í dreifbýlinu, ekki verður fundið eitthvað annað — og hv. 1. flm. lagði áherslu á það í ræðu sinni áðan, að það þýddi ekki og varaði við því að treysta á einhverjar nýjar eða aðrar búgreinar, þá er rökrétt að hann geri ráð fyrir að fólkinu fækki í sveitunum. Þó að því sé haldið fram, að hægt sé að ná meiri tekjum út úr minni búum að einhverju leyti, þá er það ekki nema að takmörkuðu leyti, a. m. k. sums staðar, enda er sú raunin nú, að það eru ekki bændur eða bændasynir sem bjóða í jarðir sem eru lausar. Það eru allt aðrir menn. Og þá erum við komnir að öðru áhyggjuefninu. Það eru aðrir en þeir, sem ætla að stunda landbúnað, sem jafnvel kaupa þær jarðir sem best eru fallnar fyrir landbúnaðinn. Framleiðslan t. d. á Suðurlandi er að færast meira upp til fjallanna, upp úr lágsveitunum. Það eru peningamennirnir sem bjóða í þessar jarðir, ekki til búskapar. Og þetta er að gerast víðar en á Suðurlandi, og það er sýnilegt að bændur eða bændasynir hafa enga möguleika á að keppa við þessa menn. Þarna er mikið áhyggjuefni. Og hvernig á að bregðast við? Hv. þm. Helgi Seljan var að tala um að styrkja þyrfti Jarðakaupasjóð, en þegar er farið að bjóða í 100 milljóna í húsalausar eða húsalitlar jarðir, þá held ég að þyrfti að styrkja hann nokkuð mikið til þess að hann yrði umkominn að kaupa mikið af þessum jörðum.

Það er náttúrlega hægt að hugsa sér að Stofnlánadeildin, ef hún hefði fjármagn, reyndi að hjálpa bændum eða sveitarfélögum til að komast yfir þessar jarðir. En þá þarf hún fjármagn sem hún því miður hefur ekki. Hér stendur að stofnuð verði sérstök deild innan Stofnlánadeildar landbúnaði til stuðnings við ný verkefni í landbúnaði. Ég held að þurfi enga sérstaka deild til þess. Stofnlánadeildin lánar til allra þátta landbúnaðar og það er ekki spurningin um að stofna deild, það er bara spurningin um fjármagn og spurningin um fjárfestingarstefnu í landbúnaðinum.

Hv. 1. þm. þessarar till. taldi að það ætti ekki að láta kvótann verka á bú sem eru u. þ. b. vísitölubú. Hvernig mundi þetta verka ef það væri framkvæmt? Það eru um 70% af allri framleiðslu landbúnaðarvara sem eru framleidd á búum sem eru 300 ærgildi og minni. Ég hef ekki tölur um bú með allt að 420. Það eru nokkur bú sem eru miklu stærri, en það eru líka margir aðilar um sum þessi bú. Það má ekki miða við stóru búin ef aðilarnir eru margir sem að þeim standa. Þegar ég segi þetta þá miða ég við framleiðendurna, að 70% af allri framleiðslunni séu á búum sem eru 300 ærgildi eða minna á hvern framleiðanda. Það þýðir ekkert að hrista höfuðið, ég þekki vel þessi mál. Það er alveg þýðingarlaust, þó að ég hafi ekki handbæra hina töluna og það viðurkenni ég. Slíkt væri alveg út í hött, það væri alveg tilgangslaust að nota kvótann þannig. Auk þess eru sumir af þeim mönnum, sem eru með stærri bú, 500, 600, 700, 800 ærgilda bú, ungir menn sem hafa verið að byggja upp á síðasta áratug og margir hverjir standa langverst að vígi nú í sambandi við sína framleiðslu og sínar skuldir. Það verður að gá að ýmsu í þessu efni.

