05.03.1981
Sameinað þing: 57. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2741 í B-deild Alþingistíðinda. (2864)

230. mál, svæðisskipulag fyrir Fljótsdalshérað

Flm. (Sveinn Jónsson):

Herra forseti. Á þskj. 453 hef ég leyft mér að leggja fram till. til þál. um svæðisskipulag fyrir Fljótsdalshérað. Till. er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um að skipulagsstjóri ríkisins beiti sér fyrir að gert verði svæðisskipulag fyrir Fljótsdalshérað í samvinnu við hlutaðeigandi sveitarstjórnir og aðra er málið varðar. Skipulag þetta nái til helstu þátta landnotkunar og landverndar og taki mið af æskilegri og mögulegri nýtingu landsgæða, félagslegum viðhorfum og áætlunum um atvinnuþróun á svæðinu.“

Till. fylgir grg. og skal ég hér gera henni nokkur skil. Ég vil fyrst víkja að tilganginum með gerð svæðisskipulags. Yfir orðin skipulag og áætlanagerð nær á ensku aðeins eitt orð, þ. e. planning. Það er því mikilvægt í þessu samhengi að gera sér grein fyrir sambandi og þýðingu þessara tveggja orða. Ég mun þó fyrst of fremst notast við orðið skipulag.

Skipulagsstjóri ríkisins hefur tjáð mér, að til þessa hafi aðeins eitt svæðisskipulag verið unnið hér á landi áþekkt því sem hér er að stefnt. Náði það til þriggja hreppa, þ. e. Selfosshrepps, Ölfushrepps og Hveragerðishrepps. Sú vinna, sem þar var unnin, lofaði góðu og var fyrsta þætti hennar lokið 1978. Segja má að þar við sitji, þar sem hlutaðeigandi sveitarfélög hafa ekki sýnt málinu tilhlýðilegan skilning og staðið hefur á staðfestingu af þeirra hálfu.

„Markmið svæðisskipulagsvinnunnar“ — ég vitna hér til grg. með áðurnefndu svæðisskipulagi — með leyfi hæstv. forseta — „er að veita íbúum svæðisins nokkra tryggingu fyrir að landnotkun verði í samræmi við almennar þarfir þeirra og í samræmi við kosti landsins og hæfni til að mæta þeim þörfum. Tillagan á að vera verkfæri íbúanna og kjörinna fulltrúa þeirra sveitarstjórna til þess að ná þessu marki.“

Ég vil enn fremur — með leyfi hæstv. forseta — vitna í starfsreglur sem samvinnunefnd um skipulagsmál áðurnefndra hreppa voru settar. Þar segir í 4. gr.:

„Á uppdrætti skal auðkenna núverandi notkun lands.

Skulu þar sýnd svæði þau er tilheyra núverandi lögbýlum, grasbýlum og gróðurhúsabýlum, afréttir, sandgræðslusvæði, skógræktarsvæði, svæði sem tilheyra skólum eða stofnunum, friðuð svæði, sumarbústaðahverfi, svæði þau sem þegar hafa verið byggð eða skipulögð sem þéttbýli og annað sem máli þykir skipta. Einnig skal auðkenna á uppdrætti friðaðar minjar eða náttúruvætti, jarðhitasvæði sem þekkt eru, helstu borholur og aðalhitaveituæðar, helstu vatnsból sem þekkt eru og aðalvatnsveituæðar, háspennulínur og aðalspennistöðvar, helstu símalínur, jarðstrengi og loftlínur, malartekjusvæði, helstu rotþrær og frárennslisæðar og útrásir þeirra í árvötn og læki, þar sem vitað er um veiði, fiskeldisstöðvar og annað sem þykir skipta máli.“

