09.03.1981
Efri deild: 62. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2749 í B-deild Alþingistíðinda. (2868)

229. mál, greiðslutryggingarsjóður fiskafla

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. sem við flytjum þrír þm. Alþfl. í þessari deild, þeir Eiður Guðnason og Karl Steinar Guðnason ásamt mér. Það fjallar um Greiðslutryggingarsjóð fiskafla.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að margvísleg dæmi eru um að svo mikill afli berist á land á einu landshorni að við ekkert verði ráðið og aflinn skemmist, hráefnið nýtist ekki sem skyldi, á sama tíma og atvinnuleysi blasir við annars staðar eða hefur dunið yfir fyrir sakir hráefnisskorts, fyrir sakir skorts á fiski. Um þetta er ég sannfærður að allir þm. kunna mýmörg dæmi.

Það hefur oft verið til umræðu manna á meðal og það jafnvel hér í þingsölum, hvort ekki væri ástæða til að skipuleggja betur með hvaða hætti þorskafla væri landað, og er þá einkum átt við landanir hinna stærri skipa, þ. e. togaranna. Menn hafa þá gjarnan vitnað til þess, að tekist hafi nokkuð vel til við skipun mála að því er varðar löndun á loðnu. Sannleikurinn er hins vegar sá, að málið er allt langtum flóknara og erfiðara viðfangs að því er varðar botnfiskafla eða þorskafla alveg sér í lagi.

Hins vegar hefur það komið í ljós í umræðum af þessu tagi, að ýmsir útgerðarmenn telja að þeir mundu hafa áhuga á því að landa afla úr skipum sínum á öðrum landshornum ef þeir gætu gengið út frá því sem vísu að aflinn yrði staðgreiddur. Þeir færa þá fyrir því m. a. þau rök, að stundum neyðist þeir til þess í fjárhagsvandræðum sínum að fara í siglingar með afla, jafnvel þó þeir hafi ekki beinlínis hug á því, en þeir verði að gera það af fjárhagsástæðum og þá sé veigamesti þátturinn í þeirri ákvörðun af þeirra hálfu sá, að aflinn sé staðgreiddur erlendis. Þetta bendir til þess, að með því að tryggja staðgreiðslu afla ætti að vera hugsanlegt að jafna hér nokkuð milli landshluta.

Nú er það kunnara en frá þurfi að segja, að ýmsir stjórnmálamenn og þá einkum þeir sem sitja í núv. ríkisstj., hafa talað mjög mikið um samræmi milli veiða og vinnslu. Í raun og sannleika er það frv., sem ég tala hér fyrir, kannske það fyrsta raunhæfa sem hefur verið lagt fram í þeim efnum. Það dugar lítið að tala og tala um samræmi milli veiða og vinnslu, en hafa svo lítið til málanna að leggja. Trú okkar flm. er sú, að með því að stofna greiðslutryggingarsjóð af því tagi sem hér um ræðir megi stuðla að auknu samræmi milli veiða og vinnslu.

Í sannleika sagt hefur verið ástæða til þess að gefa því gaum, hvort þetta frv. ætti ekki alveg eins að vitna til þess, að með því væri stuðlað að samræmi milli veiða og vinnslu. En það er fleira sem kemur til. Við Íslendingar höfum búið við það að undanförnu að geta sífellt aukið fiskafla okkar með því að bæta skipum í fiskiskipastólinn. Þegar á hefur bjátað á einu landshorni eða í tilteknu plássi hefur ráðið venjulegast verið að sjá til þess að þeir, sem þar byggju, ættu kost á að ná sér í ný fiskiskip. Nýjasta þróunin í þeim efnum hefur verið sú að hjálpa til þess að menn fengju skuttogara. Nýjasta dæmið af þessu tagi er ævintýrið á Þórshöfn sem hér hefur verið til umr. Ég held að það liggi ljóst fyrir, að öllum alþingismönnum þyki slæmt að til atvinnuleysis þurfi að koma í tilteknu plássi vegna þess að aðföng séu ekki nægilega ríkuleg af hráefni. Ég held að menn finni til þess hér á Alþingi og telji að það sé slæmt ef atvinnuástand má ekki tryggja t. d. á Þórshöfn. En sannleikurinn er sá, að sú aðferð, sem hefur verið notuð til þessa, nefnilega sú að bæta fiskiskipum við flotann, dugar ekki lengur. Staða mála er þannig, að afrakstursgeta fiskstofnanna er nokkuð þekkt og ákveðin stærð og hún mun ekki vaxa þótt bætt verði við fiskiskipastólinn — eða a. m. k. er óhætt að segja að ekki sé skynsamlegt að hún vaxi. Þess vegna er sú leið, sem menn hafa haft til að bæta úr öryggisleysi í atvinnumálum, sú leið að bæta skipum við flotann, ekki lengur fyrir hendi í raunhæfum skilningi. Hún er óhagkvæm, hún rýrir lífskjör okkar allra og hún getur verið myllusteinn um háls í þeim plássum þar sem skipunum er úthlutað. Þetta er það sem við sjáum fyrir okkur t, d. í sambandi við svonefnt Þórshafnarmál. Þá er spurningin: Getur ekki verið að einmitt í tilvikum sem þessum mundi það líka duga til þess að bæta úr tímabundinni atvinnueklu að gera mönnum kleift á þessum landshornum að staðgreiða afla og laða þannig til sín hráefni með sérstökum greiðsluskilmálum, t. d. að telja útgerðarmenn af því að sigla í staðinn? Það er á þessum tveimur aðalatriðum, sem það frv., sem hér er flutt, hvílir.

