09.03.1981
Neðri deild: 61. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2771 í B-deild Alþingistíðinda. (2884)

226. mál, atvinnuréttindi útlendinga

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Hv. 7. landsk. þm. hefur flutt hér alllanga tölu um þetta mál og komið víða við, þó ekki eins víða núna í þeirri seinni sem hann flutti og þeirri fyrri, þar sem hann ættfærði m. a. forustumenn félags farandverkafólks og rakti feril þeirra bæði í einkalífi og stjórnmálum með næsta rækilegum og óvenjulegum hætti. En það er ekkert nýtt að þessi ágæti þm. komi viða við í ræðum sínum. Hann gætir þess yfirleitt, þegar hann kemst hér í ræðustólinn, að koma aldrei nálægt því efni, sem á dagskránni er, nema sem allra, allra minnst. Í fáeinum tilvikum tókst honum það þó núna.

Í fyrri hluta ræðu sinnar ræddi hann um vinnumálaskrifstofu félmrn. Vinnumálaskrifstofa félmrn. var sett á stofn, eins og hann gat um, með lögum nr. 13 frá 1979, svokölluðum Ólafslögum. Í lögunum er ein grein sem kveður á um það, að setja skuli upp við félmrn. sérstaka vinnumálaskrifstofu. Þessi vinnumálaskrifstofa hefur þó nokkur verkefni samkvæmt þessari lagagrein, og hún hefur sinnt þeim að svo miklu leyti sem mögulegt hefur verið, miðað við þann mannafla sem skrifstofan hefur haft.

Í fyrsta lagi tel ég að atvinnuleysisskráning af hálfu félmrn. hafi verið bætt frá því að þessi vinnumálaskrifstofa tók til starfa. Yfirlit um atvinnuleysisskráningu eru gefin út reglulega, og þau hafa verið samræmd og eru á ýmsan hátt gleggri en áður var, eins og þeim mönnum er kunnugt um sem hafa nennt að lesa blaðafréttir sem birst hafa undanfarna mánuði um þessi mál.

Í öðru lagi hefur vinnumálaskrifstofa félmrn. gefið út reglulegt mat á atvinnuhorfum í landinu öllu, einstökum stöðum, svæðum og landinu í heild. Þessar niðurstöður hafa verið birtar almenningi með fréttatilkynningum til fjölmiðla, sem hafa vafalaust komið misjafnlega skýrt fram eftir blöðum og fjölmiðlum. En við höfum ekki legið á þeim, þær hafa komið fram opinberlega hverju sinni.

Í þriðja lagi hefur vinnumálaskrifstofa félmrn. sett á laggirnar samráðsnefnd aðila vinnumarkaðarins um atvinnuhorfur. Þessi samráðsnefnd kemur saman reglulega a. m. k. einu sinni í mánuði. Aðilar að þessari nefnd eru fulltrúar verkalýðssamtakanna og atvinnurekenda. Vinnumálaskrifstofan hefur auk þessa undirbúið sérstaklega að taka á atvinnumálaáætlunum í samvinnu við Framkvæmdastofnun ríkisins og Þjóðhagsstofnun. Þessi starfsemi er nýlega farin af stað, og það er ekki vegna þess að við í félmrn. höfðum ekki ýtt á eftir því, heldur hefur ekki tekist fyrr en núna að koma þessu samstarfi á sem skyldi. En það er komið í gang og á vafalaust eftir að bera einhvern árangur.

Það er hins vegar rétt sem hv. þm. gat um áðan, að það eru fleiri aðilar sem eiga að fjalla um atvinnumál í þessu þjóðfélagi en vinnumálaskrifstofa félmrn. Það eru atvinnumálaráðuneytin að sjálfsögðu, það er Framkvæmdastofnun ríkisins, svo ég nefni aðeins dæmi. Þess vegna er það fyrst og fremst hlutverk vinnumálaskrifstofunnar og félmrn. í þessu tilviki að reyna að rýna inn í þróun atvinnumála til lengri tíma og gæta að þeim boðum sem kunna að vera fram undan varðandi alvarlegan samdrátt í atvinnumálum.

Hv. þm. spurði: Hversu margir eru starfsmenn vinnumálaskrifstofu félmrn.? Svar: Starfsmennirnir eru einn, það er einn starfsmaður á vinnumálaskrifstofu félmrn.