Í 5. gr. segir enn fremur: „Á uppdrætti að aðalskipulagi skal sýna fyrirhugaða notkun lands og ráðgerða nýja vegi, hitaveitur, vatnsveitur, háspennulinur og frárennsli sem máli skipta. Auðkenna skal sérstaklega framtíðarlandbúnaðarsvæði, ráðgerð gróðurhúsahverfi, ráðgerð þéttbýlishverfi og sumarbústaðahverfi, skógræktarsvæði, ráðgerð svæði fyrir skóla og stofnanir, hverfi til fiskræktar, alifuglabúskapar, ráðgerð útivistarsvæði og gönguleiðir, svæði undir reiðskóla og reiðgötur, ráðgerð tjaldsvæði, svæði fyrir húsvagna, svæði sem æskilegt er að friða vegna sérstakrar fegurðar eða vegna sérstæðra náttúrumyndana, gróðurs eða dýralífs, og skal í þessu efni haft samráð við hlutaðeigandi náttúruverndarnefnd. Að öðru leyti skal höfð hliðsjón af reglugerð nr. 217 frá 1966 og samráð við höfunda Suðurlandsáætlunar eftir því sem ástæða þykir til.“

Fyrir liggur Austurlandsáætlun og í okkar tilfelli mundi þykja viðeigandi að hafa af henni hliðsjón við gerð skipulagsins. Svokallaðar byggðaþróunaráætlanir eiga rætur sínar að rekja til aðgerða ríkisvaldsins til viðnáms gegn þeirri búseturöskun sem átt hefur sér stað hér á landi meiri hluta þessarar aldar. Sem betur fer hefur þessari óheillaþróun verið snúið, en þó ekki vegna þessarar byggðaþróunaráætlana, sem hafa náð allt of skammt og því ekki verið hægt að fylgja eftir, en þær hafa í raun ekki komist nema rétt á gagnasöfnunarstigið.

Hér á landi skortir mikið á að unnið sé að kortlagningu, endurbættum landmælingum og þróun fjarkönnunar miðað við þarfir og þá möguleika, sem nútímatækni leyfir. Vöntun á slíkum gögnum og upplýsingum bitnar á margháttuðum rannsóknum sem æskilegar væru á náttúru landsins, skipulagsvinnu og framkvæmdaundirbúningi. Nægir að nefna þá hjálp og gagn sem ráðunautum bænda og bændum sjálfum yrði að þessum kortum, svo að ekki sé talað um Vegagerð ríkisins, Póst og síma, Rafmagnsveiturnar og fleiri aðila auk alls almennings.

Mikilvægt er að skipuleggja notkun lands og nýtingu auðlinda með heilbrigt umhverfi og þarfir komandi kynslóða í huga. Ráðstöfun lands og náttúrugæða getur haft áhrif um langa framtíð. Slíkar gerðir þarf að byggja á staðgóðri og víðtækri þekkingu, sem m. a. leiðir í ljós líkleg áhrif á náttúru, efnahagslíf og félagslegt og menningarlegt umhverfi. Þessara sjónarmiða mun gæta meira í framtíðinni við skipulag og áætlunargerð hérlendis, en því aðeins ná fram að þeim sé sýndur nægur skilningur og fjárveitingar tryggðar.

Skipulag landnotkunar tekur fyrst og fremst mið af hæfni landsins, landkostum í daglegu tali og möguleikum á nýtingu þeirra. Þekkingu á gerð landsins, byggingu þess, yfirborði, gróðurfari o. s. frv. eða m. ö. o. náttúrufarslegar forsendur eru grundvallaratriði við skipulagningu af þessu tagi.

