04.11.1980
Sameinað þing: 13. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í B-deild Alþingistíðinda. (286)

60. mál, framkvæmdir RARIK á Melrakkasléttu

Fyrirspyrjandi (Níels Á. Lund):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir greinargóð svör við fsp. minni, þótt ég hefði vissulega kosið að þau væru mun jákvæðari. Það stendur, sem ég gat um í fsp. minni í byrjun, að það hefði verið mun hagstæðari meðalvegalengd ef strax í byrjun hefði verið lögð línan frá Kópaskeri að Blikalóni. Þá hefði meðaltalskílómetrinn, ef ég má orða það svo, verið 2.7 í stað þess að vera 4.8 frá Leirhöfn í Blikalón.

Ég harma að það skuli ekki vera veitt meira fé í þessa framkvæmd, sem vissulega er mikil þörf á. Ég vil nefna það, að fyrir utan almenn not, sem bændur hafa af raforkunni, og get ég þá nefnt sérstaklega súgþurrkun, ég tala nú ekki um heimilisnot, er á einu býlinu, Núpskötlu, viðgerðarverkstæði fyrir bíla og einnig fer þar fram verulega mikil sögun á rekavið. Ég veit því að það kemur sér mjög bagalega að þarna skuli ekki vera örugg raforka fyrir hendi.

ríkisstj., sem situr nú að völdum, hefur það að markmiði sínu, svo ég vitni í stjórnarsáttmálann, með leyfi forseta, að innlendir orkugjafar komi sem fyrst í stað innfluttrar orku og unnið verði með viðeigandi öryggi að því að tryggja afhendingu orkunnar til notenda. Enn fremur segir svo í stjórnarsáttmálanum, með leyfi forseta: „Skipulag orkudreifingar verði tekið til endurskoðunar.“ Það má því búast við að framkvæmdir á þessum sviðum verði á næstu árum, og það er von mín að ríkisstj., sem nú situr, sjái til þess að þetta mál verði unnið á kjörtímabilinu. Ég treysti ekki öðrum ríkisstj. betur til þess.