Í fyrsta lagi gæti slíkt fyrirkomulag orðið til þess að jafna hráefni milli landshluta þegar ekla er á einum stað, en offramboð á öðrum. Ég kann dæmi af því t. d. á Reykjanesi, þegar mjög mikið framboð var af fiski á ýmsum öðrum landshornum, en menn bjuggu við atvinnuleysi á Reykjanesi. Stundum snýr dæmið á hinn veginn, að það er of lítið framboð annars staðar á landinu.

En svo er hitt: Getum við ekki einmitt notað þetta ráð til þess að komast hjá því að auka við skipastólinn? Getum við ekki notað þetta ráð til að tryggja mönnum hráefni á stað eins og Þórshöfn yfir vetrartímann? Og ég segi: Ef þetta dugar ekki til skutum við gera aðeins betur. Alla vega er ljóst að þegar fiskiskipastóllinn er of stór er sú leið að bæta skipum í flotann til að tryggja hráefnisaðdrætti í einhver sjávarpláss beinlínis óhagkvæm og á kostnað þess flota, sem fyrir er, og reyndar þjóðarinnar allrar.

Það frv., sem hér er flutt, er tiltölulega mjög einfalt að allri gerð. Það er gert ráð fyrir því, að stofnaður verði sérstakur sjóður sem sé þó í umsjá og vörslu Aflatryggingasjóðs. Þetta form er valið til þess að vera ekki að setja upp óþarfabákn í kringum þessa nýju tilhögun. Stjórn Aflatryggingasjóðs er síðan ætlað að kjósa þriggja manna framkvæmdastjórn fyrir Greiðslutryggingarsjóð. Okkur flm. þótti rétt að stjórn Greiðslutryggingarsjóðs væri tiltölulega fámenn, þannig að auðveldara væri að boða fundi og taka ákvarðanir. Eins er hitt, að okkur þótti rétt, eins og kemur fram í grg., og leggjum það til í grg., en jafnframt í vald Aflatryggingasjóðs, að í stjórn Greiðslutryggingarsjóðs séu fulltrúar frá þremur meginþáttum sjávarútvegsins: frá vinnslunni, frá útgerðinni og frá sjómönnum. Þó það sé ekki tiltekið í lagagr. er ábending þar um í grg.

Tilgangur þessa sjóðs er sem sagt að tryggja staðgreiðslu afla sem landað er utan heimahafnar, á stöðum sem búa við hráefnisskort til fiskvinnslu. Trygging þessarar staðgreiðslu á að gerast með veitingu lána til fiskkaupenda. Aðferðin yrði sú, að eftir að samningar hefðu tekist milli fiskkaupanda eða fiskvinnslu og útgerðaraðila getur fiskkaupandinn sótt um lán úr þessum greiðslutryggingarsjóði til þess að aflinn yrði staðgreiddur. Greiðslan færi fram til útgerðarmannsins, en fiskkaupandinn yrði skuldaður fyrir láninu. Það væri fiskkaupandinn sem hefði tekið lánið. Í þessu felst trygging útgerðaraðilans fyrir því, að hann fái peningana jafnskjótt og lokið hefur verið löndun úr skipinu.

Við flm. höfum síðan valið það að setja ekki öllu flóknari reglur um meðferð þessa máls. Það er framkvæmdastjórnar sjóðsins, og reyndar tiltekið í lagagr., að taka afstöðu til lánsumsóknarinnar og meta hana á grundvelli þess, hvort samræmi sé á milli lánsumsóknarinnar og þess sem telst tilgangur laganna. Ef sjóðurinn veitir lán greiðist andvirðið til útgerðaraðila þegar að löndun lokinni. Það er svo sjóðsstjórnarinnar að setja reglur um, hvaða tryggingar hún telur nauðsynlegar fyrir lánum af þessu tagi, og setja reglur um lánskjör.

