09.03.1981
Neðri deild: 61. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2773 í B-deild Alþingistíðinda. (2885)

226. mál, atvinnuréttindi útlendinga

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er alltaf gaman að heyra í hæstv. félmrh. þegar hann er að komast hjá því að svara spurningum. Ég spurði hann beint að því, hvort það frv., sem hér liggur fyrir, væri samið í samráði og samvinnu við aðra þá aðila innan ríkiskerfisins sem fara með málefni útlendinga hér á landi. (Félmrh.: Þetta er stjfrv.) Ég nefni sérstaklega til dómsmrn. og Útlendingaeftirlitið. Og þá spyr ég, úr því að hæstv. ráðh. vill svara og grípa fram í: Liggur þá fyrir að hæstv. dómsmrh. sé samþykkur efnisatriðum þess frv. sem hér liggur fyrir?

Hæstv, félmrh. greip fram í og sagði að þetta væri stjfrv. Og hann spurði mig að því, hvort sá armur Sjálfstfl., eins og hann sagði, sem ekki styður ríkisstj., væri á móti frv. Ég spyr hann: Er sá hluti Sjálfstfl., sem er í ríkisstj., sammála öllum efnisatriðum þessa frv.? (Félmrh.: Þetta er stjfrv.) Hæstv. félmrh. vill ekki svara. Það skyldi þó aldrei vera svo, að hæstv. dómsmrh. væri ekki samþykkur frv. Það er leitt að hann skuli ekki vera hér í salnum til þess að hægt sé að spyrja hann beint að þessu. Það fæst ekki eitt einasta orð um það frá hæstv. félmrh., hvort í fyrsta lagi hann hafi borið þetta frv. undir þá aðila í ríkiskerfinu, sem fara með málefni útlendinga, og í öðru lagi hvort hæstv. dómsmrh. sé samþykkur þessu frv., en hann er yfirmaður Útlendingaeftirlitsins. Við því fékkst ekki heldur svar, sem var eftirtektarvert, hvort hæstv. félmrh. væri sammála því sem ég spurði um áðan, að maður, sem vikið hefði verið úr landi, skyldi ekki fá atvinnuleyfi hér á landi. Við því fékkst ekki svar, sem ekki er von, vegna þess að ríkisstj. hangir á þeim bláþræði að frú Gervasoni haldi áfram stuðningi við hana.

Hæstv. félmrh. sagði hér áðan með töluverðum myndugleik, að það væri markmið þessa frv. og annað ekki, að útlendingar skyldu hafa sama rétt og búa við sömu kjör og Íslendingar. Þá spyr ég: Hvernig stóð á því, að hans menn í félmrn. gátu ekki fallist á að þessi setning stæði í frv., sem Vinnuveitendasambandið lagði til, með leyfi hæstv. forseta: „Útlendingar skulu njóta launa og starfskjara sem heimamenn og hafa réttindi og bera skyldur í samræmi við viðkomandi kjarasamning?“ Ef þetta var tilgangurinn, sem lýsir sér í þessari setningu, hvernig stóð þá á því, að hæstv. félmrh. treysti sér ekki til að taka af skarið? Það þurfti ekki í rauninni að segja meira. Og inn á það var ekki heldur komið áðan af hæstv. félmrh., hvort hann ætlaðist til að ákvæði 2. tölul. 3. gr., þar sem fjallað er um ýmis réttindi útlendinga, yrðu skilin á þann veg, að í þeim fælust forréttindi gagnvart íslensku verkafólki. Um það fékkst ekki eitt einasta orð.