Alþingi setti fram háleit markmið með landgræðslu og gróðurverndaráætlun til minningar um 1100 ára búsetu þjóðarinnar í landinu. Náði hún m. a. til aðgerða vegna gróður- og jarðvegseyðingar í byggð og á hálendi, átaks á sviði skógræktar og til rannsókna á verndun og hagnýtingu beitilanda. Einnig voru þar áform um gerð gróður- og jarðakorta, er næðu yfir allar byggðir og gæfu m. a. til kynna stærð hverrar jarðar, landamerki, ræktunarhæfni landsins, stærð og gæði beitilanda. Mikilvægt er að áfram verði unnið að þessum háleitu markmiðum. En ekki skal hér kveðinn upp dómur um þann árangur sem náðst hefur til þessa. Mér er í dag tjáð að ekki hafi orðið nema að nokkru leyti af þessum fyrirætlunum um kortagerð og það þó svo að Landmælingar ríkisins hafi mjög góðum tækjakosti á að skipa, en sá tækjakostur hefur ekki verið nýttur sem skyldi. Hér hefur ríkisvaldið ekki staðið sig sem skyldi því hér er fyrst og fremst kennt um fjárskorti til að standa straum af annars bráðnauðsynlegri kortagerð, og því hlýtur skilningsleysi ráðamanna að vera um að kenna. Hér á e. t. v. vel við orðtakið, að oft sé dýrt að vera fátækur. Menn gera sér væntanlega ekki grein fyrir því, hvaða tíma og kostnað og e. t. v. mistök það getur sparað þeim, sem á þessum gögnum þurfa að halda, væru þau fyrir hendi. Hér þarf því að koma til hugarfarsbreyting og skilningur á þessu mikla hagsmunamáli allra sem að áætlunargerð, skipulagi og framkvæmdaundirbúningi standa.

En við skulum jafnframt hafa í huga að þetta kemur íbúum landsins til góða á beinan eða óbeinan hátt. Hér er einnig um mikla heimildasöfnun að ræða sem kemur ekki aðeins okkur til góða, heldur einnig komandi kynslóðum sem kynna vilja sér söguna og staðhætti. Okkur ber til þess nokkur skylda að sjá svo um, að frá þessum þætti mála verði gengið á aðgengilegan máta. Ég tel að ekki sé hér sem svo víða annars staðar í þjóðarbúskap okkar lítið nægilega til framtíðar. Framkvæmdum í héruðum landsins skal mörkuð stefna sem byggist á úttekt á ástandi, þörfum og möguleikum. Grundvöllurinn á að vera byggður á skynsamlegu mati á mismunandi leiðum sem séu í sífelldri endurskoðun.

Stefnumörkun í málefnum landbúnaðarins er mjög til umræðu og þar sem annars staðar þarf að taka á málum af festu.

Fyrirsjáanlegar eru talsverðar breytingar í búskaparháttum og framleiðsluþáttum, og nauðsynlegt er að aðgerðir og framkvæmdir á þessu sviði valdi ekki stórfelldri röskun, en sú aðlögun, sem koma mun, verði vel yfirveguð.

Herra forseti. Ég hef hér reynt að gera því nokkur skil, hvaða tilgangi kortagerð og svæðisskipulag þjónar, og vil nú víkja að meir staðbundnum þáttum þessa máls.

