09.03.1981
Neðri deild: 61. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2763 í B-deild Alþingistíðinda. (2881)

24. mál, Framleiðslueftirlit sjávarafurða

Frsm. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Eins og ég gat um áðan í sambandi við fyrsta dagskrárliðinn eru þessi tvö frv., 11. mál og 24. mál, óaðskiljanleg. Það fór eins um meðferð nefndarinnar á þessu máli og hinu, að hún varð honum sammála um afgreiðslu þess. Þannig leggur hún til að frv. verði samþykkt með nokkrum breytingum. Breytingarnar eru settar fram af nefndarinnar hálfu þannig, að tekið er svo til orða að 2. gr. frv. orðist svo, að 2. mgr. 9. gr. laganna orðist eins og þar segir, og eru þá allar breytingarnar inni í textanum. Ef hv. þdm. vilja gera sér grein fyrir því, í hverju breytingarnar eru fólgnar, verða þeir að lesa saman þessa grein í frv. sjálfu annars vegar og hins vegar í brtt. á þskj. 456.

Breytingarnar eru svo sem ekki mjög stórkostlegar, en þó nokkrar, þannig að það er líklega rétt að geta þess í hverju þær eru fólgnar.

Í fyrsta lagi verður breyting á 1. mgr. Í frv. segir að fiskiðnaðarmenn fái að loknu prófi í Fiskvinnsluskólanum löggildingu sem ferskfisk- og freðfiskmatsmenn. Þessu vill sjútvn. breyta þannig, að nemendur úr skólanum fái löggildingu sem freðfiskmatsmenn, en við teljum eins og fleiri, sem þekkja til í þessum efnum, að þessir nemendur hafi ekki fengið nægilega reynslu úr skólamenntuninni sjálfri til þess að meta ferskfiskinn, til þess þurfi þeir vinnu- og reynslutíma, sem vonandi leiðir til þess í framtíðinni, að mat á fiski verður samræmt eitthvað meira en nú er. Með prófinu fá þeir sem sagt löggildingu sem freðfiskmatsmenn, en þurfa að vinna við ferskfiskmat, eins og segir í næstu málsgr., í tvo mánuði eða 300 vinnustundir minnst með löggiltum matsmanni.

Það álítum við raunar allt saman lágmarkstíma og hefðum talið að um þetta þyrfti að setja ákvæði í reglugerð.

Í frv. er gert ráð fyrir því, að menn fái löggildingu sem matsmenn við að meta saltfisk og saltsíld og skreið með þeim skilyrðum, að þeir þurfi að vinna allt að tveimur mánuðum eða minnst 300 vinnustundir við að meta saltfisk og saltsíld, en þegar um skreið er að ræða var í frv. aðeins gert ráð fyrir rúmlega hálfum slíkum reynslutíma, þ. e. 170 stundum. Nefndin leggur til að þar þurfi að vera jafnlangur reynslutími, menn þurfi að vinna jafnlangan reynslutíma við að meta skreið og saltfisk og saltsíld. Við komum ekki auga.á það, að unnt sé að sleppa mönnum með miklu styttri tíma við að meta skreið heldur en saltfisk og saltsíld.

Ég veit ekki hversu margir hv. þdm. vita hvernig skreið lítur út. Hún er ekki opinn fiskur, heldur lokaður, og til þess að kanna ástand hennar þurfa menn áreiðanlega að venjast því vel að meta hana. (Gripið fram í.) Það hefði kannske ekki veitt af að hafa hérna dálítið námskeið. (Gripið fram í.) Já, ýmsir greinilega farnir að þorna heldur mikið hér.

En ég ætla ekki að fjölyrða um þetta. Aðalatriðið er það, að af hálfu nefndarinnar höfum við lagt til að láta nemendur vinna um 300 tíma við að meta þessa fiskframleiðslu til þess að verða löggiltir matsmenn. Ég held að það sé sanngjarnt og rétt að stefna að þessu.

Nú er það svo, að það eru fleiri sem meta fisk en nemendur Fiskvinnsluskólans einir. Fjöldi manna um land allt fæst við alls kyns fiskmat. Þeir þurfa auðvitað að fá sína löggildingu eftir að hafa að sjálfsögðu lært til þess verks á námskeiðum sem Fiskvinnsluskólinn heldur.

Það er talað um að sjútvrn. löggildi þá matsmenn einnig. Áður voru það lögreglustjórar. Löggildingin fer fram í ráðuneytinu, sem ekki er óeðlilegt, en til þess að unnt sé að löggilda þessa menn þurfa þeir að fá staðfestingu þess, að þeir hafi hlotið nægilega þjálfun til verksins, og þess vegna lét nefndin það fylgja. Það þarf að koma umsögn um það áður en þeir verða löggiltir. Sama er að segja um þá menn sem af einhverjum ástæðum teljast ekki hæfir til starfanna og þarf að svipta þessari löggildingu. Ef til þess kæmi grípur ráðuneytið þar inn í með því að svipta viðkomandi mann löggildingu til þessa starfs, en þá að fenginni umsögn þeirra sem til þekkja. Þess er einnig getið þarna og fannst nefndinni rétt að þetta væri hvort tveggja í frv.

Annað er varla umtalsvert, og ég held að það sé varla ástæða til þess, herra forseti, að tíunda það frekar. Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með þessum breytingum og ég vil enn þá leggja áherslu á það, að sem endranær stendur öll nefndin að þessari skynsamlegu lausn málsins.