Hv. þm. spurði hvort ráðh. teldi nauðsynlegt að bæta þarna við starfsliði? Svar mitt er jákvætt. Ég tel að það sé óhjákvæmilegt, og þá er ég ekki að hugsa um þetta frv. sem hér er, það er tiltölulega lítilvægt í þeim efnum, heldur tel ég að til þess að sinna þeim verkefnum, sem lögð eru á vinnumálaskrifstofuna samkv. lögum nr. 13 frá 1979, verði að bæta við a. m. k. einum manni. Það er mín skoðun. Það yrðu þá tveir menn starfandi í vinnumálaskrifstofu félmrn., í því mikla bákni sem þar er, ef marka má orð hv. þm.

Hv. þm. vék síðan nokkuð að frv. sjálfu, og almennt um hans athugasemdir vil ég segja það, að ef unnt er að ná sama árangri með öðrum hætti og minni fyrirhöfn en gert er ráð fyrir í frv., þá er ég sannfærður um að hv. félmn. deildarinnar tekur slíkar málefnalegar ábendingar til athugunar. Við höfum engar fastar endanlega mótaðar forskriftir um það, hvernig nákvæmlega eigi að þessu að standa, en við teljum að hér sé um að ræða skynsamlegustu og árangursríkustu aðferðina sem hér er sett á blöð. Ef hv. 7. landsk. þm. getur bent á einhverja aðra aðferð til að ná sama árangri, þá er velkomið að hlýða á hans tillögur í þeim efnum. Og ég er viss um að hv. félmn. deildarinnar, sem er skipuð mönnum með góða þekkingu á þessum málum, er reiðubúin að taka fullt tillit til jákvæðra ábendinga þm., sem hann er vafalaust reiðubúinn til að koma á framfæri í sambandi við þetta mál nú eins og mörg önnur mál sem hér hafa verið á dagskrá í deildinni.

Það er hins vegar rangt sem hv. þm. sagði, að í þessu frv. væri gert upp á milli íslenskra verkamanna og erlendra. Frv. hefur engan annan tilgang en þann, númer eitt, tvö og þrjú, að tryggja erlendum verkamönnum á Íslandi sömu réttindi, sömu kjör og íslenskir verkamenn hafa.

Hér er um að ræða reglu sem er auðvitað sjálfsögð, og í mörgum grannlöndum okkar í Vestur-Evrópu hafa slík ákvæði verið færð í lög fyrir löngu. Það er hins vegar reynsla fyrir því, það hefur verið sýnt fram á það með býsna átakanlegum hætti, að erlent vinnuafl hefur verið flutt inn til nágrannalanda okkar og hefur verið látið búa við kjör sem eru miklu lakari en þarlent verkafólk á við að búa. Í þessum efnum mætti nefna dæmi jafnvel frá grannlöndum okkar hinum næstu, því miður, ég tala nú ekki um þegar lengra er farið, inn í Vestur-Evrópu eða suður eftir Evrópu. Þar er um að ræða alvarleg vandamál sem hafa skapað árekstra milli erlendra verkamanna og innlendra. Þessi lög hafa einmitt þann tilgang — eða þetta frv. ef að lögum verður — að draga úr hættu á þeim alvarlegu árekstrum sem komið hafa upp erlendis milli erlendra og innlendra verkamanna.

Að lokum, herra forseti, hef ég eina fsp. til hv. þm. Ber að skilja það svo, að andstaða hans við þetta frv. sé stefna Sjálfstfl? Er sá meiri hluti Sjálfstfl., sem er andstæður ríkisstj., andvígur þessu frv. og mun hann standa gegn því? Ég spyr vegna þess að hv. þm. er eini þm. úr röðum Sjálfstfl. sem hefur talað í þessum umr. Aðrir hafa ekki talið það ómaksins vert, fæstir að vera hér í salnum hvað þá meir. Þess vegna leyfi ég mér að draga þá ályktun, að orð þm. hljóti að vera til marks um það, að í Sjálfstfl. sé veruleg andstaða við þetta frv. Það kæmi að vísu ekkert á óvart þó að svo væri. Það væri að mörgu leyti í góðu samræmi við sögulega fortíð þeirra pólitísku afla sem Sjálfstfl. á rætur að rekja til. Það væri út af fyrir sig ekkert til að verða undrandi á, ekki heldur með tilliti til þess, að þessi hv. þm. hefur í allan vetur í rauninni verið aðaltalsmaður Sjálfstfl. hér í flestöllum málum sem upp hafa komið. Þess vegna er fsp. lögð fram. Ber að líta á orð hv. þm. gegn þessu frv. sem stefnu Sjálfstfl. eða eru þau markleysa, marklaus ómagaorð?