09.03.1981
Neðri deild: 61. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2761 í B-deild Alþingistíðinda. (2878)

11. mál, fiskvinnsluskóli

Frsm. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Þetta mál, sem er númer eitt á dagskránni, 11. mál, er frv. til l. um breyt. á lögum um Fiskvinnsluskóla. Það er þannig með þetta mál, 11. mál, að því fylgir annað, 24. mál sem er um breyt. á lögum um Framleiðslueftirlit sjávarafurða. Þessi mál hanga þannig saman að þau verður að afgreiða annaðhvort hvorugt eða bæði.

Frv. þessa efnis, um breytingu á lögum um Fiskvinnsluskóla og Framleiðslueftirlit sjávarafurða, hefur verið lagt fram hér á Alþingi a. m. k. tvisvar sinnum áður, en ekki hlotið afgreiðslu. Þessu máli var vísað til hv. sjútvn. þó að þetta sé menntamál, ekki veit ég af hverju, nema kannske því, sem manni dettur fyrst í hug, að menn vænti þess, að skjótari og betri afgreiðsla fáist hjá hv. sjútvn. sem er ekki vön að liggja á neinum málum sem til hennar koma.

Ég held að það sé varla ástæða til að fjölyrða mikið um þetta frv. Það er í stuttu máli um það að festa í lögum samband milli Fiskvinnsluskólans og Framleiðslueftirlitsins. Það er kveðið á um það að haft skuli samband við Framleiðslueftirlitið varðandi námskeiðahaldið, sem nú flyst allt til Fiskvinnsluskólans, og síðan er gerð breyting á skipun skólanefndar.

Sjútvn. hefur rætt þetta frv. á nokkrum fundum sínum, og eins og segir í nál. á þskj. 457 leitaði nefndin álits ýmissa aðila sem eiga hlut að máli; Fiskifélags Íslands og Framleiðslueftirlits sjávarafurða og svo skólastjóra Fiskvinnsluskólans. Við fengum bæði skriflegar umsagnir og eins fengum við þessa menn til okkar á fundi og til að ræða við þá beint. Nefndin setti sig því vel inn í málið eins og sjálfsagt er og skylt, og auk þess höfðum við samband við fulltrúa þeirra sem höfðu útskrifast úr þessum skóla.

Nefndin varð sammála um afgreiðslu málsins. Hún leggur til að frv., 11. mál, verði samþykkt með nokkrum breytingum. Breytingarnar eru fólgnar í því, að aðeins er breytt orðalagi þannig: „Skólinn skal hafa samráð við Framleiðslueftirlit sjávarafurða um námskeiðahald fyrir matsmenn“ o. s. frv. Við 2. gr. er lögð til lítils háttar breyting. Í frv, er gert ráð fyrir 11 mánaða skipulagðri starfsþjálfun, en því er breytt í 9 mánuði. Það er ekki gert í því skyni að draga úr kröfum, heldur til þess að þetta falli saman við lengd skólaársins, sem er 9 mánuðir. Þetta er eingöngu praktískt að þessu leyti. Í stað þessarar styttingar gerir nefndin till. um breytingu á frv. um Framleiðslueftirlit sjávarafurða þar sem bætt er við tveggja mánaða verklegri kennslu handa þeim sem útskrifast úr þessum skóla. Það fellur því í rauninni ekkert niður, það eru meira að segja auknar kröfur um verklega þjálfun heldur en hitt, þó að um styttingu sé að ræða á þessum stað.

Þá er gerð till. um breytingu á skipun skólanefndarinnar. Skólanefnd þessa skóla hefur verið skipuð fimm mönnum.

Till. er gerð um að úr fyrirsögn falli brott vísun til laga nr. 57 frá 21. apríl 1974, um fiskvinnsluskóla, ósköp einfaldlega vegna þess að nefnd lög eru ekki um neitt annað en skólanefnd Fiskvinnsluskólans, og þar sem verið er að breyta skipan þessarar skólanefndar með þessu frv. hlýtur sú grein að falla burt. (Gripið fram í.) Hún er ekki nema ein grein, um skólanefnd, annað ekki. Sjútvn. þessarar hv. deildar lagði til að skólanefndin skyldi skipuð þannig, að einn nefndarmanna væri tilnefndur af Fiskifélagi Íslands, einn af félagi lærðra fiskiðnaðarmanna, Fiskiðn, og einn úr hópi nemenda skólans. Þarna eru komnir þrír. Síðan lagði nefndin til að ráðh. skyldi skipa tvo nefndarmenn án tilnefningar, og er sú kvöð jafnframt lögð á ráðh. að velja þessa menn þannig, að annar þeirra kæmi frá framleiðendum, úr fiskvinnslunni, og hinn frá Framleiðslueftirlitinu.

Þetta eru, herra forseti, þær brtt. sem við höfum lagt til að gerðar yrðu. Og ég tek það fram einu sinni enn, að nefndin varð sammála í öllum atriðum um meðferð þessa máls.