09.03.1981
Neðri deild: 61. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2775 í B-deild Alþingistíðinda. (2886)

226. mál, atvinnuréttindi útlendinga

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það er annars alveg makalaust þegar ráðh. bera fram fsp. til þm. að þeir skuli ekki svara þeim. Þó það hafi verið gert mjög ítarlega í alllangri ræðu, sem ég flutti hér áðan, og þó að hv. þm. hafi haldið þrjár ræður þegar við þessa 1. umr., þá hefur hann enn ekki komið að því máli sem skiptir þó öllu í þessu sambandi, og það er þetta: Stendur Sjálfstfl. á bak við þann málflutning sem hv. þm. hefur leyft sér að hafa í frammi hér í dag? (HBl: Er dómsmrh. með frv.?) Eða eru það aðeins ómerk ómagaorð eins og fyrri daginn sem þm. hefur hér uppi í þessum virðulega ræðustól? Það er líklega að svo sé, eftir síðari ræðu hans að dæma, að það séu ómerk ómagaorð og það sé ekkert að marka þetta uppþot, Sjálfstfl. taki ekki frekar en fyrri daginn mark á þessum hv. þm. Það kæmi mér ekkert á óvart.

Varðandi aftur það sem hann spyr nú um í sambandi við hæstv. dómsmrh. og dvalarleyfin, þá vil ég taka það fram, að ég tel að félmn. eigi að athuga með hvaða hætti atvinnuleyfi verða tengd málinu. Það hef ég tekið fram áður við þessa umr. svo og hæstv. dómsmrh. Hins vegar hlustar þessi hv. þm. yfirleitt aldrei á það sem máli skiptir hér á þingi og grípur helst upp setningar úr samhengi og snýr út úr þeim. En það er hans vandi, og vegur hans minnkar stöðugt við hverja ræðu sem hann flytur af því tagi sem hann hefur flutt hér í dag. Vona ég þess vegna að hann flytji þær sem allra flestar.