05.03.1981
Sameinað þing: 57. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2746 í B-deild Alþingistíðinda. (2866)

240. mál, könnun á vinnutíma launþega

Flm. (Hákon Hákonarson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 472 svohljóðandi till. til þál. um skipun nefndar er kanni vinnutíma launþega:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa 5 manna nefnd er fái það verkefni að safna glöggum upplýsingum um hvernig raunverulegum vinnutíma hinna ýmsu starfshópa er háttað. Sömuleiðis verði kannað hvernig vinnutíma er háttað í hinum ýmsu byggðarlögum. Í nefndinni skulu sitja tveir fulltrúar tilnefndir af ASÍ, einn fulltrúi frá BSRB og einn fulltrúi frá BHM og einn skipaður án tilnefningar af félmrh. sem jafnframt skal vera formaður nefndarinnar.“

Herra forseti. Ástæðan fyrir því, að ég hreyfi þessu máli hér á Alþingi, er fyrst og fremst sú, að ég hef um árabil haft aðstöðu starfs míns vegna til að hafa samband við mikinn fjölda launþega í landinu og einnig haft aðstöðu til að fylgjast nokkuð með starfsháttum fyrirtækja. Það, sem vekur mesta athygli, er að Íslendingar eru yfirleitt vinnusamir og harðduglegir, tilbúnir að leggja á sig strangan og langan vinnudag til að skapa sér og börnum sínum viðunandi lífsviðurværi og búa í haginn fyrir komandi kynslóðir. En það vekur hins vegar spurninguna, hvort ekki sé ástæða til að staldra aðeins við og athuga hvort þessu takmarki megi ekki ná þó að aðeins sé slakað á spennunni.

Við lifum nú í heimi mikilla tækniframfara sem raunar gera það að verkum, að menn vita naumast hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Dæmi sanna okkur að nú þegar er tæknivæðing orðin það mikil í vissum starfsgreinum að orðin er minni þörf fyrir starfsfólk en áður og full ástæða til að ætla að svo verði í öðrum starfsgreinum á komandi árum. Ég vona að við getum öll verið sammála um að hófleg vinna er öllu fólki lífsnauðsyn, ekki aðeins til að afla sér fjár til lífsviðurværis, heldur einnig af félagslegum ástæðum.

Ég vek sérstaka athygli á aðstöðu þeirra einstaklinga sem af einhverjum ástæðum hafa verri aðstöðu, t. d. vegna örorku eða aldurs, að ganga í hvaða störf sem bjóðast. Ég vil minna hv. þm. á að þessir þjóðfélagshópar eiga engu minni rétt en aðrir á störfum við sitt hæfi. Á s. l. ári tók Félag málmiðnaðarmanna á Akureyri ásamt Menningar- og fræðslusambandi alþýðu, Málm- og skipasmíðasambandi Íslands og Slippstöðinni hf. á Akureyri þátt í samnorrænu verkefni sem nefndist Vinnan og heimilið. Hluti þessa verkefnis var ráðstefna sem sóttu milli 50 og 60 manns. Á ráðstefnunni voru fluttar nokkrar framsöguræður um vinnutíma og vinnufyrirkomulag. Óhætt er að fullyrða að menn voru þar sammála um að margvísleg hætta væri fyrir dyrum, ef ekkert yrði að gert. Raunar veit ég af samtölum mínum við ýmsa forsvarsmenn atvinnurekenda að þeir eru svipaðrar skoðunar.

Að lokum vil ég segja þetta: Tilgangur minn með þessum tillöguflutningi hér á hinu háa Alþingi er að fá menn til athafna í málinu. Ég tel að upplýsingar þær, sem reiknað er með að fáist með umræddri könnun, séu grundvallaratriði varðandi allt tal og allar athafnir um aukið launajafnrétti í landinu. Ég vil því leyfa mér að óska eftir að að lokinni umr. hér í dag verði þáltill. þessari vísað til síðari umr. og allshn.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.