04.11.1980
Sameinað þing: 13. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í B-deild Alþingistíðinda. (288)

60. mál, framkvæmdir RARIK á Melrakkasléttu

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég er dálítið hissa á þessum síðustu orðum hv. þm. Halldórs Blöndals. Ég veit ekki til þess að uppi séu neinar hugmyndir um að svíkja það að halda áfram þessari vegagerð. (HBI: Með þeim hraða sem lofað var.) Með þeim hraða sem lofað var? Það átti að gerast á þremur árum eða fjórum og það eru komin tvö ár, t.d. í sambandi við veginn frá Kópaskeri til Raufarhafnar. Það eru eftir tæpir 9 km af 27, og ef svipaður áfangi verður tekinn í sumar, sem ég vænti, þá verður staðið við það. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. Halldór Blöndal styðji okkur við það.

En hver lofaði framkvæmdum í sambandi við rafmagnið þarna á Sléttunni? Það væri gaman að vita hver gaf það loforð. Ég hef talað um þetta við fólkið á Sléttu og ég hef ekki heyrt að það teldi sig hafa fengið neitt loforð um rafmagn á þessu ári.

Það kom fram hjá hv. þm. Níelsi Á. Lund, að þarna á Sléttu eru menn á sumum jörðunum ekki með nema lítinn búskap, en lifa að miklu leyti á hlunnindum. Það er ekki einungis í Núpskötlu, heldur líka á Sigurðarstöðum, og þar af leiðandi er mjög brýnt fyrir þá að fá þetta rafmagn sem fyrst. Og þetta er ekki meira átak en það með þessa 27 bæi, að það þyrfti að klára þetta á einhverjum ákveðnum tíma, helst á tveimur árum. Raunar þyrfti að gera áætlun um þessi 56 býli, sem hæstv. iðnrh. minntist á, gera áætlun um þau og ljúka þessu, vegna þess að það er varla hægt að ætlast til að nokkur búi við það nú árið 1980 og þar á eftir að hafa ekki rafmagn.