Á Fljótsdalshéraði hefur byggð mjög eflst á undanförnum árum og er það fyrst og fremst að þakka vexti og viðgangi þéttbýlisins á Egilsstöðum og í Fellahreppi við Lagarfljótsbrú. Einnig er öflugur vísir að þéttbýli á Hallormsstað í tengslum við vaxandi skógrækt og grunnskóla. Á Eiðum er vísir að þéttbýli í tengslum við grunnskóla og alþýðuskóla. Með bættum samgöngum vex ferðamannastraumur með hverju ári, og vegna orðlagðrar veðursældar og fjölbreyttrar náttúru á Héraði hefur ásókn í sumarbústaðalönd mjög aukist. Þar hafa risið tvær þyrpingar slíkra bústaða, önnur á Einarsstöðum á vegum Alþýðusambands Austurlands, hin í Hjallaskógi á vegum einkaaðila, og að undirbúningi vegna tveggja annarra er nú unnið: á Eiðum fyrir 30–40 bústaði á vegum BSRB og í Eyvindardal á vegum kaupfélaganna á Austurlandi. Að auki hafa svo einstakir bústaðir risið víða um héraðið á undanförnum árum. Samræming og skipulagning þessara mála hefur verið í tágmarki og nauðsynlegt að úr verði bætt. Nú eru uppi áform um virkjun í Fljótsdal og að á Reyðarfirði verði komið upp orkufrekum iðnaði. Þetta eru allt þættir sem hafa veruleg áhrif á byggðaþróun á stórum svæðum, og hér falla saman á margan hátt málefni sveitarfélaganna á Héraði. Þar á við 3. gr. skipulagslaganna, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú hagar svo til, að skipulag í einu sveitarfélagi er að dómi skipulagsstjórnar svo háð skipulagi í nærliggjandi sveitarfélagi eða í fleiri nærliggjandi sveitarfélögum, að nauðsyn beri til þess að gera að einhverju leyti sameiginlegt skipulag fyrir þessi sveitarfélög, og getur ráðherra þá ákveðið, að samvinnunefnd verði skipuð til þess að gera tillögur um skipulag sem að þessu leyti er sameiginlegt fyrir sveitarfélögin.“

Í 4. gr. skipulagslaganna segir enn fremur: „Ráðherra getur að fengnum tillögum skipulagsstjórnar látið gera drög að héraða- og landshlutaskipulagi.“

Á vegum SSA, Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, hefur á undanförnum árum verið unnið að hagrænni áætlun fyrir allt Austurland og nær sú áætlun fyrst og fremst til þéttbýlisstaðanna. Síðasti hluti þessarar áætlunar er iðnþróunaráætlun sem nú er unnið að á vegum iðnþróunarnefndar heimamanna og starfshóps á vegum iðnrn. Talið er nauðsynlegt að tengja þessar hagrænu áætlanir meira við landnýtingaráætlanir hinna einstöku sveitarfélaga með gerð svæðisskipulags fyrir fleiri sveitarfélög, þar sem teknir eru inn þættir eins og landbúnaður, sem tiltölulega lítið er vikið að í Austurlandsáætlun, efnistaka, samgöngur, staðarval fyrir skógrækt, staðarval fyrir iðnað, orlofsbústaðir, náttúruvernd, útivist o. fl. Þessa vinnu væri jafnframt hægt að tengja gerð iðnþróunaráætlunar og þá e. t. v. sérstaklega með tilliti til samgangna og staðarvals fyrir iðnað af ýmsu tagi. En eins og áður sagði er lítið komið inn á landbúnaðarmál í Austurlandsáætlun, og talið er mjög brýnt að hafinn verði undirbúningur að svæðisskipulagi fyrir hreppana á Héraði. Landbúnaðarframleiðslan á Héraði hefur verið í góðu jafnvægi við markaðinn, en þar gæti nú nokkurrar röskunar sem m. a. á rót sína að rekja til aðgerða til lausnar framleiðsluvanda sem fyrst og fremst virðist þó vera annars staðar á landinu. Það heyrist nú einnig meir talað um ofbeit á afrétti sumra hreppa og deilumál hreppa þar að lútandi, — vandamál, sem hefur verið landlægt í öðrum fjórðungum um langt skeið, enda hefur þar verið varið stórfé til áburðardreifingar og uppgræðslu. En hér skulum við taka á vandanum áður en hann verður okkur ofviða.

Annað er það sem okkur Héraðsmönnum er sérlega hugleikið, en þarfnast skipulagningar því að þar mun verða bundið land til langrar frambúðar, ef við notfærum okkur þá möguleika sem þarna eru fyrir hendi, og hér á ég við nytjaskógrækt. Sú stefna er nú ríkjandi að draga verði úr hefðbundinni framleiðslu bænda, ég ætla ekki hér að fjalla um réttmæti þess. Þess er e. t. v. ekki eins mikil þörf á Héraði og víða annars staðar. En hér þykir engu að síður rétt að vekja athygli á þeim möguleikum sem fyrir hendi eru á Héraði til skógræktar.