Ég verð að segja það, taka undir með hv. 2. þm. Austurl., Helga Seljan, að ég held að kvótafyrirkomulagið verði að sýna sig. Mér er ljóst að það eru ýmsir örðugleikar á framkvæmdinni. Það var alltaf ljóst. En þarna var verið að mæta staðreyndum. Það blasti við að við fengjum ekki fullt verð, það var verið að leita eftir skásta kostinum, og skásti kosturinn hlýtur að vera sá að minnka frekar framleiðsluna heldur en að fá ekkert fyrir hana, t. d. mjólkurframleiðsluna. Og til þess að þetta kæmi ekki misjafnlega á var þetta réttlátasta leiðin ef hægt er að framkvæma hana skynsamlega.

Ekki ætla ég að fullyrða neitt um það, hvaða framleiðsla mundi henta okkur, þegar til lengri tíma er lítið, eða mundi standast skást. Það er ekki hægt að sjá það fyrir fram. Við sjáum það þegar við lítum til baka á það sem var talað um fyrir nokkrum árum, eins og t. d. að framleiða Óðalsost, að það stóð ekki lengi. Markaðirnir breytast, möguleikarnir breytast, og það, sem er í dag gott, getur orðið lakara á morgun. Það er ekki einungis með landbúnað. Við sjáum að það er líka með allt annað. Hvernig er með álframleiðsluna? Hvernig er með málmblendið? Og hvernig er yfirleitt með allt sem við framleiðum? (Gripið fram í: Ostabúið á Akureyri.) Já, ég segi það. Það sagði einhver áðan um vinnslustöðvarnar, að það þyrfti að stjórna því. Því var stjórnað, t. d. vinnslustöðinni á Akureyri. Það var óskað eftir að hún væri byggð til þess að framleiða Óðalsost á sínum tíma. Þetta er nokkuð erfið framleiðsla og þegar peningarnir eru litlir þarf eitt búið að framleiða þessa tegund og annað aðra til þess að þurfa ekki að vera með alls konar framleiðslu á öllum búunum. En í dag nýtist ekki þetta samlag eins og skyldi vegna þess að grundvöllurinn er brostinn.

Ég var á landbúnaðarráðstefnu hér fyrir nokkrum vikum og þar var rætt um þá möguleika sem kynnu að vera á að koma á atvinnurekstri úti í strjálbýlinu. Þegar ég lít yfir það sem kom þar fram, jafnvel þó að segja verði að sumt hafi verið sett fram af nokkurri bjartsýni, tel ég að þó að væri ekki nema 1/3 af þeim möguleikum, sem væri hægt að nýta fyrir strjálbýlið, landsbyggðina, þá ætti að vera hægt að byggja upp sæmilega framleiðslu og sæmilegt atvinnulíf úti um land. En það þarf til þess áræði, það þarf til þess kjark, það þarf til þess skipulagningu og það þarf til þess fjármagn. Ég vona að sú stefnumörkun, sem stuðningsflokkar ríkisstj. eru að fjalla nú um, muni að einhverju leyti bera þau merki að stjórnarflokkarnir hafi kjark til þess að taka á þessum vandamálum, hafi raunsæi til þess að vinsa það úr sem mundi gefa besta raun. En það gerist ekki ef það verður ekki séð til þess, að það fólk, sem er úti í strjálbýlinu nú, hafi svipuð lífskjör á næstu árum og aðrir í þjóðfélaginu, vegna þess að slíkri stefnu verður ekki hrundið í framkvæmd á einu eða tveimur árum, heldur á lengri tíma, og þess vegna verður Alþingi að hafa raunsæi til þess að búa þannig að þessu fólki á meðan að byggðin grisjist ekki þannig að óbætanlegt verði þegar við þurfum á þessari framleiðslu á halda. Það þarf líka að hyggja að því, hvernig á að hindra að þær jarðir, sem eru kannske best settar til landbúnaðar, lendi ekki í höndum á mönnum sem nýta þær ekki þannig og gera kannske um a. m. k. árabil ómögulegt að nýta þær þannig. Þetta er erfitt mál vegna þess að ég geri ráð fyrir að margir mundu segja að það væri verið að ganga á rétt manna ef ætti að hindra sölu jarða á frjálsum markaði að einhverju marki. En það er líka þá verið að hindra rétt og þörf þjóðarinnar til að nýta þessar jarðir í framtíðinni ef ekki verður eitthvað gert í því að stemma stigu við slíkri þróun.

Ég ætla svo að láta máli mínu lokið.