Svo verð ég nú að segja að ég dáist að þessum eina manni í félmrn., sem er með vinnumálaskrifstofuna, ef hann hefur með sómasamlegum hætti getað gert allt það sem hæstv. ráðh. sagði að hann hefði gert, gengið svo langt meira að segja að rýnt inn í þróun atvinnumála langan tíma, — einn maður sem hefur tekið á sig margvísleg önnur störf. Og hann talar um tvo menn. En það hefur bara ekki verið við það staðið að gera tillögur um úrbætur í atvinnumálum. Þessi hæstv. ráðh. samþykkti það hér, ég man nú ekki hvort það var í Ed. eða Nd., þegar Ólafslögin voru sett, að þessi vinnumálaskrifstofa skyldi gera tillögur um úrbætur í atvinnumálum. Við þetta hefur ekki verið staðið. Það kom fram hjá hæstv. ráðh. áðan. Það hefur ekki heldur verið staðið við það að gera ráðstafanir til að greiða fyrir tilfærslum starfsmanna milli atvinnugreina og landshluta og jafnframt að veita öryrkjum og unglingum aðstoð við að finna vinnu við hæfi, eftir því sem kostur er, sbr. ummæti ráðh. áðan. Það liggur því fyrir, að þessi deild félmrn. rís ekki undir nafni og stendur ekki undir lögum. Og við því er ekki heldur að búast ef hrúgað er upp lögum, en síðan ekki séð um að mannafli sé til þess að hrinda í framkvæmd því sem þar er kveðið á um. Það er afskaplega auðvelt verk að semja lög um hvað eina ef því er síðan ekki fylgt eftir með fjármagni. Svo er t. d. um húsnæðismálalöggjöfina sem hæstv. félmrh. hafði svo mörg orð um að mundi auðvelda mönnum að eignast þak yfir höfuðið. Þar hefur ekki verið staðið við fyrirheitin. Skal ég svo ekki orðlengja það, enda ástæðulaust.

Ég hafði á hinn bóginn gaman af því þegar hæstv. ráðh. var að tala um sögulega fortíð þeirra stjórnmálaflokka sem nú eru við völd. Ég held menn muni eftir því, að Sameiningarflokkur alþýðu — Sósíallistaflokkurinn varð fyrst að afli í íslenskum stjórnmálum þegar sett voru gerðardómslög á sjómenn. Og það var einmitt í þeirri bylgju sem á eftir kom sem Sameiningaflokkur alþýðu — Sósíalistaflokkurinn náði undirtökum í Dagsbrún. Og þessi bylgja var nægilega stór til fleyta þáverandi formanni Dagsbrúnar Sigurði Guðnasyni, inn á þing og síðan Eðvarð Sigurðssyni. Og nú er hv. 7. þm. Reykv., Guðmundur J. Guðmundsson, samsvarandi maður hér á hinu háa Alþingi. Það var baráttan á móti gerðardómi á sjómenn sem bjó þetta til. Hins vegar gerðist það svo í fyrsta skipti sem núv. hæstv. félmrh. komst í ríkisstj., hv. 2. þm. Reykv., Svavar Gestsson, að settur var gerðardómur á sjómenn aftur. Og hann beitti sér sérstaklega fyrir því ásamt þeim ráðh. öðrum sem sátu í ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar sumarið 1979. En það sýnir hins vegar á hvaða brauðfótum okkar þingræði stendur, að þessi brbl. voru aldrei borin undir Alþingi. Það var hlaupið í það skjólið, að gildistími þeirra væri útrunninn, og þess vegna reyndi ekki á hvort brbl. hefðu þingfylgi. Og það var í skjóli þess, sem hæstv. félmrh. gat talað um það fyrir síðustu kosningar að hann mundi ekki skerða kjarasamninga, þó hann hafi raunar gert það bæði 1. des., 1978 með löggjöfinni sem sett var fyrir 1. des., og síðan með Ólafslögunum. Hann hljóp í þetta skjól.

En nú er aftur komið að því að hann bregst sinni sögulegu fortíð með þeim brbl. sem sett voru á gamlársdag, þar sem gert er ráð fyrir að taka 7% af hverri krónu lægst launaða fólksins og fleygja á verðbólgubálið. Þessi ungi og glæsilegi stjórnmálamaður, sem hæst allra hefur talað um að stjórnvöld eigi ekki undir neinum kringumstæðum að grípa inn í kjarasamninga og mest af öllum þm. talar um sögulega fortíð og annað því um líkt með merkissvip; hann er forgöngumaður þess í Alþb. að við liggur að kjarasamningar séu brotnir með lögum, brotnir á bak aftur á messerisfresti og stundum með hverri tunglkomu. Og sá, sem er dyggasti stuðningsmaður hans í þessu, er formaður Verkamannasambandsins og svo sérlegur fulltrúi stjórnar Bandalags starfsmanna ríkis og bæjar, frú Gervasoni.