Það hefur verið sýnt fram á það í reynd, að á Fljótsdalshéraði innan Egilsstaða vaxa áfallalítið eða áfallalaust flestar þær barrtrjátegundir sem teknar hafa verið til athugunar hér á landi. Lerkitegundir bera þar af öðrum hvað vöxt snertir og vaxa þar betur en á nokkrum öðrum stað á landinu. Mér tek ég til vitnis bókina Skógarmál, sem út kom 1977 og tileinkuð var Hákoni Bjarnasyni fyrrv. skógræktarstjóra. Um þessi mál hafa að auki margir fjallað í fjölda greina í blöðum og tímaritum.

Það er álit þeirra sem um skógræktarmál fjalla, að á Fljótsdalshéraði og nokkrum stöðum öðrum á landinu megi rækta allan þann trjávið sem fluttur er til landsins, að undanteknum harðviðartegundum að sjálfsögðu. Hægt hefur þó miðað í þá átt og er það okkur ekki sæmandi miðað við þá möguleika, sem landið virðist hér hafa að bjóða. Með þessu værum við að búa í haginn fyrir ókomnar kynslóðir sem mundu þakka okkur fyrir þá framsýni og það átak sem okkur ber að sýna á þessu sviði.

Herra forseti. Með till. þessari er verið að fara fram á það við ríkisstj., að hún hlutist til um gerð svæðisskipulags fyrir Fljótsdalshérað. Í 3. og 4. gr. skipulagslaga er nánar kveðið á um hvernig staðið skuli að gerð svæðisskipulags. Undirbúningur væri fyrst og fremst fólginn í skipun samvinnunefndar samkv. skipulagslögum, gagnasöfnun og kortagerð, svo sem að framan er rakið. Landmælingar ríkisins ráða yfir mjög góðum tækjabúnaði til að gera ortofotografisk kort, þ. e. kort sem eru í senn loftmynd og hæðarlínukort. Slík kort í mælikvarðanum 1:10 000 fyrir hin mikilvægari svæði og annars staðar í mælikvarða 1:20 000 mundu létta mjög gerð svæðisskipulags. Slík kort eru engin fyrir hendi af umræddu svæði og þessi kort mundu koma mörgum opinberum aðilum auk heimamanna að gagni.

Eðlilegt verður að telja að ríkið standi alfarið undir kostnaðinum af þessari kortagerð, vegna þess að margir opinberir og hálfopinberir aðilar mundu þar fyrst og fremst njóta góðs af. Kostnaðinum af skipulagsvinnunni yrði skipt jafnt milli sveitarfélaganna á Héraði annars vegar og ríkisins hins vegar samkv. 34. gr. skipulagslaganna. Það er því nauðsynlegt að verkefni þessu verði tryggð fjárveiting á fjárlögum fyrir næsta ár. Það er von mín að till. þessi hljóti afgreiðslu á yfirstandandi þingi og hægt verði að hefjast handa á árinu 1982. Hér er ekki um að ræða verkefni sem verður unnið í einum áfanga. Samvinnunefnd verður að raða verkefnum í forgangsröð. Þar er kortagerðin e. t. v. efst á blaði, enda verður t. d. ákvæði skipulagslaga um skipulagsskyldu allra sveitarfélaga ekki með góðu móti framkvæmd nema kort séu fyrir hendi. Skipulagsstofnun Austurlands hefur verið komið á fót á vegum Sambands sveitarfélaga á Austurlandi og við teljum æskilegt að verkefni þetta verði unnið á vegum stofnunarinnar í náinni samvinnu við skipulagsstjóra ríkisins og samvinnunefnd þá sem ráðherra mundi láta skipa til að vinna að undirbúningi málsins.

Herra forseti. Ég leyfi mér að gera þá till. að máli þessu verði að lokinni umr. vísað til hv. atvmn. Sþ.