Stofnfé þessa sjóðs er ekki ætlað mjög hátt, einungis 5 millj. kr. eða 1/2 milljarður gkr. Er gert ráð fyrir því í 4. gr. þessa frv. til l., að Byggðasjóður leggi fram helming þessa fjár eða um 2.5 millj. kr., en Aflatryggingasjóður úr almennri deild 2.5 millj. Þetta yrði sem sagt eingöngu lánasjóður sem lánaði til fiskkaupenda, en greiddi til útgerðaraðila þegar þannig stæði á að hráefnisekla væri á tilteknum stað og úr mætti leysa með þessum hætti.

Við flm. erum auðvitað til viðræðu um það, að sú fjárhæð, sem hér er lögð til að verði stofnfé þessa sjóðs, geti verið einhver önnur. Við erum vitanlega til viðræðu um að setja strangari reglur um með hvaða hætti lán skuli veitt ef menn telja það nauðsynlegt. En okkar viðhorf hefur verið að í síbreytilegu þjóðfélagi og þar sem meta verði aðstæðurnar sé eðlilegast að sjóðsstjórnin setji sér reglur, bæði um tryggingar fyrir lánum og um lánskjörin sjálf, og síðan hlýtur það að vera ákvörðunarefni sjóðsstjórnarinnar, hvort taka skuli lánsumsókn til greina eða ekki.

Nú getur auðvitað enginn fullyrt um það, að þetta muni duga til að ná þeirri jöfnun í afla sem ég trúi að deildin öll og þingið allt og þjóðin í rauninni vilji gjarnan að komist á. Það getur enginn fullyrt um það, hvort þetta muni duga til að jafna met eða tryggja atvinnuástand. En þetta er þó a. m. k. tilraun til að ná samræmi milli veiða og vinnslu sem mjög hefur verið á milli tannanna á ýmsum án þess að þeir hafi nokkuð gert í því, sbr. hæstv. sjútvrh., og það er líka tilraun til að jafna milli landshluta eftir því hvernig á stendur.

Ef marka má þær umr., sem hafa farið fram í hópi útgerðarmanna, er ekki ólíklegt að spor af þessu tagi mundi geta skilað verulegum árangri. Það er hugsanlegt, að það spor þurfi að vera stærra. En þá verður á það að reyna. Þetta frv. er eiginlega flutt sem liður í mörkun nýrrar fiskveiðistefnu, nýrrar stefnu í útvegsmálum, — stefnu sem eigi að gera það kleift að efla undirstöðu atvinnulífsins, gera afkomu okkar hér betri og betri með því að hafa hemil á stærð skipastólsins, en leitast við að jafna aflanum með þeim ráðum sem tiltæk kunna að finnast.

Við flm. teljum að það sé ákaflega mikilvægt að menn komi sér nú til þeirra verka hér á Alþingi að móta nýja stefnu í þessum efnum. Sú stefna, sem fylgt hefur verið, hefur gengið sér gjörsamlega til húðar. Þess vegna er þörf nýrrar stefnu, bæði um endurnýjun flotans og hvernig halda skuli utan um heildarstærð hans og eins um það að koma til móts við byggðarlög sem búa við hráefniseklu, hvort heldur hún er tímabundin eða ekki.

Ég tel að með því að stíga þau skref, sem sett eru fram í þeim frv. sem við höfum hér flutt, væri þessum málum komið á nýjan og heilbrigðari grundvöll. Ég vara við því, að menn sofi á verðinum. Ég vara við því, að menn láti það sama gerast í sjávarútveginum og í landbúnaðinum. Ég vara við því, að menn búi sér til landbúnaðarvandamál í sjávarútveginum. Landbúnaðarvandamálið er nógu erfitt við að kljást eins og það er og eins og allir vita. Það er líka það, að ef seint er í rassinn gripið, eins og hefur orðið ofan á í landbúnaðarmálunum, er þeim mun erfiðara að snúa ofan af, þeim mun tímafrekara að snúa ofan af og koma sér á rétta braut.

Ég vænti þess, herra forseti, að þetta mál fái góða umfjöllun hér í þinginu og farsælar lyktir, að þetta mál verði samþykkt til heilla fyrir byggðarlögin og þjóðina í heild.